Kynjafordómafærsla

Ein af áherslum kvennaguðfræðinga um og upp úr 1970 var andúðin á auðmýktartali kirkjunnar. Röksemdafærslan var eitthvað á þá leið að hógværðin og auðmýktin væru í raun dyggðir fyrir karla, en konur sem væru aldar upp við að vera annars flokks hefðu ekkert með slíkar dyggðir að gera, enda væri vandi kvenna ekki skortur á auðmýkt og hógværð heldur öllu fremur stöðug auðmýking. Því væri það dyggð kvenna að standa upp og krefjast réttar síns í stað þess að lúta stöðugt í duftið.

Ég féll ekki alveg fyrir þessari nálgun þegar ég var að lesa kvennaguðfræði (sem ég hef reynt ekki gert mjög mikið af). En kannski væri hægt að horfa til William Temple og nálgunar hans á erfðasyndina, þegar við skoðum þessar hugmyndir kvennaguðfræðinga fyrir 40 árum. Þannig skrifaði ég einhvern tímann hjá mér:

Erfðasyndin kemur ólíkt fram hjá konum og körlum. Konur segja “ég get ekki,” karlar segja “ég get.” Í báðum tilfellum er áherslan fyrst og fremst á orðið ÉG.