Gaman að Vaktu

Tilviljun? - VaktuÉg ákvað að styðja við hljómsveitina Tilviljun? og fjárfesti í vikunni í nýja smádisknum þeirra sem kom út í byrjun mánaðarins, enda ekki á hverjum degi sem að íslensk kristileg tónlist kemur út á diskum.

Diskurinn kom mér skemmtilega á óvart, enda hef ég sjaldan heyrt í þeim flytja eigin tónlist. Ég held að það sé óhætt að segja að ég hafi aldrei heyrt kristilega íslenska tónlist sem er jafn fullorðins, hvort sem litið er til textagerðar, flutnings eða stemmningar. 

Eftir að hafa hlustað á diskinn nokkrum sinnum í dag og í gær, þá get ég samviskusamlega fullyrt að diskurinn sé hverrar krónu virði. Þegar til kom var fjárfestingin í disknum ekki styrkur við frumkvæði ungs fólks heldur kaup á vandaðri tónlist sem ég á eftir að hlusta á oft.

Rétt er að taka fram að ég hef unnið með mikið af því unga fólki sem skipar hljómsveitina og þau hafa öll tekið virkan þátt í starfi KFUM og KFUK þar sem ég er starfsmaður.