Fræðslukvöld: Biblían – Hvað er hún, hvað er hún ekki?

Handrit að kennslu á fræðslusamveru KFUM og KFUK í janúar 2012.

Það er gaman að sjá ykkur hér á fræðslusamveru KFUM og KFUK. Samverurnar eru styrktar af Æskulýðssjóði og markmiðið er að því að fræða ungt fólk og sér í lagi leiðtoga í starfi KFUM og KFUK um lykilhugmyndir kristinnar kirkju.

Nú í vor verða samverurnar fjórar. Sú fyrsta fjallar um Biblíuna, sú númer tvö um Bænina, þriðja samveran fjallar um hugmyndir um Jesús og loks mun sú fjórða velta upp hugmyndum um kirkjuna eða samfélag trúaðra.

Í öðrum kafla Postulagasögunnar er talað um að þátttakendur í frumkirkjunni í kjölfar Hvítasunnuhátíðarinnar hafi ræktað „trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.“

Innan KFUM og KFUK hefur þetta Biblíuvers löngum verið kallað Bé-in fjögur, þar sem Biblían er forsenda uppfræðslu postulana. Í eldri þýðingum var ekki talað um samfélagið, heldur bræðrasamfélagið og loks er talað um brotningu brauðsins (sem vísar til Jesús) og bænina. Með öðrum orðum samverurnar nú í haust munu fjalla um bé-in fjögur eða fjórar stoðir frumkirkjunnar. En við munum fjalla meira um stoðir kirkjunnar í lokafræðslunni í apríl.

Verkefnið á þessum eftirmiðdegi er Biblían. Og ég ætla að byrja á að spyrja ykkur tveggja spurninga og fá einhvern til að skrifa upp svörin meðan ég bregð mér fram.

  1. Hvað er Biblían?
  2. En hvað er þá Biblían ekki?

Það er hægt að fjalla um Biblíuna á mjög ólíkan hátt. Texti bókarinnar snertir við öllum hugvísindagreinum sem hægt er að hugsa sér. Við getum fundið mismunandi kenningar um mannlegt eðli. Bókin glímir við spurningar um félagsmótun. Við sjáum hvers kyns bókmenntahefðir. Hún birtir ákveðna sín á sögu miðausturlanda yfir 1500 ára tímabil að minnsta kosti. Hún inniheldur lögfræðilega texta og siðfræði. Hugmyndir um rétt og rangt taka upp sitt svæði og í bókinni birtast heimspekilegur þankagangur um tilgang lífsins. Síðan er auðvitað til staðar guðfræði, þ.e. vangaveltur um eðli og stöðu Guðs.

Hér mun ég að mestu halda mig við vangaveltur um Guð, tala um ritun bókarinnar og hvernig atburðir í lífi hebresku þjóðarinnar hafa mótandi áhrif á skrifin.

Hvað vitum við síðan um bókina. Í sjálfu sér mjög mikið og um leið merkilega lítið þegar við lítum til alls þess fjölda sem hefur tileinkað líf sitt að skilja, læra og þekkja öll orð Biblíunnar.

Hér hyggst ég nota mestan tíma í að fjalla um Gamla testamentið. Ekki einvörðungu vegna þess að það er meira hulið fyrir okkur flestum, heldur ekki síður vegna þess að það er um margt mun flóknara rit en það Nýja.

Strax í tveimur fyrstu köflum 1. Mósebókar kemur vandinn í ljós. Við heyrum af tvenns konar Guðsmynd. Við höfum í fyrsta kafla Guð Alsherjar eða Elohim, Guð sem svífur yfir öllu, Guð sem kemur fyrir í söng Bette Midler “From a Distance”.

http://www.youtube.com/watch?v=i5_YAj9lCQc

Hins vegar höfum við í öðrum kaflanum, Drottin eða Yahweh (YHWH). Þann sem gengur með fólkinu í kvöldsvalanum, býr með þeim í garðinum.

Fjarlægð Guðs er ekki eini spennuvaldurinn í Gamla testamentinu. Þar er líka togstreita milli rétts helgihalds og trúarlegs strúkturs annars vegar og réttrar hegðunar og hlýðni hins vegar.

Spennan milli þessara tveggja Guðsmynda og togstreitan milli helgihalds og hegðunar mótar alla Biblíuna og ekki bara Biblíuna, heldur alla sögu kristinnar kirkju. Ég gæti bent á hvernig hún hefur gífurleg áhrif enn í dag í íslensku þjóðkirkjunnar, en þá yrði ég líklega sakaður um flokkadrætti og alls konar. Ég held það sé samt óhætt að segja að biskupskosningarnar í ár munu að einhverju leiti snúast um þetta.

Þessi togstreita sem við í dag myndum kannski kalla hákirkju og lágkirkju, á sér nokkra vendipunkta í bókinni. Þegar karísmatísku leiðtogarnir Sál og síðan Davíð verða konungar í Ísrael, má segja að musterisátrúnaðurinn sigri, stundum kallað Messíasarguðfræði (guðfræði sigurvegarans) sem leiðir síðan til þess að Salómon sonur Davíðs byggir musteri í Jerúsalem þar sem Guð býr. Aðgengi að Guði fæst í gegnum prestastéttina. Guð Alsherjar, Guð sem er mikilfenglegur hefur sigrað, en þetta gerist í kringum 1000 f.Kr.

Konungsdæmið endist ekki lengi, klofnar og veikist á nokkrum árhunduðum og við sjáum í Biblíunni að uppgjör við konungshugmyndir og valdastrúktur Davíðs á sér stað. Spámenn eins og Amos á 8. öld fyrir Krist talar fyrir hönd Guðs og segir:

Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar.
Ég hef enga ánægju af samkomum yðar.
Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir
lít ég ekki við þeim,
né heldur matfórnum yðar af alikálfum.
Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði.
Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn.
Réttvísi skal streyma fram sem vatn
og réttlæti sem sírennandi lækur.

Segja má að lykilviðburður í þessari spennu verði þegar Hilkía yfirprestur musterisins “finnur” lögbók Drottins (Jahweh) í kringum 622. Með þeim atburði styrkist “lágkirkjan” alla vega tímabundið og áherslan á réttlæti og miskunnsemi fær aukið vægi.

Hilkía yfirprestur sagði þá við Safan ríkisritara: „Ég fann lögbók í musteri Drottins.“ Hann fékk honum bókina og Safan las hana. Síðan kom Safan ríkisritari til konungs og sagði: „Þjónar þínir hafa reitt fram féð, sem fannst í musteri Drottins, og fengið það verkstjórunum þar.“ Og Safan ríkisritari sagði við konunginn: „Hilkía yfirprestur fékk mér bók.“ Og Safan las hana fyrir konung.
Konungur reif klæði sín þegar hann heyrði það sem stóð í lögbókinni…

Síðari Konungabók 22

Það er mikilvægt að skilja að fundur bókarinnar á þessum tíma er ekki tilviljun. Ríki Hebrea klofnaði í Júda og Ísraelsríki í kringum 930 og þegar lögbókin finnst hafði Ísraelsríkið verið tekið yfir af Assýríumönnum, nokkrum áratugum áður. Júdaríki þar sem Jerúsalem stóð var auk þess að veikjast og ljóst að framtíðin væri líkast til ekki björt.

Fundur bókarinnar tengdist þannig breytingum á stöðu Hebrea, tilraun til að vísa til fornrar frægðar. Helstu bókmenntir heims verða til í umhverfi breytinga og óvissu, oft með það að markmiði að upphefja forna frægð til að styrkja innviði hrynjandi samfélags og/eða til að berja baráttuanda í brjóst. Íslendingasögurnar eru skrifaðar á svipuðum tíma og Noregskonungur tekur yfir eyjuna. Endurskoðun sögunnar, endurritun og upphafning sagnanna á sér síðan stað í sjálfstæðisbaráttunni. Svipaða tilhneigingu má sjá hjá frændum okkar á Írlandi í endurreisn og endurritun keltnesks sagnaarfs á 19. öld.

Þessi spenna milli Guðs Alsherjar og Guðs sem er með okkur, má sá á skemmtilegan hátt í mismuninum á köllunarfrásögu Jesaja og köllun Jeremía.

Byrjum á Jesaja:

Á dánarári Ússía konungs sá ég Drottin sitja í háu og gnæfandi hásæti og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. Serafar stóðu fyrir ofan hann. Hafði hver þeirra sex vængi: með tveimur huldu þeir ásjónu sína, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. Þeir kölluðu hver til annars og sögðu:
„Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar,
öll jörðin er full af hans dýrð.“
Við raust þeirra nötruðu undirstöður þröskuldanna og húsið fylltist af reyk.
Þá sagði ég:
„Vei mér, það er úti um mig
því að ég er maður með óhreinar varir
og bý meðal fólks með óhreinar varir
en samt hafa augu mín séð konunginn, Drottin allsherjar.“
Þá flaug einn serafanna til mín. Hann hélt á glóandi koli sem hann hafði tekið af altarinu með töng. Hann snerti munn minn með kolinu og sagði:
„Þetta hefur snortið varir þínar,
sekt þín er frá þér tekin
og friðþægt er fyrir synd þína.“
Þá heyrði ég rödd Drottins sem spurði:
„Hvern skal ég senda?
Hver vill reka erindi vort?“
Ég svaraði: „Hér er ég. Send þú mig.“

Og hlustum svo á Jeremía,

Orð Drottins kom til mín:
Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig.
Áður en þú fæddist helgaði ég þig
og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar.
Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð.
Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“
Þá sagði Drottinn við mig:
„Segðu ekki: Ég er enn svo ungur.
Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig
og boða hvað eina sem ég fel þér.
Þú skalt ekki óttast þá
því að ég er með þér til að bjarga þér,“
segir Drottinn.
Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig:
„Hér með legg ég orð mín þér í munn.
Ég veiti þér vald
yfir þjóðum og ríkjum
til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna,
til að byggja upp og gróðursetja.“

Það er áhugavert að sjá hvernig snertingin við munn Jesaja er með glóandi koli sem engill heldur á með töng, á sama tíma og snerting Drottins við varir í Jeremía felst í því að Drottinn réttir út hönd sína, en situr ekki bara þarna uppi.

Ég gæti haldið áfram endalaust með dæmi um hvernig þessar tvær Guðshugmyndir kallast á í Gamla testamentinu, enda er ég alinn sterklega upp í annarri þeirra og á mjög auðvelt með að hneykslast á hinni. En hvað segir þessi munur á Guðsmyndum okkur um Biblíuna sem rit. (Viðbrögð frá þátttakendum á fræðslustundinni)

Vissulega er Guð meiri en svo að við skiljum hann til fulls. En það er ekki síður mikilvægt að átta sig á því að Biblían er margbreytileg glíma við Guð, henni er ætlað að hjálpa okkur í eigin glímu, eigin vangaveltum. Ekki með því að gefa einföld skýr svör, heldur til að gera okkur kleift að móta okkar eigin Guðsmynd í ljósi þeirra Guðsmynda sem bókin birtir.

Þessar tvær Guðsmyndir sem ég fjalla um hér á undan eru auðvitað ekki einu myndirnar. Þeir eru miklu miklu miklu fleiri. Þannig er því stundum haldið fram að minnsta kosti þrír spámenn beri ábyrgð á skrifum Jesaja. Þannig sé Jesaja ekki skrifuð af Jesaja spámanni, heldur Jesaja skólanum, nokkurs konar hreyfingu sem átti uppruna sinn hjá fyrsta Jesaja(num). Innan Jesaja virðist jafnvel hægt að sjá mótsagnakenndar Guðsmyndir, þrátt fyrir að megináherslan sé á messíanska guðfræði, Guð Alsherjar, reddarann, musterið.

Við sjáum enn aðrar Guðshugmyndir í ritum eins og Prédikaranum eða Job, nú eða Esterarbók. Spurningar um aðra Guði eiga sér mismunandi svör. Er fyrirheitna landið ætlað öllu mannkyni? Hvað með líf eftir dauða?

Þá komum við að Nýja testamentinu. Jesús er YHWH maður fyrst og fremst með áherslu á lögmálshefðina, en við sjáum skýrt í skrifum Guðspjallanna að messíanskar hugmyndir styrkjast þegar á líður fyrstu öldina eftir fæðingu hans. Deilur Jesús eru fyrst og fremst við faríseanna sem líka eru lögmálsmenn og lögðu traust sitt á lögmálið fremur en musterið. Deilur faríseanna og Jesús snúast enda fyrst og fremst um hlutverk lögmálsins.

Þegar við lesum Nýja testamentið með það í huga hvenær einstök rit urðu til, má sjá hvernig það virðist vera breyting í ritunum frá lögmálshefðinni í átt til messíasarhefðarinnar, þegar ritin yngjast. Reyndar má gagnrýna svoleiðis pælingar þar sem fræðimenn hafa tilhneygingu til að raða aldursetja ritin þannig að því sterkari sem messíasarhefðin sé, þeim mun líklegra sé að ritið sé ungt.

Það er mikilvægt að hafa í huga að ritun Nýja testamentisins er að hluta til tilraun til að endurspegla Jesús í ljósi rita Gamla testamentisins. Nýja testamentið er ekki hlutlaus frásögn faglegra blaðamanna sem starfa með það að markmiði að vera “fair and balanced” í umfjöllun sinni. Nýja testamentið er áróðursrit, það er skrifað til að styrkja þá sem hafa mætt Jesú og tekið trú á hann, hjálpa þeim að skilja og læra.

Fyrir okkur sem trúum á Jesús sem son Skapara alls þá lendum við í röksemdafærsluhring þegar við nálgumst Biblíuna. Skrifin um Jesús í Nýja testamentinu eru skrifuð að hluta til að endurspegla rit Gamla testamentisins, sem við síðan notum til að sýna fram á að Jesús Nýja testamentisins var sá sem ritarar Gamla testamentisins spáðu fyrir um.

Á sama hátt notum við frásögu Biblíunnar af Jesús sem tæki til að meta gildi einstakra texta Biblíunnar. Spurning sem hlýtur að vakna hjá fólki sem hugsar mjög ferkantað, eins og ég, er þá hvers vegna byrjum við röksemdafærsluna þar sem við byrjum hana.

Svarið mitt er cheesy og algjörlega berskjaldað fyrir allri gagnrýni, svarið er Heilagur Andi.

Þetta var upphafsinnleggið í dag, endilega spyrjið, gagnrýnið, bendið á.

Síðan er kannski ráð að enda á þessu hér:

http://www.youtube.com/watch?v=ARdwIWDnE90

One thought on “Fræðslukvöld: Biblían – Hvað er hún, hvað er hún ekki?”

Comments are closed.