Vandamál skírnarskilningsins

Helgi Hóseason eyddi síðari hluta ævi sinnar í að fá skírn sína afnumda. Afskírnarhugtakið hefur á síðustu árum fundið sér farveg bæði í Bretlandi og Frakklandi og viðbrögð kirkjunnar hafa virst hálf fálmkennd og ómarkviss, enda snertir krafan um afskírn við grundvallarþáttum í Guðsmynd þeirra sem aðhyllast barnaskírn.

Skírnin er gjörningur Guðs, sem á sér stað með sýnilegum hætti í sakramenti kirkjunnar. Guð tekur viðkomandi skírnarþega að sér og sleppir ekki aftur. Eins og segir í spádómsbók Jesaja: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér,…“

Engin trúarleg stofnun getur tekið þetta loforð Guðs í burtu eða ógilt það. Að fjarlægja það úr kirkjubókum eða opinberum gögnum að loforð Guðs hafi verið birt með sýnilegum hætti gagnvart barni er augljóslega sögufölsun og markleysi. En hvað er þá til ráða?

Annað vandamál síðari ára tengt skírninni felst í spurningunni um foreldraréttinn, sér í lagi þar sem foreldra greinir á um skírnina. Hvað gerist ef annað foreldra hafnar skírninni og kærir sig ekki um að gjörningur Guðs eigi sér stað á sýnilegan hátt? Hvaða rétt hefur barnið og hitt foreldrið? Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er kannski fyrst og fremst, er Guð háður hinu sýnilega til að rista barnið í lófa sér?

Vandi barnaskírnarinnar er margvíslegur og auknar áherslur á réttindi barna og mannréttindi almennt, kalla á nýjar spurningar sem við þurfum að svara guðfræðilega. Nýjar áherslur í réttindamálum barna hafa kallað eftir því að börn eigi og megi hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta þau með beinum hætti, í samræmi við þroska og vitsmuni sína. Hvað merkja slíkar áherslur ef sjö ára barn fer fram á að taka skírn gegn vilja foreldris/foreldra. En ef barnið 3ja ára eða 16 ára? Með öðrum orðum, hvenær er barn fullgildur einstaklingur með eigin vilja í skilningi kirkjunnar og ekki síður og kannski öllu fremur, hvenær hefur barn öðlast þroska til að taka ákvörðun um að taka þátt í athöfn sem snertir Guðsvitund að mati yfirvalda?

Í tengslum við veraldlega kröfu um samþykki skírnarþega vakna líka guðfræðilegar spurningar um náðarverk Guðs í skírninni, þann grundvallarþátt barnaskírnarskilningsins að gjöf Guðs sé án skilyrða. Ef skírnarathöfnin, birtingarmynd loforðs Guðs, verður ekki framkvæmd án samþykkis skírnarþega, hefur athöfnin verið aðgreind frá náðargjöfinni sem er gefin skilyrðislaust. Með slíkri aðgreiningu er guðfræðileg merking barnaskírnarathafnarinnar brostin, eða hvað?

Þessu tengt vakna upp spurningar hvað gerist ef kirkjan tekur ákvörðun um skírn á barni, óafturkræfa ákvörðun, sem síðan reynist brot á gildandi lögum eða í misræmi við alsherjar reglu (hvað sem það þýðir). Getur kirkja Krists beðist velvirðingar/afsökunar/fyrirgefningar á gjörðum sínum ef um sakramenti er að ræða? Ef svarið er já, hvað getur falist í slíkri afsökunarbeiðni og hvað ekki? Og burtséð frá afsökunarbeiðni, er mögulegt að ógilda það sem gert hefur verið?

Kirkjan stendur frammi fyrir þessum spurningum í dag. Helgi Hóseason var á undan samtíð sinni. Tími Helga er að renna upp í Frakklandi í uppgjöri við rómversk-katólsku kirkjuna þar og í Bretlandi, þar sem enska biskupakirkjan leitast við að réttlæta tilveru sína með fjölda skírðra og fjöldi skírðra leitast við að hafna skírn sinni.

Spurningarnar sem við glímum við í heimi síð-kristindómsins eru margar og flóknar. Framtíð kirkjunnar snýst um að takast á við þær af heiðarleika og hreinskilni. Við þurfum að viðurkenna að við getum á stundum lent í klemmu þar sem foreldraréttur og barnaréttur fara ekki saman. Við þurfum að horfast í augu við að sumt verður ekki aftur tekið. Um leið þurfum við að viðurkenna að sumir kæra sig ekki um náð Guðs og kirkjan þarf að finna leið til að viðurkenna þá tilfinningu og skoðun ef eftir því er leitað.

Við þurfum að skilja að kirkjunni getur orðið á mistök, því kirkjan er ekki einvörðungu sú birtingarmynd Guðs ríkisins sem við játum í játningunum heldur ekki síður mannleg stofnun.

Fyrst og fremst hljótum við samt sem áður að hlusta. Hlusta á þá sem hafna náð Guðs, en kalla á sama tíma eftir viðbrögðum kirkjunnar við hugsunum sínum og óánægju. Við þurfum að takast á við það að kirkjunni ber að líta á gagnrýnendur trúarinnar sem Guðs dýrmætu sköpun ekki síður en þau sem sitja stillt og prúð í kirkjubekkjunum á sunnudögum.