Guð elskar ykkur, takk fyrir…

Hugleiðing á KSS fundi 5. maí 2012.

Guð elskar ykkur, takk fyrir, …

– gengið úr púlti, snúið við –

Nei, mér skilst að hefðin sé að hafa ræðuna lengri. Stjórn KSS bauð mér að tala hér í kvöld og sagði að ég mætti tala um hvað sem er, sem er ekki endilega sniðugt þegar ég á í hlut. Enda finnst mér gaman að tala um margt og gaman að tala lengi.

Mig langar að tala um elsku Guðs, eða öllu heldur hræðslu okkar við elsku Guðs. Það er nefnilega ekkert verra og erfiðara en að fá eitthvað frábært án þess að eiga það skilið. Nema þá ef einhver annar fær að njóta einhvers sem hann eða hún á ekki skilið að okkar mati.

Líklega eru þið öll búin að sjá The Hunger Games, og einhverjir af nördunum hér inni jafnvel búin að lesa bókina. Eins góð og myndin er, þá saknaði ég eins sem er erfitt að mynda og festa á kvikmyndatjald. Katniss, aðalsöguhetjan, hatar náð. Katniss hatar að fá gjafir sem hún getur ekki eða hefur ekki borgað fyrir. Þolir ekki að einhver sé góður við hana, hún vill vinna fyrir sér sjálf, vera sjálfstæð og öðrum óháð.

Hugmyndir Katniss eru skýrar í bókinni, og ég biðst afsökunar á að vísa í hana á ensku.

I feel like I owe him something, and I hate owing people (The Hunger Games (Suzanne Collins) – Highlight on Page 32 | Loc. 399)

Og síðar þegar Katniss veltir fyrir sér hvort að sendingin frá district 11, sé þakkargjöf eða tilraun til að borga til baka það sem þeir skulda henni í raun.

[A]s a thank-you? Or because, like me, they don’t like to let debts go unpaid? (The Hunger Games (Suzanne Collins) – Highlight on Page 239 | Loc. 2950).

Katniss lifir í heimi greiða og endurgjalds, eins og við. Það gerir enginn neitt fyrir neinn, sem gerir ekki neitt fyrir neinn. Ég er ég er ég og á það skilið. Hef unnið mér inn fyrir því. Takk fyrir.

Þannig syngjum við stundum „ég elska Guð“, við syngjum um „minn Guð“, einkaspeki stóð einu sinni í texta í Vatnaskógi um eitthvað sem við eigum svona prívat og vísaði til þess að við eigum Guð alein og sjálf. Mitt, mitt, mitt. Það er meira að segja sungið í einhverjum söng „að ég gefi Guði allt“ og þannig reynum við að sannfæra okkur um að Guð sé bara að borga okkur til baka með náðargjöf sinni. Þetta er eftir allt „minn Guð“ og ég hlýt á einhvern hátt að eiga þetta skilið.

Raunveruleikinn er hins vegar að ekkert okkar vill í raun og sann gefa Guði allt, og ekki síður hitt. Náðargjöf Guðs er ekki föl, hún er ekki til sölu. Algjörlega óháð því hvað við syngjum mikið og hátt, hegðum okkur vel og gerum mikið af góðum hlutum.

Náð Guðs fæst hvorki keypt né seld.

Það er þess vegna sem við þolum svo illa náðina, það að fá eitthvað endurgjaldslaust. Við reynum eins og við getum að búa til kerfi, reglur, lög til að réttlæta það að við séum elskuð af Guði. Og á stundum til að útskýra af hverju Guð elskar okkur meira en hina.

Algengast er að við bregðumst við vandanum á þann hátt að setja íþyngjandi reglur fyrir aðra en okkur sjálf. Við höldum á lofti því sem hentar okkur, en kannski kemur öðrum verr.

Í afbrotafræði er til kenningarkerfi sem leggur áherslu á að skilgreiningar á því hvað er lögbrot og hvaða refsing sé við hæfi, sé nátengt því hverjir það eru sem semja lögin. Í okkar heimi væru það karlar og stundum konur á aldrinum 40-55 ára, yfirleitt gift gagnkynhneigt fólk með börn og stöðugar tekjur.

Af þeim sökum eru lögum og siðaboðum að jafnaði beint að glæpum eða „syndum“ sem ungt fólk fremur og hópar sem ekki eru eins og þau sem setja reglurnar búa fremur við fordæmingu. Þetta á ekki aðeins við um lög heldur ekki síður Biblíutúlkanir. Textarnir eru lesnir og túlkaðir á þann hátt, sem styrkja hugmyndir okkar um að við séum góð, um leið og við fordæmum hina. Einfalt, skýrt og gott dæmi um þetta eru hjónaskilnaðir sem Jesús gagnrýnir harðlega í Biblíunni, en nefnir samkynhneigð ekki einu orði.

Samt er fjöldi fólks í kirkjunni sem telur samkynhneigð sérstaka synd, en þegir eða burtskýrir texta sem tala um hjónaskilnaði. Enda er það svo að þeir sem eru aðaltúlkendur orðsins, fólk eins og ég á frekar í hættu að ganga í gegnum skilnað en þurfa að endurskilgreina kynhneigð sína.

Hér er ég ekki að segja að skilnaður sé stærri synd en eitthvað annað, alls ekki. Ég er einfaldlega að benda á að þeir sem ráða, hafa áhrif á hugmyndir okkar um rétt og rangt. Ráða því hvaða áherslur við höfum í lögum landsins og líka hvað virðist skipta máli í framsetningu á boðskap Guðs. Enda er það svo að hugmyndir um að ein synd sé meiri eða minni en önnur er einfaldlega marklaus í hugmyndaheimi t.d. Páls postula og Jesús Krists. Syndir felast enda ekki fyrst og fremst í gjörðum okkur heldur afstöðu. En það er efni í aðra hugleiðingu.

Í raunveruleika okkar er samt svo að glæpir og/eða syndir þeirra valdaminni eru yfirleitt harðar dæmdir, en þeirra sem setja reglurnar.

Af hverju skiptir þetta máli þegar kemur að elsku Guðs? Jú, við sem erum góð og fullkomin, – ég meina við sem ráðum, – setjum stundum fram boðskapinn um Guð á þann veg að við eigum elsku Guðs skilið.

Ég til dæmis er ekki samkynhneigður. Ef ég héldi því fram að samkynhneigð sé ill í augum Guðs þá er ég í vissum skilningi að finna ástæðu fyrir Guð til að elska mig meira en einhvern annan. Ég geri eitthvað rétt, en einhver annar geri það ekki.

Á sama hátt hef ég aldrei orðið ofurölvi, þannig að í regluverki sem segir drykkju andstæða vilja Guðs, þá færist ég lítillega nær því að Guð eigi að elska mig, frekar en einhvern drykkjubolta.

Þannig verður til syndaskilningur, regluverk sem er byggt utan um hver ég er, velmenntaður karlkyns gagnkynhneigður guðfræðingur alveg að verða fertugur í góðri vinnu, með yndislega konu og frábær, vandræðalaus og gáfuð börn.

Þetta regluverk eða syndaskilningur miðar að því að sannfæra mig um að ég sé góður og eigi á einhvern hátt meira skilið að Guð elski mig en einhvern annan. Ég geri enda allt rétt og gef meira að segja peninga til góðgerðarmála.

Ég tek síðan þátt í að styrkja þessar hugmyndir um að ég sé frábær og geri meira rétt en flestir, því ég þoli ekki að Guð elski mig eins og ég er, skilyrðislaust. – Ég vil hafa skilyrði sem ég get uppfyllt en ekki aðrir.

Eina vandamálið við þetta frábæra módel mitt er að „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð“ eins og segir í bréfi Páls postula til íbúa í Róm, Rómverjabréfinu. Alveg sama hvaða reglur ég og aðrir eins og ég, búa til um að aðrir séu ekki jafngóðir og ég, þá er ég undir náð Guðs. Afstaða okkar til Guðs er alltaf bjöguð, en Guð elskar mig algjörlega óháð afstöðu okkar og gjörðum.

Og það sem er næstum meira óþolandi en að ég njóti náðar og elsku Guðs, er sú staðreynd að allt mannkyn er líka elskað skilyrðislaust af Guði.

Norski fræðimaðurinn Gunnar Elstad heldur því fram að allar manneskjur glími við þrjár spurningar alla ævi. Spurningarnar eru:

  • Elskar mig einhver?
  • Vill einhverja leika?
  • Get ég gert gagn?

Vandamál Katniss í Hungurleikunum, andúð hennar og margra okkar á náðinni er að við höfum blandað saman spurningunni um elskuna og þörfinni fyrir að gera gagn. Við höldum að til að við séum elskuð þurfum við að gera eitthvað rétt, vera til gagns.

Katniss skilur þannig sjálfa sig, út frá systur sinni. Hún hefur ekki efni á að hafa prinsipp, hún getur ekki ákveðið að vera hún sjálf. Hún þarf nefnilega að vernda systur sína, aðeins þannig er hún einhvers virði.

Svar Guðs við spurningunum er hins vegar ekki skilyrt. Náðargjöf Guðs blandar ekki spurningunum saman, svörin eru einfaldlega
Já, ég elska þig.
Já, ég er með þér.
Já, þú ert mikilvæg/mikilvægur.

Svar Guðs er Já, sama hvað…

Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.
Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, [segir Guð] múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér…

stendur í 49. kafla Jesaja. Það er sama hversu reið við verðum, sama hversu mikið það fer í taugarnar á okkur. Við erum rist í lófa Guðs. Við erum elskuð að Guði.

Viðbrögð okkar geta verið margskonar. Við getum reiðst og barist á móti. Við getum hafnað Guði, haldið því fram að náðin sé markleysa og vitleysa.

Það nefnilega fylgir ein óþolandi staðreynd, óásættanleg staðreynd, fullyrðingunni um náð Guðs. Fólk sem var leiðinlegt og illt hér á Jörðinni gæti verið að finna í Himnaríki.

Við getum leitað að ástæðum fyrir náðinni, reynt að skilyrða hana. Stimplað þá sem eru ekki eins og við, skipt heiminum upp í við og hinir. Við getum fundið eða búið til ástæður og afsakanir fyrir því að Guð elski okkur með því að dæma og gagnrýna aðra. Við getum sannfært okkur um að við höfum unnið okkur elskuna inn með að vera ekki eins og hinir.

Eða við getum einfaldlega gefist upp fyrir náð Guðs, þakkað Guði fyrir að vera sá sem Guð er og leitast við að lifa í þakklæti og trausti til Guðs.

því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau. (Ef 2)

Það er hins vegar drulluerfitt að lifa í þessu þakklæti og trausti til Guðs. Það er miklu miklu einfaldara að lifa í blekkingunni um að við eigum elsku Guðs skylda. En þannig er það bara ekki. Í öðru Jóhannesarbréfi segir:

Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.

Með öðrum orðum Guð elskar okkur, sama hvað. Við erum sköpun hans, við höfum hlutverk, við tilheyrum Guði. En það er ekki vegna hlutverksins sem Guð elskar okkur. Guð elskar okkur ekki svo að hann geti leikið við okkur eða hlustað á okkur syngja lofgjörðarsálma. Nei, Guð elskar okkur, sama hvað.

Við sem erum eins og Katniss getum látið það pirra okkur að vild, hlaupið um stimplað fólk, jafnvel hafnað Guði alfarið en það breytir engu.

Guð elskar ykkur samt, takk…