Að eiga umhyggju Jesú gagnvart hinum þurfandi

– Ræða á samkomu KFUM og KFUK í Reykjavík sunnudaginn 11. nóvember 2012 kl. 20:00.

Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Mt 9.35-38)

Það kom símtal í vinnuna mína á föstudaginn. Það koma reyndar mörg símtöl í vinnuna mína á hverjum degi, en þetta símtal var svolítið áhugavert. Í símanum var óánægður einstaklingur, fannst eins og KFUM og KFUK hefði brugðist og sinnti ekki hlutverki sínu nægilega vel.

Ég gæti svo sem tekið undir þá fullyrðingu á margvíslegum mismunandi forsendum og rætt um það vel og lengi, enda er ég á engan hátt ónæmur fyrir því að í hverri viku er hægt að breyta, bæta og gera betur í starfinu okkar. Ástæður þess að við stöndum okkur ekki betur eru líka óteljandi.

Kannski lenti ég á spjalli fram eftir nóttu og var ekki nægilega vel upplagður þegar ég sat á hugmyndafundi um framkvæmd einstakra þátta og framtíðarsýn í deildarstarfinu.

Kannski ákvað sjálfboðaliði í deildarstarfinu að skrópa á fund og fara frekar með vinum sínum í bíó, nú að þurfti einfaldlega að sinna veiku barni og því vantaði leiðtoga á fund einhvers staðar sem hefði breytt öllu.

Kannski voru leiðtogarnir sem buðu sig fram til starfa, ungir og óreyndir og ekki búnir að læra að bregðast rétt við einhverjum aðstæðum. Ástæðurnar eru óteljandi fyrir því að KFUM og KFUK bregst í verkefnunum sínum.

Ástæða símtalsins var samt enginn af þessum.

Nei, þannig var að viðmælandinn hafði sent maka sinn með nokkra jólaskókassapakka inn á Holtaveg. Á svæðinu voru fyrir nokkur hundruð leikskólabörn og í öllum hamaganginum hafði maki viðmælandans farið með pakkana á vitlausan stað í húsinu. Þar var enginn sem þakkaði nægilega vel fyrir alla þá fyrirhöfn sem þau hjón höfðu lagt á sig við að útbúa nokkra jólapakka.

KFUM og KFUK gleymdi að þakka fólkinu sem hafði lagt á sig erfiði og óþægindi við að gleðja aðra.

Vissulega er það rétt að það er mikilvægt að þakka. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að muna að segja takk. Auðvitað hefði verið yndislegt að viðkomandi hefði fengið miða með upplýsingum um verkefnið og orðið takk, skrifað á úkraínsku. Það hefði verið frábært ef að merkingar á Holtaveginum hefðu verið aðeins betri, sjálfboðaliðarnir fleiri og makinn hefði ratað á réttan stað og fengið betri móttökur.

Líklega þurfti þetta fólk á því að halda að einhver segði að þau væru frábær, en það var samt eitthvað skrítið við þetta símtal.

Þau eru höfð eftir Móður Teresu, orðin:

Við höldum að fátækt felist einvörðungu í hungri, nekt og heimilisleysi. Sú fátækt að vera afskiptur, án ástar og án umhyggju er mesta fátæktin. Við verðum að byrja heima til brjótast úr þeirri fátækt.

Ég vitna oft í Gunnar Elstad þegar ég kenni um köllun og samskipti, en í einni bók sinni talar hann á svipuðum nótum og móðir Teresa. Þar heldur Gunnar því fram að við séum sífellt að leita svara við þremur spurningum bernskunnar.

  • Elskar mig einhver?
  • Vill einhver leika við mig?
  • Get ég gert gagn?

Gunnar segir að ef við höfum fengið neikvæð svör við þessum spurningum í bernsku, og það á við um flesta, þá glímum við við þær allt lífið. Glíman við þessar spurningar sé nauðsynleg til að við getum náð auknum þroska og tekist á við það sem mótar líf okkar.

Ástin, umhyggjan, afskiptaleysið, tilgangurinn með lífinu. Allt eru þetta grundvallandi þættir sem móta og segja okkur hver við erum. Fylgja okkur þegar við glímum við köllun Jesú í orðunum, „Uppskeran er mikil, verkamennirnir fáir.“

Í svari okkar við kalli Krists eru eða alla vega geta verið undirliggjandi viðbrögð við spurningunum sem Gunnar Elstad spyr. Grunnþarfir okkar fyrir ást, umhyggju, afskipti og tilgang móta meðvitað eða ómeðvitað viljann til að fara og starfa. Þannig er mikilvægt að staldra við köllun okkar með reglubundnum hætti og spyrja hvaða þarfir er ég að uppfylla, af hverju fór ég af stað. Það er forsenda þess að starfa fyrir Guðsríkið að þora að takast á við hugmyndir og væntingar sjálfra okkar.

Hvort sem að hvatinn til starfa er leit að viðurkenningu, þörfin til að gera gagn, launin eða þörf fyrir að ráða, er mikilvægt að við stöldrum við og spyrjum okkur, gerum okkur grein fyrir hvatanum og endurskoðum hugmyndir okkar og köllun reglulega.

Reyndar er til það sem ég vel að kalla fjórða hvatann, það sem ég nefndi er ég talaði um þörfina fyrir að ráða. Sá hvati er bein afleiðing syndafallsins. Valdafíkn og þörfin fyrir að ráðskast með aðra getur kallað einstaklinga til starfa, sérstaklega þar samskiptareglur eru óskýrar og allir vilja vera góðir (lesist kirkjan og trúarleg félagasamtök). Þegar fjórði hvatinn liggur til grundvallar verkum okkar er hætt við skelfilegum afleiðingum, fyrir alla.

Ef þörfin fyrir völd stýrir gjörðum okkar, þá vona ég að einhver hafi þroska og kraft til að grípa inn í aðstæður og stöðva skaðann, en það er efni í aðra ræðu og nóg um það hér.

Umhyggju Jesú er annars eðlis. Umhyggja Jesú snýst ekki um uppfyllingu væntinga okkar. Skyndilega erum við ekki að leitast við að fá viðurkenningu á gjörðum okkar, við erum ekki að leita að ást og umhyggju, við erum ekki að biðja um þakkir.

Nei, í umhyggju Krists felst þakklæti fyrir það sem við höfum nú þegar. Í stað þess að þjóna til að fá þakkir, þá þjónum við vegna þess að við erum nú þegar þakklát.

Það er nefnilega svo að Fagnaðarerindið um dauða og upprisu Jesú Krists felst ekki í því að við skiptum máli af því að við gerum yndislega hluti. Svo sannarlega ekki.

Fagnaðarerindið um Jesú Krist segir okkur að við skiptum máli, séum óendanlega dýrmæt í augum skapara okkar, burtséð frá gjörðum okkar. Við upplifum hins vegar hversu stórkostlegt það er að fá að taka þátt í að gera yndislega hluti fyrir skaparann og sköpun hans.

Svo ég endurtaki mig. Í stað þess að þjóna til að fá þakkir, þá þjónum við vegna þess að við erum nú þegar þakklát.

Það er auðvelt að gleyma þessu, Það getur verið bæði drulluerfitt, leiðinlegt og pirrandi að vera stöðugt þakklátur, að gera góða hluti fyrir Guðsríkið. Við sjáum það t.d. í lífi og starfi Jeremía spámanns, sem upplifði stöðuglega pyntingar og dauðahótanir vegna tilrauna sinna til að gera það sem rétt var í augum Guðs. Nú eða ég gæti bent á líf Jesú Krists sjálfs, sem var tekinn af lífi vegna skoðana sinna, vegna ógnarinnar sem ráðamenn upplifðu vegna ákallsins um Guðs ríki hér á jörðu.

Hér langar mig að skjóta inn. Að starfa í þakklæti, að þjóna öðrum í von um uppfyllingu Guðsríkisins, kallar okkur ekki einvörðungu til að þjóna einstaklingum, gefa þeim að borða, hjálpa þeim með húsaskjól, veita ást og umhyggju. Umhyggja í anda Jesú Krists er óhrædd við að ráðast gegn kerfisbundnu misrétti, gagnrýna þá sem eru jafnari en aðrir og hrópa á réttlæti öllum til handa. Þetta má sjá í máli Jesú t.d. gagnvart trúarlegum yfirvöldum, m.a. í musterinu (sbr. söguna um fátæku ekkjuna).

Þegar við missum sjónar á því að umhyggja í anda Jesú Krists felst í því að ganga fram og starfa í trausti til Guðs og í þakklæti fyrir náðarverk Jesú Krists, þá endum við oft á því að annað tveggja, grípa til glimmerpokans eða flýja af hólmi.

Glimmerpokinn getur hjálpað um stund, ef við missum sjónar á því hver við erum. Hann er reyndar nauðsynlegur þegar við gleymum að við erum kölluð til að starfa í þakklæti en ekki til að fá þakklæti. Glimmerpokinn býr nefnilega yfir undramætti. Hann skapar þakkir í okkar garð.

Þegar við missum sjónar af því hver við erum, hvers vegna við störfum, þá er einfaldlega hægt að stinga hendinni niður í pokann, taka upp handfylli af glimmerflygsum og kasta upp í loft. Skyndilega glitra störfin okkar og fólk flykkist að og þakkar okkur fyrir að gera vel. Næst þegar við erum við það að gefast upp, þá er hendinni stungið aftur í pokann og meira glimmer kastað.

Glimmerpokinn er ákall á þakklæti, andstæða fullvissunnar um að Guð hafi gefið okkur allt. Andstæða þess að við megum lifa í trausti til góðs Guðs, andstæða þess að við megum lifa í þakklæti til frelsarans sem lifði, var krossfestur og reis upp frá dauðum.

Glimmerpokinn er andstæða umhyggju Jesú Krists sem starfar í þakklæti, í stað þess að starfa til að fá þakkir.

Aftur að símtalinu sem ég sagði frá í upphafi. Kannski var það sem var skrítið við símtalið, að ég velti fyrir mér hvort það gæti verið ég sem var á hinum endanum.

Kannski var ég skelkaður yfir að símtalið sem ég nefndi hér í upphafi gæti komið frá mér sjálfum, sitjandi á gólfinu í nýja flotta æskulýðssalnum í KFUM og KFUK húsinu á Holtavegi, með tóman glimmerpoka, glitrandi fliksur á gólfinu og enga unglinga á æskulýðsfundi, hrópandi út í tómið: Ég er góður, ég geri gagn, ég skipti máli. Er það ekki?

Biðjum…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.