Að eiga umhyggju Jesú gagnvart hinum þurfandi

– Ræða á samkomu KFUM og KFUK í Reykjavík sunnudaginn 11. nóvember 2012 kl. 20:00.

Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Mt 9.35-38)

Það kom símtal í vinnuna mína á föstudaginn. Það koma reyndar mörg símtöl í vinnuna mína á hverjum degi, en þetta símtal var svolítið áhugavert. Í símanum var óánægður einstaklingur, fannst eins og KFUM og KFUK hefði brugðist og sinnti ekki hlutverki sínu nægilega vel. Continue reading Að eiga umhyggju Jesú gagnvart hinum þurfandi

Jeremía 29. kafli

Því ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonaríka framtíð.

Uppáhaldsversið mitt er í þessum kafla. Áherslan á vonina, horfa fram á veginn. En ég held ég hafi aldrei náð samhenginu að fullu fyrr en nú. Jeremía skrifar þessi orð til fólksins í útlegðinni í Babýlon. Hann kallar þau til að lifa í dreifingunni, hann segir þeim:

Reisið hús og búið í þeim. Gróðursetjið garða og neytið ávaxta þeirra. Takið yður konur og getið syni og dætur. … Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til.

Við eigum að takast á við þær aðstæður sem eru óumflýjanlegar, horfast í augu við að framtíðin og vonin felast stundum í því að gera það sem við getum til að aðlagast umhverfinu sem við erum sett í, með eða án okkar vilja.

Hvatning Jeremía um að sætta sig við útlegðina og horfa fram á veginn, en festast ekki í beiskju og fortíðardraumum, er ekki mætt af skilningi hjá öllum. Spádómur Jeremía um að útlegðin standi í meira en mannsaldur er óásættanlegur, en Jeremía stendur fastur og boðar það sem hann telur sig kallaðan til af Guði.

Jeremía 28. kafli

Jeremía leggur áherslu á í samskiptum sínum við Hananja spámann að vonandi sé svartsýni sín byggð á mistúlkun sinni á orðum Drottins, en …

Hvort spámaður, sem boðar heill, er í raun sendur af Drottni sannast af því að orð hans rætast.

Hananja kallar eftir óraunhæfri framtíðarsýn, hann boðar að allt verði gott, allt verði eins og áður. Innan árs er Hananja hins vegar látinn, og loforðin láta lítið á sér kræla.

Jeremía 25. kafli

Ég vísa stundum til Gamla testamentisfræðinga í skrifum mínum. Það er ekki tilraun til að gefa hugsunum mínum sterkara vægi heldur einfaldlega til að leggja áherslu á að það sem ég skrifa hér er ekki endilega ferskar hugsanir og tengingar sem ég er að uppgötva, heldur hef ég nálganirnar frá öðrum. Eru þær réttar og viðeigandi? Ég veit það ekki, en þær hjálpa stundum að tengja textann eða öllu heldur tengjast textanum. Ein af þessum hugsunum er tenging milli bikars reiðinnar í þessum kafla og kaleik Jesús í bæninni í Getsemane í Matteus 26.39.

Það þarf ekki að vera umdeilt að höfundur Matteusarguðspjalls leitar í hefð og smiðju Jeremía í skrifum sínum á guðspjallinu, um það eru fjölmörg dæmi. En hvort að bikar reiðinnar og kaleikur Jesús í Getsemanebæninni séu tengdir er ekki ljóst, þó e.t.v. sé hún áhugaverð.

Jeremía 23. kafli

Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“

Það glittir í von hjá Jeremía, þrátt fyrir að þjóðin hafi verið send í útlegð, þá er von. Drottinn hefur ekki yfirgefið sitt fólk. Það verður nýtt upphaf.

Enn á sama tíma varar Jeremía við svikulum spámönnum sem spá gegn greiðslu, spinna upp sögur, styðja við illvirkja með orðum sínum.

Er ég aðeins Guð í nánd? segir Drottinn,
en ekki Guð í fjarlægð?

Þessi texti Jeremía er stórkostlega mikilvægur, enda minnir hann á stórbrotna og fjölþætta Guðsmynd Ísraelsþjóðarinnar. Drottinn (YHWH) er ekki einvörðungu Guð sem gengur í kvöldsvalanum, heldur og sá sem svífur yfir vötnunum og skapar.

Jeremía 22. kafli

Vei þeim sem byggir hús sitt með ranglæti,
sali sína með rangindum
og lætur landa sinn þræla án launa
og greiðir honum ekkert.
Hann segir: „Ég byggi mér stórt hús
og rúmgóðar vistarverur.“

En þú sérð hvorki né hugsar um annað
en eigin gróða,
að úthella saklausu blóði,
kúga og skattpína.

Ég talaði til þín þegar þú varst enn áhyggjulaus
en þú sagðir: „Ég vil ekki hlusta.“

Dómur Drottins yfir Jójakím konungi er harður. Honum bíður að deyja í útlegð, engin niðja hans mun ríkja á ný í Júda.

Jeremía 21. kafli

Ég dreg yður til ábyrgðar fyrir verk yðar,
segir Drottinn,
og legg eld að skóginum.
Hann skal gleypa allt umhverfis sig.

Jeremía sér Drottinn sem geranda alls, allra hluta. Líkt og segir í Jobsbók: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ Í því ljósi er hefndin, afleiðing óréttlætisins, verk Guðs sjálfs.

Það er Drottinn sjálfur sem sendir hersveitir Nebúkadresar til Jerúsalem til að hneppa þjóð Júda í ánauð. Ekkert er Drottni um megn.

Jeremía er skýr, þeir sem ekki eru teknir og færðir til Babýlon eiga litla framtíð í Jerúsalem, munu verða hungri, sjúkdómum og sverði að bráð. Tími Jerúsalemborgar er ekki núna.

Jeremía 15. kafli

Hlutskipti Jeremía er ekki eftirsóknarvert:

Vei mér, móðir, að þú fæddir mig,
mann sem á í málaferlum og deilum við alla landsmenn.
Ég hef engum lánað og enginn hefur lánað mér,
samt formæla mér allir.

Hann varar við því sem framundan er, í miðri gleðinni, í partýlátunum stendur Jeremía á mittisskýlunni og varar við að partýið endi í eymd, dauða og samfélagshruni. Hann kvartar undan móttökunum við Guð, hann upplifir sig berjast nær vonlausri baráttu, en treystir á fyrirheitið:

Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg
til að verjast þessu fólki.
Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig
því að ég er með þér,
ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn.
Ég bjarga þér úr höndum vondra manna
og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Darkwood Brew

Á Wild Goose Festival í sumar hlustaði ég tvívegis innlegg frá Darkwood Brew, sem er nokkurs konar netsjónvarpsþáttur um kristna trú, sem blandar saman helgihaldi, guðfræðiumræðum, tónlist, viðtölum við merkisfólk og margt margt fleira. Darkwood Brew er sent út á netinu á sunnudagskvöldum kl. 23:00 að íslenskum tíma.

Trúin á Guð, unglingar og þroski

Innlegg fyrir foreldra fermingarbarna á fræðslukvöldi, líklega í Grensáskirkju, fyrir 10 árum. Lítillega lagað með tilliti til augljósra villna. Þegar talað er um Guðstrú, trú og trúarvissu, er að alltaf átt við kristna trú eins og hún er boðuð í þjóðkirkjunni.

„Hver er ég?“ og „Til hvers er ég?“ eru grundvallarspurningar unglingsáranna. Sem unglingar uppgötvum við að foreldrar okkar eru ekki fullkomin. Heimurinn er ekki eins einfaldur og við héldum sem börn. Continue reading Trúin á Guð, unglingar og þroski

Dagbókarbrot frá janúar 2010

H.E.L.P. HAITI (14:00, Jan 11 2010)

Í dag var kannski skrítnast að hlusta á nemendurna hjá HELP, td hann Jean-Wilner. Þeir vilja breyta heiminum og byrja á Haiti. PPT sýningin sýndi það. HELP nemar nýta menntun sína í Haiti en flytja ekki erlendis eftir nám eins og stór hluti háskólanema gerir. Þeir virðast skilja þakklæti. Continue reading Dagbókarbrot frá janúar 2010

Von og hamingja

Tengsl vonar og hamingju eru áhugaverð. Þannig er mér minnisstætt þegar prófessorinn minn í Kristniboðsfræðum talaði um að rannsóknir í Afríkuríkjum bentu til þess að þeir sem tækju kristna trú færðust upp á við í þjóðfélagskerfinu. Mest áberandi væri breytingin frá hópnum sem lifði við eymd og færðist upp í hópinn sem býr við gífurlega fátækt.

Continue reading Von og hamingja

Jeremía 11. kafli

Guð lofaði þjóð sinni landi sem flyti í mjólk og hunangi, ef þau tækju við sáttmálanum sem Guð gerði við forfeður þeirra, en þau hlustuðu ekki og hlusta ekki. Jeremía bendir á að loforð og heilagt fórnarkjöt sé ekki leið til að sættast við Guð og í orðum Jeremía enduróma orð Amosar í orðastað Guðs.

Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar.
Ég hef enga ánægju af samkomum yðar.
Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir
lít ég ekki við þeim,
né heldur matfórnum yðar af alikálfum.
Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði.
Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn.
Réttvísi skal streyma fram sem vatn
og réttlæti sem sírennandi lækur.

Jeremía er hótað fyrir viðvörunarorð sín. Honum er sagt að ef hann hætti ekki boðun sinni muni hann deyja.

Jeremía 5. kafli

“Engin ógæfa mun koma yfir oss, … Spámennirnir eru loftið tómt, orðið er ekki í munni þeirra, það kemur þeim í koll.”

Skeytingar- og andvaraleysið leiðir til glötunar. Þegar viðvörunarraddirnar eru hunsaðar og spámennirnir niðurlægðir, þá er endirinn nærri. Þá styttist í að samfélagið leysist upp. Þá taka völdin þeir sem svíkja og hunsa munaðarleysingjana, fátæklingana og ekkjurnar í leit að skjótum gróða. Í landi skeytingarleysisins og sjálfhverfunnar, kenna prestarnir að eigin geðþótta það sem fellur í kramið hjá þjóðinni. Sannleikurinn verður afstæður og notaður í þágu hins sterka.

Jeremía 4. kafli

Uppgjör, ákall til að snúa frá villu vega, ákall um að endurvekja traustið á Dorttin. Jeremía kallar landa sína til að opna sig gagnvart Guði, koma fram fyrir Drottin án feluleiks. Framundan er innrás, auðn og eyðilegging. Vanmátturinn að horfast í augu við sjálfan sig, ganga inn í eigin sjálfhverfu, illsku og eigingirni gerir okkur bitur og leiðir til þess að við gerum illt.

En mitt í aðkomandi eyðileggingu, klæðist sjálfumhverft fólkið skarlati, skreytir sig með gulli og faðrar augun, láta sem ekkert sé fyrr en það er of seint.

Ferðasaga dagsins

Ég sem sé var að koma til landsins rétt í þessu eftir að hafa átt góðar stundir með fjölskyldunni í Norður Karólínufylki. En alla vega.

Ég mætti á flugvöllinn í Raleigh rúmlega 12:00 á hádegi að staðartíma og til að “check-a” mig inn. Ég gerði reyndar tilraun til þess á netinu daginn áður en fékk villumeldingu um að hringja í US Airways sem ég og gerði. Þeir sögðu mér að tala við Icelandair og ég hringdi þangað líka. Þar var mér sagt að hætta þessari vitleysu, það væri lang auðveldast að bóka sig inn á flugvellinum.

US Airways er með sjálfvirkar bókunarvélar og þar fékk ég villumeldingu. Ég fór því að þjónustuborði og eftir að afgreiðslukonan hafði reynt hitt og þetta til að bóka mig komst hún að niðurstöðu. Icelandair hafði einfaldlega ekki gengið endanlega frá bókuninni minni og flugmiðinn minn væri ekki til. Konan hringdi því næst í einhvern þjónustufulltrúa US Airways, sem hringdi í Icelandair á Íslandi, en þar var búið að loka. Þá var mér einfaldlega tilkynnt að ef ekki næðist í Icelandair, þá væri ekkert hægt að gera. Ég benti þeim á það væri söluskrifstofa í BNA og ég hefði einhvern tíma fundið símanúmerið þeirra á icelandair.us í stað .is. Það tókst fyrir rest og eftir að starfsmaður Icelandair hafði loksins ýtt á “confirm” á skjánum sínum, gekk þetta í gegn eftir rúmar 30 mínútur. Þegar ég var að fara í gegnum öryggishliðið kom síðan tölvupóstur frá Icelandair um 10.000 króna breytingagjald. Ef starfsmaðurinn sem ég talaði við daginn áður hefði hlustað á mig, þegar ég sagði að eitthvað væri að, þá hefði þetta ekki gerst.

Jæja, hvað um það. Þessu næst fór ég að hliðinu fyrir 45 mínútna flugið mitt frá Raleigh til Charlotte, en þar átti ég að vera með 45 mínútna “stop-over” og fara síðan frá Charlotte til Washington-Dulles. Allt leit út eins og best var á kosið, vélin var á áætlun og allir farþegar komnir í sæti vel áður en flugvélin átti að fara frá hliðinu. Nema hvað, vélin fór ekki af stað. Flugstjórinn tilkynnti um vélarbilun sem tæki að minnsta kosti 30 mínútur að laga, flugfreyjan sagði að unnið væri að því að laga tengiflug allra farþega sem á þyrftu að halda og engin ástæða til annars en að bíða róleg, vélin kæmist í loftið og öllu yrði reddað í Charlotte. Nema hvað eftir rúmar 60 mínútur frá áætlaðri brottför og hálftíma áður en tengiflugið mitt átti að fara í loftið í Charlotte, komust flugvirkjarnir að því að vélin færi ekkert í loftið og við vorum öll send út úr vélinni og látin mynda raðir við þjónustuborð. Þar var ég bókaður með öðru flugfélagi, United, beint frá Raleigh til Washington-Dulles, þannig að flugferðum mínum var skyndilega fækkað um eina sem var svo sem ekki slæmt. Hins vegar var augljóst að þjónustufulltrúinn sem breytti fluginu mínu hafði ekki mikla trú á því að taskan mín sem ég hafði bókað myndi birtast. Þetta trúleysi var síðan staðfest af starfsmanni United þegar ég fór um borð í þá vél kl. 17:10 að staðartíma. En alla vega, ég komst til Washington-Dulles, einum og hálfum tíma áður en Icelandair vélin fór í loftið og er mættur til Íslands núna.

Það er líklega óþarfi að taka fram að taskan mín er týnd.

Kreppa og/eða gerjun

Ég hlustaði á mjög áhugavert fræðsluerindi hjá Kristni Ólasyni fyrir nokkru síðan í Hallgrímskirkju um kreppu í kjölfar herleiðingarinnar. Þar kom fram að kreppur leiða til spurninga um hver við séum í raun. Þannig hafi hrunið í kjölfar herleiðingarinnar leitt til alsherjar uppgjörs í Jerúsalem. Textabrotum fortíðar er raðað saman og þjóðin eignast sameiningartákn í margbrotnum/margræðnum/mótsagnakenndum textum fortíðarinnar. Sjálfsmyndarleitin og þörfin fyrir sameiningartákn kallar um leið á aðgreiningu frá þeim sem tilheyra ekki, standa utan við.

Svipað var upp á teningnum á Íslandi og reyndar í keltneska heiminum í upphafi 19. aldar og ég spyr mig hvort að íslensku fornsögurnar og samantektir Snorra um miðja 13. öld séu af sama meiði. Tilraun til að endurskrifa fortíðina, í von um að rísa upp úr eymd og kreppu.

Hvaða texta skyldi íslenska þjóðin á 21. öld leita í. Ef ætlunin væri að endurheimta sjálfsmynd sína?