Detroit

Í janúar síðastliðinn var ég staðsettur á skrifstofu Kwame Kilpatrick í Detroit nákvæmlega viku áður en Free Press birtu afritin af SMS-skilaboðunum.  Heimsóknin var hluti af námskeiði í skólanum mínum um kirkjulegt starf í stórborgum. Við hittum reyndar Kwame aðeins í nokkrar mínútur, en meginhlutverk komunnar á skrifstofuna var að fá fyrirlestur hjá aðstoðarmönnum hans um uppbygginguna í borginni. Þessi tveggja tíma heimsókn var einn óþægilegasti hluti rúmlega 10 daga heimsóknar til Detroit, þar sem við hittum skólastjóra í niðurnýddum grunnskólum, töluðum við hjúkrunarfræðinga sem glöddust yfir að ungbarnadauði hefði lækkað úr 15 í 13 börn af hverjum 1000 (tölur á Íslandi 2 af 1000), tókum vakt með lögreglumönnum sem höfðu það markmið helst að komast slysalaust úr vinnunni, hlustuðum á skýrslu frá innra eftirliti lögreglunnar þar sem fram kom að enn voru 1500 kvartanir á hendur lögreglunni frá 2007 órannsakaðar í janúar 2008 (rúmlega ein kvörtun á hverja tvo lögreglumenn) og heimsóttum húsnæði heimilislausra svo fátt eitt sé nefnt.

En heimsóknin til Kwame var það sem kallaði fram hvað hörðustu viðbrögðin. Aðstoðarmennirnir lýstu markmiðum sínum og Kwame og héldu því fram blákalt að allt væri að fara á betri veg í borginni og sögðu sögur af fjölskyldudagskrá einu sinni á ári á einu af grænu svæðum borgarinnar og hrósuðu sér af spilavítunum sem eru að rísa um alla borg. Raunveruleikinn var hins vegar sá að þeir félagar og Kwame virtust ónæmir fyrir því að almenningssamgöngur eru í rúst, atvinnuleysi er 15-20% í sumum hverfum, félagsráðgjafar borgarinnar eru sumstaðar með 530 mál á ári, það er framið eitt morð á dag í borginni og lögreglan borgar 20 milljónir dollara á ári vegna rökstuddra kvartana um misbeytingu valds. Þessar upplýsingar virtust ekki hafa náð eyrum aðstoðarmannanna í leðurstólunum, þar sem við sátum umkringd myndum af Kwame með hinum og þessum stórstjörnunum.

Í borginni sjálfri heyrðum við sögusagnir af myrtum vændiskonum eftir að hafa verið í partíi í borgarstjórabústaðnum, sem reyndar líktust meira reifara en sannleikanum. Nú er að koma í ljós að sumar þessara sögusagna höfðu einhverja stoð í raunveruleikanum og ljóst að Detroitborg á enn eftir að hnigna á meðan málaferli gegn Kwame halda áfram.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.