Að vera sviptur von

Það virðist sumum erfitt þegar bent er á brotalamir í fyrirheitna landinu. Einhverjir vilja fara í rökræður um hugtakanotkun, hvað er fátækt, hvernig skilgreinum við hugtakið. Aðrir benda á að meðaltal laun fari hækkandi og það sé eina rétta viðmið um árangur þjóðar.

Staðreyndin er hins vegar sú að meðan almenningsskóli dóttur minnar verður betri og betri hér í BNA, það eru keyptar SMART-töflur í allar stofur, með tölvutengjum, hljóðkerfi og ég veit ekki hvað og hvað. Þá þurfa önnur börn í næsta hverfi að gera sér að góðu gamlar krítartöflur, jafnvel slitnar, þurfa að búa við að ekki eru til peningar til að mála yfir veggjakrotið og þurfa að búa við að fara í gegnum öryggisleit og vopnahlið á hverjum degi. Kennarar dóttur minnar hafa 50% hærri laun en kennararnir í gettó-unum. Árangurinn lætur ekki á sér standa, 95% barna í skóla dóttur minnar ná tilskyldum árangri á samræmdum prófum. Árangurinn í gettó-inu er í kringum 25%. Hver er ástæða þessa munar, jú, ríka fólkið borgar skatta til littla bæjarfélagsins okkar, sem rekur skólann. Gettó-ið tilheyrir stórborginni og þar er samfélagið ekki jafn einsleitt.

En geta þá ekki metnaðarfullir foreldrar flutt, gæti einhver spurt. Svarið er nei, húsnæðisverð er þrisvar sinnum hærra í smábænum okkar, skattar af húsnæði sömuleiðis. Það er þekkt vandamál fyrir svörtu nemendurna í skólanum mínum sem er staðsettur hérna í smábænum, hversu oft þeir eru stoppaðir af lögreglunni, sérstaklega þegar þeir eru á ferð seint á kvöldin.

Skortur á sjúkratryggingum, er tengdur atvinnu. Því betri atvinna, því líklegra að þú hafir tryggingu sem virkar, það hefur nefnilega enginn efni á því lengur að borga eigin iðgjald. Það er á hendi vinnuveitandans. Þessar 47 milljónir sem eru ótryggðar eru heldur ekki sammengi þeirra sem búa við fátækt, því þeir fátæku eru tryggðir í gegnum MediCare eða MedicAid. Nei, ótryggðu 47 milljónirnar sem þurfa að taka ákvarðanir um hvaða fingur á að setja á aftur, eða hvort barnið þeirra þarf að lifa með brunasárið í andlitinu eru einstaklingar sem eru ekki fátækir heldur hafa ágæta innkomu, en vinnuveitandinn kýs að bjóða ekki upp á skjúkratryggingu. Þannig að þeir ótryggðu þurfa að velja á milli matar og húsnæðis annars vegar og þess að borga til tryggingafélags hins vegar.

Auðvitað má bæta við þeim þúsundum sem enn bíða svara frá FEMA, í suðurhluta landsins. Einstaklingar og fjölskyldur sem búa á 24 eða 36 fermetra gólfleti hjólhýsanna í Louisiana. Fólkið sem veit ekki enn hvort það má eða getur byggt upp aftur húsið sitt eftir hamfarirnar fyrir tveimur árum. Fólk sem býr við aðstæður þar sem glæpahópar virðast fá að starfa óáreittir af stjórnvöldum. Þannig er til dæmis ekki hægt að setja reglugerðir um brotajárnssala, sem margir hverjir eru stórtækir kaupendur á svarta markaðnum, því stjórnmálamennirnir eiga þeim gjöf að gjalda fyrir stuðning í kosningasjóð.

Ástandið í BNA er nefnilega ekki gott, fyrirheitna landið stendur ekki undir væntingum lengur, frumkvæði og framsýni hafa horfið fyrir íhaldsemi og hræðslu. Óöryggið sem fylgir því að hafa ekki sjúkratryggingu, óvissan um hvort þú getir tryggt barninu þínu menntun, tveggja vikna uppsagnarfrestur (sem veldur því að sjúkratryggingin fellur úr gildi) og stöðugur áróður um að við þurfum að hræðast alla hluti, hafa valdið stöðnun sem leiðir til versnandi lífskjara fyrir marga.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.