Eitt af því sem er hvað erfiðast við að stíga út fyrir mörk öryggisins, er að horfast í augu við eigin barnaskap og einfaldleika. Í janúar dvaldi ég í Detroit og var neyddur til að horfast í augu við forréttindi mín og rasisma á algjörlega nýjan hátt. Ég gæti skrifað lærða kafla um ungbarnadauða í fátækrahverfum í BNA, misbeytingu valds af hendi lögreglunnar, spillta stjórnmálamenn, kynþáttamisrétti, sálarmorð á samkynhneigðum og margt fleira sem ég sá með eigin augum þar sem ég heimsótti heilsugæslu, barnaspítala, geðdeildir, skrifstofu borgarstjóra og tók í hendina á einhverjum spilltasta stjórnmálamanni BNA, heimsótti félagsmálaþjónustu, gistiheimili fyrir heimilislausa og ræddi við kirkjugesti og presta í jafnt svörtum og hvítum kirkjum í þessu ríkasta landi heims. Ég var enda reiður fyrstu fjóra dagana, ég kallaði samnemendur mína fífl, fyrir að taka þátt í svona samfélagi og bregðast ekki við. Ég benti þeim á að ungbarnadauði í Detroit væri sjö sinnum meiri en í mínu heimalandi, ég hneykslaðist á misskiptingunni í skólakerfinu sem við heyrðum um frá skólastjórum almenningsskóla í borginni og svo mætti lengi telja.
Það var ekki fyrr en á fjórða degi að ég þorði að horfast í augu við sjálfan mig og mínar aðstæður í besta landi í heimi. Ég hugsaði til þess að auður sumra Íslendinga er byggður á atvinnulausum símamönnum í Austur-Evrópu, mér varð hugsað til þess hvernig stjórnmálamenn á Íslandi eins og Gunnlaugur M. Sigmundsson hafa selt sjálfum sér ríkiseignir. Mér varð hugsað til þess hvernig stjórnmálamenn á Íslandi sem aðhyllast jöfnuð hafa uppi stórar hugmyndir um að innleysa milljarðahagnað í orkuveitum í fátækustu löndum heims. Vissulega er Detroit Íslendinga ekki staðsett í Norður-Atlantshafi, okkar Detroit er í Búlgaríu. Continue reading Einfaldur