Að mynda traust

Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég færslu þar sem ég sagði:

Verkefni næsta biskups verður EKKI að endurvekja traust á kirkjunni. Einfaldlega vegna þess að það að búa til, endurvekja eða smíða traust er ekki verkefni í sjálfu sér. Traust myndast. Traust er ekki heldur markmið í sjálfu sér. Traust er verkfæri til að gera og vera. Það er gífurlega mikilvægt að næsti biskup skilji muninn á verkfærum og verkefnum. Það er ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli.

Frederick Herzberg hefur bent á að það sem letji starfsfólk séu ekki sömu hlutir með andstæðum formerkjum og hvetji fólk til dáða (sjá t.d. vísun hér). Ef dregið er úr skaðlegum þáttum hvatningar þá leiði það ekki endilega til meiri hvatningar. Það sem hvetur okkur til góðra verka sé einfaldlega eðlisólíkt því sem letur okkur.

Það er líklegast hægt að segja svipaða hluti um traust. Það sem byggir upp traust, er ekki skortur á eiginleikum sem rífa traust niður. Það sem ég sleppti í skrifunum fyrir nokkrum mánuðum var að benda á að þó ekki sé hægt að endurvekja eða smíða traust, það myndast. Þá er mjög auðvelt að brjóta traust niður og eyðileggja það.

Ein mjög góð leið til að eyðileggja eigið traust og virðingu er að kvarta sáran undan peningaskorti og skera niður þjónustu, en samþykkja á sama tíma að leggja fé í undirbúningsframkvæmdir við dýrar skrautbyggingar. Það að hætta við skrautbyggingar mun svo sem ekki byggja upp traustið á ný, en hugsanlega draga úr áframhaldandi hruni.