Nei eða já, af eða á

Það er margt sagt um stöðu kirkju og kristni á Íslandi, en líklega er fátt eins sorglegt og þegar vígðir þjónar kirkjunnar halda því fram að forsenda þess að kirkjan sinni starfsemi á landinu öllu sé að kirkjan sé þjóðkirkja og/eða nefnd sérstaklega í Stjórnarskrá.

Ef kirkjan er kirkja Krists, þá starfar hún og þjónar öllum burtséð frá mannasetningum, þjóðkirkjuákvæðum og landsbyggðapólítík. Ef hins vegar kirkjan er fyrst og fremst manngerð stofnun, til þess gerð að halda úti húsnæði og störfum á landsbyggðinni, þá vissulega hafa breytingarnar kannski áhrif.

Ég biðst einnig undan þeirri ömurlegu kirkjusýn sem einblínir á réttindi, hefðir og hugmyndir meirihlutans en horfir framhjá þeim sem standa utangarðs og ég græt yfir þeirri hugmynd sumra að kirkjan fái ekki lifað og starfað án verndar og umhyggju ríkisvaldsins. Kirkja sem trúir því að hún sé háð ríkisvaldinu, til að lifa og dafna, verður fljótt óþörf, gagnslaus og lífvana.

Ég mun, ef ég man eftir að kjósa, merkja við þá hugmynd að þjóðkirkjan verði ekki nefnd í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og vona að það verði til þess að kirkjan taki hlutverk sitt alvarlega sem kirkja Krists, en skýli sér ekki áfram á bakvið hefðir, venjur og meirihlutasinnuleysið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.