Kreppa og/eða gerjun

Ég hlustaði á mjög áhugavert fræðsluerindi hjá Kristni Ólasyni fyrir nokkru síðan í Hallgrímskirkju um kreppu í kjölfar herleiðingarinnar. Þar kom fram að kreppur leiða til spurninga um hver við séum í raun. Þannig hafi hrunið í kjölfar herleiðingarinnar leitt til alsherjar uppgjörs í Jerúsalem. Textabrotum fortíðar er raðað saman og þjóðin eignast sameiningartákn í margbrotnum/margræðnum/mótsagnakenndum textum fortíðarinnar. Sjálfsmyndarleitin og þörfin fyrir sameiningartákn kallar um leið á aðgreiningu frá þeim sem tilheyra ekki, standa utan við.

Svipað var upp á teningnum á Íslandi og reyndar í keltneska heiminum í upphafi 19. aldar og ég spyr mig hvort að íslensku fornsögurnar og samantektir Snorra um miðja 13. öld séu af sama meiði. Tilraun til að endurskrifa fortíðina, í von um að rísa upp úr eymd og kreppu.

Hvaða texta skyldi íslenska þjóðin á 21. öld leita í. Ef ætlunin væri að endurheimta sjálfsmynd sína?