Í desember fórum við með son minn í læknisskoðun, við fundum út hvaða barnalæknir væri innifalinn í sjúkratryggingunni okkar og pöntuðum tíma. Í sjálfu sér gekk það vel, við fengum skoðun og þegar tímanum var lokið, fengum við nýjan tíma fyrir þrjár bólusetningar, þessar sem öll börn þurfa að fá. Við mættum síðan nokkrum dögum seinna og strákurinn fékk sprauturnar sínar. Tveimur vikum síðar kom reikningurinn, tvær heimsóknir og þrjár sprautur $760 eða 48.000 krónur. Fram kom að tryggingafélagið neitaði greiðslu vegna formatriðis, sem ekki var útskýrt. Það tók mig þrjá mánuði og 7 símtöl að leysa vandamálið. Ég þurfti að hringja á læknastofuna, tryggingafyrirtækið, fyrirtækið sem sér um greiðslur á kröfum fyrir tryggingafyrirtækið og síðan annan hring til allra. Eftir nokkur símtöl þar sem mér var sagt að ekki væru til nein gögn um að ég hefði kvartað, fékk ég loks bréf um að tryggingafyrirtækið hefði borgað sinn hlut.
Þegar ég svo nefndi þessa sögu við kunningja minn sem er lögfræðingur, sagði hann mér að allir vissu að tryggingafyrirtækin, alla vega sum, treystu á að fólk gæfist upp á 3 hringingu og greiddi þjónustuna sjálft enda kostar tíma og fyrirhöfn að standa í stöðugu tuði um þrjár sprautur.
Þetta gerist í dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi, þar sem stór af starfsfólkinu er ekki heilbrigðisstarfsfólk heldur lögfræðingar, viðskiptafræðingar, símastarfsfólk á endalausum skiptiborðum við að neita viðskiptavinum um þjónustu. Þetta kerfi er frábært fyrir þá einstaklinga sem eiga allt, þá sem taka ekki eftir því hvort það er $760 meira eða minna á Debetkortinu. En fyrir alla hina, þær 45 milljónir manna sem eru tryggingalaus, tugi eða hundruði milljóna manna sem eru háðir vinnuveitanda í vistaböndum, þar sem vinnuveitandi veitir af gnægtum sínum þær litlu tryggingar sem flestir hafa, þá er ástandið ekki eins gott.
En það sem ætti að vekja mesta athygli þeirra sem trúa á framtak atvinnulífsins og mikilvægi einkavæðingar er að kerfið er eitt það dýrasta í heimi, þegar litið er til hlutfalls af þjóðarframleiðslu.