Trúarafstaða mín

Vegna ummæla sem má finna um mig hér á blog.is er rétt að taka fram að ég er vígður djákni en ekki prestur. Þannig er mér ekki ætlað að hafa um hönd sakramenti kirkjunnar, heldur að sinna kærleiksþjónustu við einstaklinga og hópa án tillits til bakgrunns, kyns eða trúar.

Þessi hugmynd um kærleiksþjónustu kirkjunnar byggir á þeirri trú að allar manneskjur séu skapaðar í Guðs mynd og hafi rétt á því að komið sé fram við þær af virðingu og kærleika. Framkoma okkar í garð einstaklinga á þannig ekki að stjórnast af utanaðkomandi þáttum eins og trúarskoðunum, kyni, kynhneigð, móðurmáli eða uppruna. 

Um leið hljótum við að viðurkenna og takast á við þá staðreynd að heimurinn er “fallinn”, óréttlætið er til staðar og manneskjur nota stöðu sína og völd til að gera það sem er rangt. Sem einstaklingur sem játar trú á Jesús Krist, hlýt ég að líta til hans, aftöku hans og upprisu í leit að von fyrir óréttlátan heim. Eins hlýt ég að líta til Jesús og viðbragða hans þegar hann mætti óréttlætinu á sinni vegferð í heiminum. Viðbrögð hans voru skýr, okkur ber að standa upp þegar ráðist er á þá sem minna mega sín. Gagnrýni Jesús á ráðandi stétt samtíma síns, er mér sem vígðs þjóns þjóðkirkjunnar, sífelld næstum óleysanleg glíma.

Í þessari glímu trúi ég að Jesús sé með. Verði mér á mistök í tilraun minni til að feta í fótspor Krists, þá veit ég að náðarboðskapur kristninnar, fyrirgefningin er til staðar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.