Öryggi eða þroski

Fyrir nokkrum árum sat ég og hlustaði á upptöku af fyrirlestri Edwin Friedman þar sem hann velti upp hugsunum um kerfisbundin vanda í safnaðarstarfi. Hann benti meðal annars réttilega á að í kirkjulegu starfi séum við alltaf í spennu milli öryggis og ævintýra (þroska). 

Þannig sjái margir kirkjuna fyrst og fremst sem stað festu og óbreytanlega, en ekki lífsbreytandi veruleika, umhverfi sem kallar eftir þroska og vexti. Í þessu samhengi er áhugavert að lesa nýlegt blogg Sigríðar Guðmarsdóttur um miðaldadómkirkjuna.

Með því að skilgreina sig sem örugg höfn, leitast kirkjan við að stýra hvar kvíði (e. anxiety) brýst fram í stað þess leitast við að draga úr kvíðanum. Þegar hristir í, er því notast við varnarviðburði, eins og t.d.:

  1.  Vörn (e. reaction)
  2. Smölun (e. herding
  3. Ásökun (e. blaming)
  4. Reddingar (e. quickfix)

Þá reynum við að lesa og safna upplýsingum, en Friedman bendir (réttilega) á að gagnasöfnun eða sérhæfing leysi aldrei kerfisbundin vandamál. Eina leiðin sé að stíga út úr kerfinu þegar það verður úr sér gengið.

Á sama hátt er aldrei hægt að skilgreina ramma fullkomlega fyrir hópa eða söfnuði. Það er mikilvæg áminning fyrir þá sem trúa að rétt skrifaðar siðareglur eða vinnuferli geti útrýmt vandamálum. Það þarf alltaf að vera til staðar sjálfsstjórn (e. self-regulation). Ef sjálfsstjórn og persónulegir rammar eru ekki til staðar þá hegðar fólk og/eða stofnanir sér líkt og krabbameinsfrumur (ill- eða góðkynja eftir aðstæðum), algjörlega óháð öllum utanaðkomandi römmum og reglum.

Þannig getur aldrei verið markmið okkar að útbúa ramma og umgjörð fyrir fólk/stofnanir, þó það geti verið hugsanlega nauðsynlegt, sér í lagi til verndunar þeim sem veikari standa. Markmiðið hlýtur samt fyrst og fremst að vera að gera fólki gerlegt að vaxa og þroskast á eigin forsendum, í trausti til þess að það þroski með sér sjálfsstjórn og ramma. Þegar við leitumst við að leyfa fólki að vaxa og þroskast þá eru tvær forsendur sem er gott að hafa í huga.

  1. Fólk vex og þroskast þegar umhverfið kallar eftir því.
  2. Við getum ekki ræktað fólk, í besta falli getum við skapað aðstæður og verið fyrirmyndir (vaxið og þroskast sjálf).