Jeremía 23. kafli

Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“

Það glittir í von hjá Jeremía, þrátt fyrir að þjóðin hafi verið send í útlegð, þá er von. Drottinn hefur ekki yfirgefið sitt fólk. Það verður nýtt upphaf.

Enn á sama tíma varar Jeremía við svikulum spámönnum sem spá gegn greiðslu, spinna upp sögur, styðja við illvirkja með orðum sínum.

Er ég aðeins Guð í nánd? segir Drottinn,
en ekki Guð í fjarlægð?

Þessi texti Jeremía er stórkostlega mikilvægur, enda minnir hann á stórbrotna og fjölþætta Guðsmynd Ísraelsþjóðarinnar. Drottinn (YHWH) er ekki einvörðungu Guð sem gengur í kvöldsvalanum, heldur og sá sem svífur yfir vötnunum og skapar.

Jeremía 21. kafli

Ég dreg yður til ábyrgðar fyrir verk yðar,
segir Drottinn,
og legg eld að skóginum.
Hann skal gleypa allt umhverfis sig.

Jeremía sér Drottinn sem geranda alls, allra hluta. Líkt og segir í Jobsbók: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ Í því ljósi er hefndin, afleiðing óréttlætisins, verk Guðs sjálfs.

Það er Drottinn sjálfur sem sendir hersveitir Nebúkadresar til Jerúsalem til að hneppa þjóð Júda í ánauð. Ekkert er Drottni um megn.

Jeremía er skýr, þeir sem ekki eru teknir og færðir til Babýlon eiga litla framtíð í Jerúsalem, munu verða hungri, sjúkdómum og sverði að bráð. Tími Jerúsalemborgar er ekki núna.

Jeremía 20. kafli

Boðberar vondra tíðinda hafa það víst ekki alltaf gott. Jeremía er húðstrýktur og settur í gapastokk fyrir bölsýni sína. Harmljóð Jeremía lýsir vandanum vel:

Í hvert skipti sem ég tala verð ég að hrópa og verð að kalla: „Ofbeldi og kúgun.“

Réttlætiskennd Jeremía leyfir honum ekki að þegja. Hann upplifir óréttlætið og þrátt fyrir að honum myndi farnast betur í þögninni, þá getur hann ekki lokað munninum. Hann verður að benda á það sem er að.

Jeremía 18. kafli

Þjóð mín hefur gleymt mér,
hún fórnar reykelsi fánýtum goðum
sem hafa leitt hana í hrösun
á gömlu götunum
inn á óruddar slóðir.
Þeir gera land sitt að skelfilegum stað
sem sífellt er hæðst að,
hver sem fer þar um
fyllist hryllingi og hristir höfuðið.

Jeremía varar við því sem framundan er. Kaflinn hefst á líkingunni um leirkerasmiðinn, sem byrjar upp á nýtt þegar leirkerið sem unnið er með skemmist. Orðum Jeremía er ekki mætt af skilningi, Jeremía upplifir hatrið í sinn garð, reiðina vegna spádómsorðanna. Þegar Jeremía hrópar til Guðs:

Má gjalda gott með illu?

Þá er augljóst að Jeremía telur sig vera að gera rétt, gera það sem gott er, þegar hann flytur orð Guðs. Jeremía vonast eftir iðrun og yfirbót þeirra sem heyra orðin, en þess í stað ákveða áheyrendur spádómanna að drepa sendiboðann. Jeremía reiðist og kallar eftir hefnd Guðs.

Jeremía 17. kafli

Sá sem aðeins treystir mönnum, en hafnar Guði missir af því góða sem framhjá fer. Afleiðing þess að virða einskis boð Guðs, líta framhjá Drottni leiðir til skorts og vanlíðunar samkvæmt orðum Jeremía, það líf sem lítur framhjá skaparanum einkennist af skortstilfinningu en ekki gnægð, svo ég noti Biblíulegt orðalag.

Enn á ný sjáum við í skrifum Jeremía tilvísun til 139. sálms Davíðs í versi 10. Enn það sem mikilvægara er við lærum að þó traust til Guðs leiði til þess að við horfum öðruvísi á stöðu okkar, merkir það alls ekki að lífið sé áhyggjulaust. Líf Jeremía er síður en svo laust við vandamál og erfiðleika. Jeremía þjáist vegna boðunar sinnar og hrópar á Guð um að snúa hag sínum og andstæðinga sinna.

Hann kallar íbúa Jerúsalem til að taka sinnaskiptum og virða boð Guðs og reglur samfélagsins, en hví að staldra við þegar við getum unnið og grætt.

Jeremía 16. kafli

Getur maðurinn gert sér guði?
Það væru engir guðir.

Orð Jeremía eru hörð og köld. Framtíð samfélagsins er engin, samkennd og meðaumkun eru ekki lengur til staðar. Jeremía varar við að Guð muni grípa inn í skeytingar- og lögleysið. Afleiðing lífsháttana verði samfélagshrun og fólksflutningar, en Exodus muni þó á endanum endurtaka sig, en að þessu sinni verði það Exodus allra þjóða.

Jeremía lítur svo á að Drottinn (YHWH) sé Guð allra þjóða frá endimörkum jarðarinnar. Allir muni játa að nafn Guðs sé Drottinn (YHWH).

Jeremía 15. kafli

Hlutskipti Jeremía er ekki eftirsóknarvert:

Vei mér, móðir, að þú fæddir mig,
mann sem á í málaferlum og deilum við alla landsmenn.
Ég hef engum lánað og enginn hefur lánað mér,
samt formæla mér allir.

Hann varar við því sem framundan er, í miðri gleðinni, í partýlátunum stendur Jeremía á mittisskýlunni og varar við að partýið endi í eymd, dauða og samfélagshruni. Hann kvartar undan móttökunum við Guð, hann upplifir sig berjast nær vonlausri baráttu, en treystir á fyrirheitið:

Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg
til að verjast þessu fólki.
Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig
því að ég er með þér,
ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn.
Ég bjarga þér úr höndum vondra manna
og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Að mynda traust

Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég færslu þar sem ég sagði:

Verkefni næsta biskups verður EKKI að endurvekja traust á kirkjunni. Einfaldlega vegna þess að það að búa til, endurvekja eða smíða traust er ekki verkefni í sjálfu sér. Traust myndast. Traust er ekki heldur markmið í sjálfu sér. Traust er verkfæri til að gera og vera. Það er gífurlega mikilvægt að næsti biskup skilji muninn á verkfærum og verkefnum. Það er ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli. Continue reading Að mynda traust

Dagbókarbrot frá janúar 2010

H.E.L.P. HAITI (14:00, Jan 11 2010)

Í dag var kannski skrítnast að hlusta á nemendurna hjá HELP, td hann Jean-Wilner. Þeir vilja breyta heiminum og byrja á Haiti. PPT sýningin sýndi það. HELP nemar nýta menntun sína í Haiti en flytja ekki erlendis eftir nám eins og stór hluti háskólanema gerir. Þeir virðast skilja þakklæti. Continue reading Dagbókarbrot frá janúar 2010

Von og hamingja

Tengsl vonar og hamingju eru áhugaverð. Þannig er mér minnisstætt þegar prófessorinn minn í Kristniboðsfræðum talaði um að rannsóknir í Afríkuríkjum bentu til þess að þeir sem tækju kristna trú færðust upp á við í þjóðfélagskerfinu. Mest áberandi væri breytingin frá hópnum sem lifði við eymd og færðist upp í hópinn sem býr við gífurlega fátækt.

Continue reading Von og hamingja

Vandamál skírnarskilningsins

Helgi Hóseason eyddi síðari hluta ævi sinnar í að fá skírn sína afnumda. Afskírnarhugtakið hefur á síðustu árum fundið sér farveg bæði í Bretlandi og Frakklandi og viðbrögð kirkjunnar hafa virst hálf fálmkennd og ómarkviss, enda snertir krafan um afskírn við grundvallarþáttum í Guðsmynd þeirra sem aðhyllast barnaskírn. Continue reading Vandamál skírnarskilningsins

Meira en trúfélag…

Það hefur verið borið á því í umræðunni um biskupskjör og reyndar í allri umfjöllun um þjóðkirkjuna, hugmyndin um að þjóðkirkjan sé meira en trúfélag. Þessi hugmynd felur í sér að trúfélag sé einhvers konar endanlegur veruleiki og utan trúar sé annar heimur, væntanlega í huga fólks heimurinn sem við lifum í.

Continue reading Meira en trúfélag…

Neysluviðmið, tjaldborg Péturs og hjónavígsluræða Tómasar

Fyrir mörgum árum fór ég í hjónavígsluathöfn hjá vinafólki þar sem Tómas Sveinsson annaðist athöfnina. Í ræðu sinni til parsins talaði hann um hjónavígsluathöfnina í tengslum við umbreytingarfrásögnina á fjallinu. Í athöfninni stæðu þau á fjallstindinum og allt væri frábært. Hins vegar stæði okkur ekki til boða að vera þar alltaf, það væri ekki valmöguleiki að setja upp tjaldbúð í blissinu. Við þyrftum að stíga niður af fjallinu og takast á við hið daglega. Continue reading Neysluviðmið, tjaldborg Péturs og hjónavígsluræða Tómasar

Jeremía 11. kafli

Guð lofaði þjóð sinni landi sem flyti í mjólk og hunangi, ef þau tækju við sáttmálanum sem Guð gerði við forfeður þeirra, en þau hlustuðu ekki og hlusta ekki. Jeremía bendir á að loforð og heilagt fórnarkjöt sé ekki leið til að sættast við Guð og í orðum Jeremía enduróma orð Amosar í orðastað Guðs.

Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar.
Ég hef enga ánægju af samkomum yðar.
Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir
lít ég ekki við þeim,
né heldur matfórnum yðar af alikálfum.
Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði.
Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn.
Réttvísi skal streyma fram sem vatn
og réttlæti sem sírennandi lækur.

Jeremía er hótað fyrir viðvörunarorð sín. Honum er sagt að ef hann hætti ekki boðun sinni muni hann deyja.

Jeremía 9. kafli

Upplifun Jeremía er af samfélagi vantrausts, lyga og blekkinga. Sannleikurinn hefur orðið eiginhagsmunum að bráð. Ekki er hægt að treysta bræðrum, vinir hafa gerst rógberar. Jeremía sér kúgun og svik gegnsýra samfélagið sem hann tilheyrir. Hrunið er yfirvofandi, óumflýjanlegt og væl þeirra sem sviku, prettuðu og lugu í kjölfar hrunsins er jafn fyrirsjáanlegt. Af hverju ég, spyrjum við, eftir að hafa kallað yfir okkur hremmingarnar.

Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og og hinn ríki hrósi sér ekki af af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig.

Því að ég Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.

Það að þekkja Guð í huga Jeremía er að láta sjálfsmynd sína skína af miskunnsemi, rétti og réttlæti.

Jeremía 8. kafli

Konungsríkið, hús Davíðs, sem átti að ríkja um aldir eins og stendur í 2Sam 7, á sér ekki mikla framtíð í spádómi Jeremía. Þjóðinni er ómögulegt að horfast í augu við gjörðir sínar, iðrunin er enginn, blygðunin er engin. Sjálfhverfan og sjálfseyðileggingarhvötin ræður ríkjum. Getuleysið er algjört þegar kemur að því að laga það sem hefur misfarist.

Guð grætur þjóð sína sem lætur ekki segjast.

Okurlánaviðskipti Múla

Þær eru trendí auglýsingarnar hjá Múla þessa dagana. Þeir bjóða lán til þeirra sem eru í klemmu og fyrsta 10 daga lánið er vaxtalaust. Ef ég geng út frá 10.000 króna láni í 10 daga reynist reyndar lánstökukostnaðurinn 4,5% sem reiknast sem 490% kostnaður á ársgrundvelli. Ef við hins vegar ákvæðum/þyrftum að framlengja lánið um 30 daga, þá myndu 10.450 krónurnar sem við skuldum eftir dagana 10, fyrst byrja að kosta okkur. Miðað við upplýsingar sem ég tók saman á vefsíðu Múla má reikna út að vextirnir af upphæðinni ásamt kostnaði yrði 3.404% á ársgrundvelli.* Continue reading Okurlánaviðskipti Múla