Kirkjan uppfærð í samræmi við gildandi lög

Ákvörðun Kirkjuþings um málefni samkynhneigðra færir kirkjuna á par við núgildandi lög í landinu. Kirkjan gengur inn í það fyrirkomulag sem ríkir um staðfesta samvist og “óskar” eftir heimild fyrir þá sem eru vígslumenn að lögum til að staðfesta samvist. Jafnframt stendur kirkjuþing áfram við hefðbundin skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.

Allt orðalag og sér í lagi framsetning á tillögunum hefur verið milduð. Þannig er ekki lengur talað um ályktun um hjónabandið líkt og þegar málið var lagt fram. Eins hefur hugtakið vígslumenn verið sett inn í tillöguna til að mynda hugrenningatengsl við vígslu staðfestrar samvistar þó það sé ekki sagt berum orðum.  Þá er áherslan á heimildarákvæði veikari enn áður, ekki er talað um samviskufrelsi presta til að neita um athöfn en á móti lögð áhersla á að frelsi presta sé virt.

Vangaveltur sem vakna við lestur þessara breytinga og við þessa samþykkt eru nokkrar:

  • Ef frumvarp VG um ein hjúskaparlög nær fram að ganga, er ljóst að málið þarf að fara aftur fyrir Kirkjuþing vegna orðalagsins í þessari samþykkt.
  • Það virðist augljóst að hugtakið vígslumenn er sett inn til að mynda hugrenningatengsl við vígslu. Hvernig tókst fylgismönnum réttinda samkynhneigðra að fá kirkjuþingsmenn til að samþykkja það?
  • Hvers vegna er ekkert um form helgihalds samþykkt, en það var hluti af 15. máli. Nú þegar ný helgisiðahandbók er væntanleg má ekki seinna vænna að ganga frá formi fyrir athafnir, ef ekki á einfaldlega að notast við hjónavígsluformið.
  • Hvaða hugmyndir eru uppi um hvernig virða á frelsi presta? Þetta er augljóslega gert til að friða presta sem vilja ekkert með samkynhneigða hafa, en hefur þetta einhverja raunverulega merkingu. Hafa prestar frelsi til að neyta einhverjum um fyrirbæn?
  • Hér má segja að skrefið sé stigið til fulls guðfræðilega til jafnrar stöðu gagn- og samkynhneigðra innan kirkjunnar. Boltanum er rúllað yfir til löggjafans að stíga næsta skref, veita vígslumönnum rétt til staðfestingar samvistar og hugsanlega kalla eftir einum hjúskaparlögum.
  • Hvernig tekst kirkjunni að spila úr þessari ákvörðun? Ég verð að viðurkenna að ég efast um að það takist vel. Kirkjan tapaði fyrir löngu síðan allri PR-vinnu vegna þessara mála og ég fæ ekki séð að það breytist núna. En hver veit?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.