Jeremía 32. kafli

Þegar hér er komið sögu eru nærri 10 ár liðin frá herleiðingunni 597 f. Krist. Á ný situr Babýlóníuher um Jerúsalem. Jeremía er haldið föngnum í hallargarðinum. Að þessu sinni eru spádómar og hegðun Jeremía óljósari en áður. Á sama tíma og hann fjárfestir í landi í Júdeu, þá spáir hann fyrir um hrun Jerúsalem og algjöra eyðileggingu. En vonin er ekki langt undan.

Svo segir Drottinn: Eins og ég sendi þjóðinni þetta mikla böl sendi ég henni allt hið góða sem ég hét henni. Aftur verða jarðir keyptar og seldar í þessu landi sem þér segið um: Það er eyðimörk án fólks og fénaðar, seld Kaldeum í hendur. Akrar verða aftur keyptir fyrir fé, kaupsamningar gerðir, innsiglaðir og vottfestir…

Jeremía 31. kafli

Þannig er sátmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir, segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn. Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn. Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.

Framtíðarsýn Jeremía felst í endurkomu þjóðar Guðs til borgar Drottins. Fyrirheitna landið mun að lokum standa undir nafni. Þegar ég les lýsingarnar rifjast upp nálgun mín á kvikmyndinni Munich sem ég skrifaði fyrir margt löngu. Framtíð Jeremía hefur ekki ræst í huga allra.

Jeremía 30. kafli

Ég mun seint kalla sjálfan mig sérfræðing í sálgæslu, þrátt fyrir að hafa tekið háskólakúrsa á því sviði í tveimur löndum og setið ógrynni af hvers kyns námskeiðum. Þess vegna tek ég því fagnandi þegar fyrirlesarar koma með einfaldar nálganir á samskipti, sorg og endurreisn. Nálganir sem ég get skilið. Continue reading Jeremía 30. kafli

Jeremía 29. kafli

Því ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonaríka framtíð.

Uppáhaldsversið mitt er í þessum kafla. Áherslan á vonina, horfa fram á veginn. En ég held ég hafi aldrei náð samhenginu að fullu fyrr en nú. Jeremía skrifar þessi orð til fólksins í útlegðinni í Babýlon. Hann kallar þau til að lifa í dreifingunni, hann segir þeim:

Reisið hús og búið í þeim. Gróðursetjið garða og neytið ávaxta þeirra. Takið yður konur og getið syni og dætur. … Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til.

Við eigum að takast á við þær aðstæður sem eru óumflýjanlegar, horfast í augu við að framtíðin og vonin felast stundum í því að gera það sem við getum til að aðlagast umhverfinu sem við erum sett í, með eða án okkar vilja.

Hvatning Jeremía um að sætta sig við útlegðina og horfa fram á veginn, en festast ekki í beiskju og fortíðardraumum, er ekki mætt af skilningi hjá öllum. Spádómur Jeremía um að útlegðin standi í meira en mannsaldur er óásættanlegur, en Jeremía stendur fastur og boðar það sem hann telur sig kallaðan til af Guði.

Jeremía 28. kafli

Jeremía leggur áherslu á í samskiptum sínum við Hananja spámann að vonandi sé svartsýni sín byggð á mistúlkun sinni á orðum Drottins, en …

Hvort spámaður, sem boðar heill, er í raun sendur af Drottni sannast af því að orð hans rætast.

Hananja kallar eftir óraunhæfri framtíðarsýn, hann boðar að allt verði gott, allt verði eins og áður. Innan árs er Hananja hins vegar látinn, og loforðin láta lítið á sér kræla.

Jeremía 27. kafli

Jeremía boðar uppgjöf gagnvart konungi Babýlon. Það er engin önnur leið fær en að sættast við tapið. Jeremía fordæmir enn á ný spámennina sem halda að aðrar leiðir séu færar. Framtíðin felst í að gangast undir öflugasta konungsveldið á svæðinu.

Fyrst að ég hef velt fyrir mér meintum tengingum við Matteus hér í síðustu köflum, þá má velta fyrir sér hvort að Mt 22.15-22 og sér í lagi orðin

Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er,

kallist ekki á við 27. kafla Jeremía. Maður spyr sig.

Jeremía 26. kafli

Fræðimenn í Gamla testamentisfræðum hafa löngum bent á tengslin milli Jesús og Jeremía í þessum kafla. Þannig sé bein samsvörun á milli 15. versins hér og hins umdeilda texta í Matteus 27.25.

Jeremía segir sannleikann og viðbrögðin eru þau að fjarlægja hann. Ögrunin er einfaldlega of mikil. Það er auðveldara að lifa í blekkingu en að takast á við vandann. Jeremía segir frá Úría spámanni sem var myrtur fyrir varnaðarorðin, en svo er sagt að Jeremía sjálfur hafi notið verndar Ahíkams Safanssonar, annars hefði hann verið framseldur múgnum til lífláts (líkt og Jesús síðar).

 

Jeremía 23. kafli

Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“

Það glittir í von hjá Jeremía, þrátt fyrir að þjóðin hafi verið send í útlegð, þá er von. Drottinn hefur ekki yfirgefið sitt fólk. Það verður nýtt upphaf.

Enn á sama tíma varar Jeremía við svikulum spámönnum sem spá gegn greiðslu, spinna upp sögur, styðja við illvirkja með orðum sínum.

Er ég aðeins Guð í nánd? segir Drottinn,
en ekki Guð í fjarlægð?

Þessi texti Jeremía er stórkostlega mikilvægur, enda minnir hann á stórbrotna og fjölþætta Guðsmynd Ísraelsþjóðarinnar. Drottinn (YHWH) er ekki einvörðungu Guð sem gengur í kvöldsvalanum, heldur og sá sem svífur yfir vötnunum og skapar.

U-ið

Ég vinn fyrir æskulýðshreyfingu, sem er viðeigandi enda á ég ennþá nokkra mánuði í fertugt. Á vettvangi vinnunnar minnar glími ég oft við hvað það merkir að vera hluti af KFUM og KFUK hreyfingunni, hvað skammstöfunin merki í raun.

Nálgun mín gagnvart U-inu er að það gefi skilaboð um að við séum enn að þroskast, við séum að læra og við gerum mistök. Ég hef þannig væntingar gagnvart umhverfinu sem ég vinn í að það sé vettvangur fyrir nýsköpun, tilraunir og klúður. Það er nefnilega trú mín að bara þannig lærum við og þroskumst, færumst nær því að verða fulllorðin, sem þó vonandi gerist aldrei. Continue reading U-ið

Jeremía 22. kafli

Vei þeim sem byggir hús sitt með ranglæti,
sali sína með rangindum
og lætur landa sinn þræla án launa
og greiðir honum ekkert.
Hann segir: „Ég byggi mér stórt hús
og rúmgóðar vistarverur.“

En þú sérð hvorki né hugsar um annað
en eigin gróða,
að úthella saklausu blóði,
kúga og skattpína.

Ég talaði til þín þegar þú varst enn áhyggjulaus
en þú sagðir: „Ég vil ekki hlusta.“

Dómur Drottins yfir Jójakím konungi er harður. Honum bíður að deyja í útlegð, engin niðja hans mun ríkja á ný í Júda.

Jeremía 21. kafli

Ég dreg yður til ábyrgðar fyrir verk yðar,
segir Drottinn,
og legg eld að skóginum.
Hann skal gleypa allt umhverfis sig.

Jeremía sér Drottinn sem geranda alls, allra hluta. Líkt og segir í Jobsbók: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ Í því ljósi er hefndin, afleiðing óréttlætisins, verk Guðs sjálfs.

Það er Drottinn sjálfur sem sendir hersveitir Nebúkadresar til Jerúsalem til að hneppa þjóð Júda í ánauð. Ekkert er Drottni um megn.

Jeremía er skýr, þeir sem ekki eru teknir og færðir til Babýlon eiga litla framtíð í Jerúsalem, munu verða hungri, sjúkdómum og sverði að bráð. Tími Jerúsalemborgar er ekki núna.

Jeremía 18. kafli

Þjóð mín hefur gleymt mér,
hún fórnar reykelsi fánýtum goðum
sem hafa leitt hana í hrösun
á gömlu götunum
inn á óruddar slóðir.
Þeir gera land sitt að skelfilegum stað
sem sífellt er hæðst að,
hver sem fer þar um
fyllist hryllingi og hristir höfuðið.

Jeremía varar við því sem framundan er. Kaflinn hefst á líkingunni um leirkerasmiðinn, sem byrjar upp á nýtt þegar leirkerið sem unnið er með skemmist. Orðum Jeremía er ekki mætt af skilningi, Jeremía upplifir hatrið í sinn garð, reiðina vegna spádómsorðanna. Þegar Jeremía hrópar til Guðs:

Má gjalda gott með illu?

Þá er augljóst að Jeremía telur sig vera að gera rétt, gera það sem gott er, þegar hann flytur orð Guðs. Jeremía vonast eftir iðrun og yfirbót þeirra sem heyra orðin, en þess í stað ákveða áheyrendur spádómanna að drepa sendiboðann. Jeremía reiðist og kallar eftir hefnd Guðs.

Jeremía 16. kafli

Getur maðurinn gert sér guði?
Það væru engir guðir.

Orð Jeremía eru hörð og köld. Framtíð samfélagsins er engin, samkennd og meðaumkun eru ekki lengur til staðar. Jeremía varar við að Guð muni grípa inn í skeytingar- og lögleysið. Afleiðing lífsháttana verði samfélagshrun og fólksflutningar, en Exodus muni þó á endanum endurtaka sig, en að þessu sinni verði það Exodus allra þjóða.

Jeremía lítur svo á að Drottinn (YHWH) sé Guð allra þjóða frá endimörkum jarðarinnar. Allir muni játa að nafn Guðs sé Drottinn (YHWH).

Jeremía 15. kafli

Hlutskipti Jeremía er ekki eftirsóknarvert:

Vei mér, móðir, að þú fæddir mig,
mann sem á í málaferlum og deilum við alla landsmenn.
Ég hef engum lánað og enginn hefur lánað mér,
samt formæla mér allir.

Hann varar við því sem framundan er, í miðri gleðinni, í partýlátunum stendur Jeremía á mittisskýlunni og varar við að partýið endi í eymd, dauða og samfélagshruni. Hann kvartar undan móttökunum við Guð, hann upplifir sig berjast nær vonlausri baráttu, en treystir á fyrirheitið:

Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg
til að verjast þessu fólki.
Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig
því að ég er með þér,
ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn.
Ég bjarga þér úr höndum vondra manna
og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Nei eða já, af eða á

Það er margt sagt um stöðu kirkju og kristni á Íslandi, en líklega er fátt eins sorglegt og þegar vígðir þjónar kirkjunnar halda því fram að forsenda þess að kirkjan sinni starfsemi á landinu öllu sé að kirkjan sé þjóðkirkja og/eða nefnd sérstaklega í Stjórnarskrá. Continue reading Nei eða já, af eða á

Fræðslukvöld: Biblían – Hvað er hún, hvað er hún ekki?

Handrit að kennslu á fræðslusamveru KFUM og KFUK í janúar 2012.

Það er gaman að sjá ykkur hér á fræðslusamveru KFUM og KFUK. Samverurnar eru styrktar af Æskulýðssjóði og markmiðið er að því að fræða ungt fólk og sér í lagi leiðtoga í starfi KFUM og KFUK um lykilhugmyndir kristinnar kirkju. Continue reading Fræðslukvöld: Biblían – Hvað er hún, hvað er hún ekki?