Málfrelsi

Í kvöld setti ég inn ummæli á færslu Salmann Tamimi vegna lokunar blog-síðu á mbl.is, ummælin mín voru þessi:

Svo ég leggi hér orð í belg. Ég er vígður þjónn íslensku þjóðkirkjunnar þrátt fyrir að vera ekki starfandi um þessar mundir.

Ég er einn þeirra einstaklinga sem sá mig tilneyddan til þess að benda umsjónarmönnum blog.is á hatursáróður Skúla Skúlasonar og fara fram á að henni væri lokað. Enda væri á henni efni sem samræmdist að öllu líkindum ekki íslenskum lögum og væri meiðandi fyrir minnihlutahóp í samfélaginu sem ætti ekki auðvelt að halda uppi vörnum.  Í bréfi mínu benti ég einnig á að eigendur blog.is væru ábyrgir fyrir efni síðunnar en ekki einvörðungu höfundur, þar sem þeim hefði formlega verið bent á að þeir dreifðu hatursáróðri.

Þessi ákvörðun mín um að senda bréf til umsjónarmanna blog.is snerist ekki um vernd fyrir múslima sem slíka heldur einfaldlega þá staðreynd að ég skammast mín fyrir að tilheyra hópi fólks (hvítur giftur kristin karlmaður) sem getur ekki komið fram af virðingu við meðbræður sína. Þannig eru hatursskrif Skúla ekki einvörðungu meiðandi fyrir múslíma heldur niðurlægjandi fyrir okkur sem þykjumst tilheyra menntuðu frjálsu vestrænu samfélagi.

Samfélag sem telur leyfilegt og sjálfsagt að misbjóða minnihlutahópum með hatri í nafni málfrelsis hefur engan skilning á mikilvægi þess frelsis.

Við þetta er því að bæta að ábyrgð þeirra sem tilheyra meirihlutanum í samfélaginu á hverjum tíma hlýtur að vera önnur og meiri en þeirra sem tilheyra fámennari hópum. Frelsi í lýðræðissamfélagi hlýtur fyrst og fremst að vera frelsi minnihlutans til að hafa rödd. Þegar meirihlutinn notar málfrelsið til að mistúlka, leggja orð í munn minnihlutans og misbjóða minnihlutanum, þá er rödd þeirra kæfð og þögguð niður. Þannig get ég ekki setið hjá aðgerðalaus, enda mikilvægt að muna orð prests í útrýmingarbúðum nasista sem sagði:

Fyrst komu þeir eftir gyðingunum og ég andmælti ekki því ég er ekki gyðingur. Síðan komu þeir eftir kommúnistunum og ég andmælti ekki þar sem ég er ekki kommúnisti. Síðar þegar þeir komu til að ná í verkalýðsbaráttuna andmælti ég ekki því ég var ekki einn af þeim. Síðan komu þeir eftir mér og þá var enginn eftir til að verja mig.

Bréf mitt til blog.is er hér fyrir neðan:

Til þess er það varðar.
Á vafri mínu um veraldarvefinn hef ég nokkrum sinnum villst inn á síðu N.N. sem er vistuð á blog.is á vefslóðinni —.blog.is. Þegar ég fór þar inn fyrst, af aðalsíðu blog.is hugsaði ég sem svo að þetta yrði væntanlega fjarlægt fljótlega enda um fremur ógeðfelldan áróður að ræða. Nú eru hins vegar liðnir nokkrir mánuðir og enn virðist N.N. geta boðað hatur og illsku án afskipta eigenda blog.is.
Árásir N.N. sem beinast m.a. að fámennum hópi á Íslandi sem trúir á Allah og að Kóraninn sé boðskapur hans, eru þess eðlis að ég get ekki lengur á mér setið. Á síðunni má sjá fullyrðingar um að allir múslímar séu ofbeldismenn og hvatningu um að íslenskum ríkisborgurum sé vísað úr landi vegna trúar sinnar. Þessar árásir sem byggja á misvel þýddum greinum eru blettur á vefsvæði Morgunblaðsins og miður ef enginn hefur bent á þessa síðu áður. Samkvæmt reglum vefsvæðisins er skýrt að:

Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Morgunblaðið áskilur sér rétt til að grípa inn í, bregðist notandi ekki við óskum eða tilmælum um leiðréttingar/lagfæringar á skrifum sem teljast meiðandi eða brjóta gegn skilmálum þessum. Jafnframt áskilur Morgunblaðið sér rétt til að loka síðu notanda, að hluta til eða í heild, án þess að notandi eða þriðji aðili öðlist skaðabótarétt.

Það má öllum vera ljóst að í skrifum N.N. felst alvarlegt áreiti í garð íslenskra ríkisborgara sem játa Allah og Múhammeð sem sendiboða hans, undirliggjandi í skrifunum eru hótanir, auk þess sem skrifin eru særandi og villandi í umfjöllun sinni um næst fjölmennasta trúarhóp heimsins. Ég vona að þið bregðist við þessu bréfi mínu sem fyrst og sjáið til þess að skrif á borð við þau sem sjá má á blogsvæði N.N. verði fjarlægð hið fyrsta af vefnum.

Virðingarfyllst,
Halldór Elías Guðmundsson
Djákni hjá Evangelísku Lúthersku kirkjunni á Íslandi
Nemi í kirkustjórnunarfræðum við Trinity Lutheran Seminary, Ohio.
netfang@netfang.is

E.s. Ef þörf krefur og ykkur er ekki unnt að sjá hvers vegna skrif N.N. eru brot á skilmálum blog.is, get ég tekið saman greinargerð um rangfærslur, árásir, hótanir og skrif sem valda skaða á síðu hans.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.