Kallað eftir ritskoðun

Ég er tiltölulega seinþreyttur til vandræða (held ég), en eftir að hafa vafrað í kvöld á blog.is sá ég mig tilneyddan til að senda eftirfarandi bréf til umsjónarmanna blogsvæðis mbl.is

Til þess er það varðar.
Á vafri mínu um veraldarvefinn hef ég nokkrum sinnum villst inn á síðu N.N. sem er vistuð á blog.is á vefslóðinni —.blog.is. Þegar ég fór þar inn fyrst, af aðalsíðu blog.is hugsaði ég sem svo að þetta yrði væntanlega fjarlægt fljótlega enda um fremur ógeðfelldan áróður að ræða. Nú eru hins vegar liðnir nokkrir mánuðir og enn virðist N.N. geta boðað hatur og illsku án afskipta eigenda blog.is.
Árásir N.N. sem beinast m.a. að fámennum hópi á Íslandi sem trúir á Allah og að Kóraninn sé boðskapur hans, eru þess eðlis að ég get ekki lengur á mér setið. Á síðunni má sjá fullyrðingar um að allir múslímar séu ofbeldismenn og hvatningu um að íslenskum ríkisborgurum sé vísað úr landi vegna trúar sinnar. Þessar árásir sem byggja á misvel þýddum greinum eru blettur á vefsvæði Morgunblaðsins og miður ef enginn hefur bent á þessa síðu áður. Samkvæmt reglum vefsvæðisins er skýrt að:

Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Morgunblaðið áskilur sér rétt til að grípa inn í, bregðist notandi ekki við óskum eða tilmælum um leiðréttingar/lagfæringar á skrifum sem teljast meiðandi eða brjóta gegn skilmálum þessum. Jafnframt áskilur Morgunblaðið sér rétt til að loka síðu notanda, að hluta til eða í heild, án þess að notandi eða þriðji aðili öðlist skaðabótarétt.

Það má öllum vera ljóst að í skrifum N.N. felst alvarlegt áreiti í garð íslenskra ríkisborgara sem játa Allah og Múhammeð sem sendiboða hans, undirliggjandi í skrifunum eru hótanir, auk þess sem skrifin eru særandi og villandi í umfjöllun sinni um næst fjölmennasta trúarhóp heimsins. Ég vona að þið bregðist við þessu bréfi mínu sem fyrst og sjáið til þess að skrif á borð við þau sem sjá má á blogsvæði N.N. verði fjarlægð hið fyrsta af vefnum.

Virðingarfyllst,
Halldór Elías Guðmundsson
Djákni hjá Evangelísku Lúthersku kirkjunni á Íslandi
Nemi í kirkustjórnunarfræðum við Trinity Lutheran Seminary, Ohio.
netfang@netfang.is

E.s. Ef þörf krefur og ykkur er ekki unnt að sjá hvers vegna skrif N.N. eru brot á skilmálum blog.is, get ég tekið saman greinargerð um rangfærslur, árásir, hótanir og skrif sem valda skaða á síðu hans.

33 thoughts on “Kallað eftir ritskoðun”

  1. Ég vona að þeir biðji þig að minnsta kosti um greinargerð. Mér persónulega finnst það út í hött ef það að einhverjir verði sárir við að lesa síðuna hans Skúla sé ástæða fyrir því að loka henni. Persónulega skil ég ekki hvað þú átt við með því að þetta sé áreiti í garð íslenskra múhameðstrúarmana.

    Annað mál ef hann er með einhverjar hótanir. Ég persónulega man ekki eftir því að hafa lesið nokkuð á síðunni hans, værirðu til í að benda á einhverjar hótanir?

  2. Ég tek undir með Ella (og Pétri Björgvin). Móralinn í bloggheimnum er orðinn þannig að þar veður rasismi og alls kyns óhróður uppi.
    Ég leyfði mér um daginn, sem skákáhugamaður, að gera athugasemd við skrif Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar um erfðamál Fischers og var svarað með uppnöfnum og níði í minn garð. Vilhjálmur þessi hefur reyndar státað sig af því að vera málkunnugur ritstjóra Jyllandsposten, sem koma af stað deilunum um “tjáningarfrelsið” í sambandi við níðmyndinrar af Múhameð spámanni. Það nýjast í því máli má sjá á politiken.dk. en þeir eru einnig farnir að birta “skopmyndirnar”: sjá http://politiken.dk/indland/article470333.ece?img=1

    Sem betur fer eru við hér uppi á skerinu að mestu laus við þetta hatur í garð múslima (sem einkennir danskt samfélag).
    Mál málanna hér í dag er hins vegar hatrið á Pólverjum, en um 700 ungmenni náðu nú um helgina að skrá sig í félags sem hefur það að markmiði að hrekja Pólverja úr landi. Mér skilst að það ætti að gerast með öllum tiltækum ráðum, líka með morðum.
    Það vekur athygli mína að enginn íslenskur fjölmiðill hefur fjallað um þetta mál nema Stöð 2.
    Ætli hinum fjölmiðlunum sé alveg sama um vaxandi rasisma hér á landi? Þögn er jú sama og samþykki ….

  3. Hjalti þetta snýst um annað en að einhver sé sár.

    Nei, þetta snýst meðal annars um að eiinhver sé sár. Það að einhver verði sár vegna bloggins er hluti af rökfærslu Ella fyrir því að það ætti að loka þessu bloggi, samanber:

    …auk þess sem skrifin eru særandi…

    Þannig að sá punktur minn, að það sé út í hött að loka bloggum vegna þess að bloggið særir einhvern, tengist umræðunni.

  4. Sæll Hjalti,
    ástæða þess að ég nota orðið sár er einfaldlega að reglur blog.is notast við það orðalag. E.t.v. er fáránlegt að blog.is hafi þá reglu en það breytir því ekki að hún er til staðar og auðvelt að vísa til hennar. Hafi einhver þörf fyrir að særa, þá getur hann einfaldlega bloggað einhvers staðar þar sem slík regla er ekki til staðar. Það er hins vegar ekki eitt og sér ástæðan fyrir kvörtun minni.
    —-
    Ég hef fengið svar frá mbl.is, það hljóðar svona.

    Sú regla sem við höfum varðandi kvartanir af þessu tagi er að senda
    viðkomandi tölvupóst og benda á að kvartað hafi verið yfir bloggfærslum.

    Í einhverjum tilvikum hafa slíkar kvartanir verið sendar í heilu lagi með
    nafni þess sem kvartar.

    Þetta hefur oftar en ekki borið árangur.

    Hefur þú áhuga á að ég fari þessa leið?

    Í öllum tilvikum ráðfærum við okkur við okkar lögfræðinga áður en gripið er
    til aðgerða á borð við þær að loka bloggsíðum.

  5. Svar mitt við bréfi mbl.is er á þessa leið:

    það er í lagi af minni hálfu að þið sendið athugasemd mína áfram. Ég minni þó á að ábyrgð síðunnar er í ykkar höndum eftir að þið hafið fengið ábendingu um að reglur hafi verið brotnar.

  6. Já, ég veit að þú varst að vísa í skilmálana hjá þeim. Það er út í hött að ætla að taka út öll þau blogg sem særa einhvern. En ef við kíkjum á hin atriðin sem þú kvartar yfir:

    1. alvarlegt áreiti í garð íslenskra [múhameðstrúarmanna]

    Gætirðu útskýrt hvernig þetta er “alvarlegt áreiti”?

    2. …undirliggjandi í skrifunum eru hótanir,…

    Að eitthvað sé “undirliggjandi” í skrifunum finnst mér benda til þess að það séu ekki neinar hótanir, annars myndirðu líklega bara skrifa að það væru hótanir þarna, heldur að þér finnist bara vera þannig tónn í skrifunum.

    3. skrifin eru … villandi í umfjöllun sinni um næst fjölmennasta trúarhóp heimsins.

    Hvaða máli skiptir það? Það er ekki fjallað neitt um það í skilmálunum.

    Eftir finnst mér bara standa að skrifin séu særandi og sé á einhvern óútskýrðan hátt “áreiti” í garð íslenskra múhameðstrúarmanna.

    Viltu ekki bara benda okkur á eitthvað gott dæmi?

  7. Á viðkomandi vefsíðu er birt grein þar sem lagt er til að öllum múslímum sé vísað úr landi vegna trúar sinnar, líkt og ég bendi á í kvörtun minni til mbl.is. Að öðru leiti mun ég ekki fjalla um efnistök bloggarans á vefnum mínum.

    Eins vil ég benda þér á Hjalti, að þrátt fyrir að hvergi komi fram í færslunni minni um hvaða bloggara sé að ræða, þá virðist þú vita það, sem gefur í skin að þú sjáir það sama og ég. Þó þú teljir e.t.v. í lagi.

  8. Eins vil ég benda þér á Hjalti, að þrátt fyrir að hvergi komi fram í færslunni minni um hvaða bloggara sé að ræða, þá virðist þú vita það, sem gefur í skin að þú sjáir það sama og ég. Þó þú teljir e.t.v. í lagi.

    Nei Halldór, ég “sé ekki það sama og þú”, ég tók fram að ég muni ekki eftir því að hafa lesið einu einustu grein hjá honum. Þess vegna bað ég einmitt um vísanir á eitthvað svæsið, svo ég gæti metið þessa kvörtun þína.

  9. Ég man ekki eftir mörgum sem skrifa mikið gegn múhameðstrú á Moggablogginu og þegar ég kíkti á bloggsíðu viðkomandi sá ég að bloggsíðan byggist á “misvel þýddum greinum”.

  10. Já það er merkilegt að Skúli Skúlason skuli fá að skrifa svona óhindrað níð sitt á moggablogginu. En hann elur greinilega á fyrirliggjandi fordómum gegn múslimum, ekki síst femínistanna sem virðast vera farnar að halda að kvenfrelsið felist í að fá að sýna á sér bobbingarnar en ófrelsið að þurfa að fela þær.
    Annars er það umræðan í Danmörku í gær sem á hug minn allan núna. Fréttin um handtöku fimm múslima fyrir að skipuleggja morð á helsta teiknara Jyllandsposten í “skopmynda”málinu (komið hefur í ljós að hann vinnur þar!) vakti upp múslimafóbíuna í Danaveldi svo um munaði!
    Í ljós kom svo að þetta voru þrír menn og sök þeirra mjög óljós. Fylgst hafði verið með þeim í um hálft ár og látið til skarar skríða nú, liklega vegna þess að einhver PET-maðurinn heyrði ávæning af því (í hlerunartæki sínu) að líklega væri réttast að drepa helvítis teiknarann!
    Nú er búið að ákveða að vísa tveimur túnískum ríkisborgurum úr landi vegna þessa, án þess að rétta yfir þeim eða upplýsa nákvæmlega hvað þeim sé gefið að sök.
    Vinstri flokkarnir í Danmörku hafa mótmælt þessari meðferð sem þeir telja óásættanlega. Menn eru jú saklausir þar til sekt þeirra er “sönnuð” fyrir dómstólunum.
    Svo Dönum er ekki alls varnað. Sjá t.d. http://politiken.dk/politik/article470622.ece

  11. Það er margt sem bendir til að ég hafi rétt fyrir mér í færslunni hér að ofan. Haft er eftir yfirmanni dönsku leyniþjónustunnar “að PET har ikke ønsket at løbe nogen unødig risiko og har derfor valgt at gribe ind i en meget tidlig fase for at afbryde planlægningen og gennemførelsen af drabet”.
    Takið eftir orðalaginu “en meget tidlig fase” (sjá http://politiken.dk/indland/article470343.ece).

    Þá hefur danski ríkisborgarinn sem handtekinn var, verið látinn laus vegna þess hve sakir þær sem á hann eru bornar eru á veikum grunni.
    Mér sýnist því að hér sannist hið fornkveðna: “Ein lítil fjöður verður að fimm hænum.”
    Já, þeir eru fljótir til haturs- og hræðsluáróðursmeistararnir þegar þeir vilja auka kúgunina á minnihlutahópum, á “den andre”.

  12. Hér er þráður á viðbröð íslamska trúarsamfélagsins í Danmörku við endurbirtingu “skop”myndanna um Múhameð spámann: http://politiken.dk/indland/article470950.ece

    Myndin af honum sem terrorista og þar með af islam sem terror-trúarbrögðum ollu mikilli reiði á sínum tíma. Dönsk fyrirtæki, og aðrir danskir aðilar sem eiga hagsmuni að gæta í Miðausturlöndum, óttast að þessi sérkennilega ást dönsku pressunnar á tjáningarfrelsinu muni leiða til nýrra eyðilegginga á dönskum eignum í arabaheiminum.
    Það er ástæða til að óttast það. Ef Danir færu með eitthvað illkvittnislegt níð á hendur okkur Íslendingum myndi ég örugglega skreppa, ásamt öðrum, niður að danska sendiráðinu og hefði ekkert á móti því að sjá einn og einn stein fljúga í áttina að því!

  13. Torfi, stígðu á bremsuna maður. Hvað áttu við með að þú hafir

    ekkert á móti því að sjá einn og einn stein fljúga í áttina

    að danska sendiráðinu vegna þess að einhverjir Danir hefðu verið að níða Ísland eða Íslendinga. Veit reyndar ekki hvort Ella finnst þetta vera rétti vettvangurinn til þess, en held að þú verðir að gera grein fyrir máli þínu eða draga þessi orð til baka.

  14. Láttu ekki svona.
    Ég tel okkur almenna borgara hafa alveg sama rétt til tjáningarfrelsins eins og dönsku fjölmiðlarnir telja sig hafa. Það að kasta grjóti að einhverri opinberri byginningu er að engu leyti verri verknaður en að útbreiða þann boðskap að allir múslimar séu terroristar – eins og dönsku blöðin gera með því að birta myndina af Múhameð með tendraða sprengju í höfuðfatinu.
    Það er auðvitað miklu saklausri og harmlausari athöfn.

    Hins vegar sagðist ég aldrei ætla að kasta fyrsta steininum – né nokkum steini – en sé enga ástæðu til að reyna að hindra það, eða fetta fingur út í það þó svo að múslimar hér heima myndu svara þessum ofsóknum á hendur sér með því grýta danska sendiráðið. Mér finnst það þvert á moti mjög eðlileg viðbrögð.

    Það er nefnilega ekki hægt að refsa heilu samfélagi manna kollektíft fyrir gerðir örfárra manna – en það er einmitt það sem Danir eru að gera.
    Þar líkjast þeim ekki leiðum, en Ísraelsmenn eru að gera nákvæmlega það sama á Gasaströndinni með góðfúslegum stuðningi Bandaríkjamanna.
    Er það þess vegna sem þú bregst svona við Pétur Björgvin, þ.e. óbeint að verja kollektíft straff vegna þess að gyðingarnir, vinir þínir, stunda slíkt?

  15. Ég vil aðeins bæta við þetta vegna umræðunnar í Danmörku þessa daganna um meintar hugmyndir um að drepa einn af “skop”myndateiknurunum og ákvörðun danskra blaða um að birta þessar teikningar (nær öll blöðin nú en fyrst og fremst eitt áður).

    Menn hafa nú beint athyglinni að dönsku leyniþjónustunni og áreiðanleika hennar, sjá http://politiken.dk/politik/article471235.ece
    Mönnum finnst lítið eftirlit með þeirri stofnun og telja eðlilegt að hún leggi fram sín gögn um málið, sem hún hefur neitað hingað til af “öryggisástæðum”. M.a. er bent á að hún hafi náið samband við CIA og hafi meira að segja tekið þátt í fangaflutningum stofnunarinnar, fangafluginu sem Evrópusambadnið hefur lýst sem skýlausu lögbroti. Þá hefur leyniþjónustan sagt að að hún gæti vel unnið með pyntingjaríkjum, þ.e. ríkjum sem stunda pyntingar á pólitískum föngum. Einnig hefur PET staðið áður að brottvísunum úr landinu á vafasömum forsendum.
    Ríkisstjórnin hefur reyndar brugðist við þessari gagnrýni og skipað nefnd til að fara yfir málefni leyniþjónustunnar.

    Eftir stendur að menn séu saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð. Því er frumhlaup dönsku fjölmiðlanna óforsvaranlegt og sýnir einfaldlega hina miklu múslimafóbíu sem ríkir í landinu, útlendingahatur öðru nafni.

    Því miður virðist sama þróun vera hér á landi eins og frétt í 24 Stundum í morgun sýnir (og smölunin í félag gríslinganna gegn Pólverjum).
    Bubbi gerir vel að halda hljómleika gegn rasisma – en hvað með þjóðkirkjuna?
    Af hverju gerir hún ekki neitt? Af hverju notar hún ekki dæmisöguna um Miskunnsama samverjann (og fleiri slíkar dæmisögur) miklu betur en hún gerir til að vinna gegn hatri á “hinu ókunna” eða “das andere”?
    Er þögn hennar ekki sama og samþykki og þar með er hún samsek?
    Af hverju heyrist samfélagslegt erindi hennar ekki meira en raun ber vitni?

  16. Ég sé ekki ástæðu til að mótmæla orðum Torfa í garð danska sendiráðsins. Þetta mál sem nú er í gangi sýnir vandamál Vesturlanda í garð múslima í hnotskurn. Danska leyniþjónustan tilkynnir að hún hafi heyrt á tal múslima þar sem rætt hafi verið um að drepa einhvern.

    Í kjölfarið grípa fjölmiðlar í Danmörku og einhverjir sjálfhverfir vefsíðueigendur á Íslandi til þess ráðs að birta mynd af Múhammeð sem gefur í skin að allir múslimar séu hryðjuverkamenn á þeim forsendum að við megum meiða alla múslima, því til eru vondir múslimar sem tala um að drepa. Tjáningarfrelsið leyfir slíkt.

    Við vitum reyndar ekki neitt um þetta samtal múslimanna og ef við ætluðum að bregðast við í hvert skipti sem orðin “réttdræpur” kæmu upp í orðræðunni á Íslandi, þá væru margir “besservisserar” blogsins í vanda.

  17. …að birta mynd af Múhammeð sem gefur í skin að allir múslimar séu hryðjuverkamenn

    Af hverju fullyrða menn að þetta sé hin eina rétta túlkun þessara myndar?

    Hvar er gefið í skyn á þessari mynd að “allir múslimar séu hryðjuverkamenn”?

    Ég hef séð þessu haldið fram víða en enginn nennir að rökstyðja þessa glórulausu túlkun.

    Hvað með túlkunina: “Myndin sýnir hvernig Íslam er misnotað til að réttlæta hryðjuverk”?

    Er hún eitthvað síðri en ykkar (fordómafulla) túlkun?

  18. Mér finnst það mjög undarlegt túlkun að segja að myndin gefi það í skyn að allir múhameðstrúarmenn séu hryðjuverkamenn.

    … á þeim forsendum að við megum meiða alla múslima, því til eru vondir múslimar sem tala um að drepa.

    Nú held ég að þú ættir frekar að tala um að særa en að meiða, amk túlka ég meiða meira sem líkamlegt. En ég efast um að nokkur maður haldi því fram að það megi særa ofurviðkvæmar trúartilfinningar múhameðstrúarmanna vegna þess að “til eru vondir múslímar sem tala um að drepa”.

    Mér finnst líka undarlegt að Torfi telji það eðlileg viðbrögð að grýta sendiráð annarra ríkja vegna þess að dagblað frá því landi birtir teiknimynd sem manni er illa við.

  19. Vissulega er hægt að túlka myndina sem svo að hún sé gagnrýni á íslamista sem misnota Múhammeð og fela sprengju í túrbaninum hans. Hugsanlega er ég bara vitlaus og fordómafullur að túlka myndina á þann hátt að um sé að ræða vísun til þess að Múhammeð sé ofbeldisseggur.

    Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að sú túlkun sem ég vísa til sé almennari og sú túlkun sem allflestir aðhyllast, hvort sem hin túlkunin sé rétt eða ekki.

  20. Það er vandlifað veröld í og samtal á bloggsíðu getur oft verið flókið því sagan er sjaldan sögð öll í stuttum setningum, án líkamstjáningar eða gagnkvæmra viðbragða viðmælenda. Áskoranir í Líbanon nefndi ég einn pistilinn minn á annálnum mínum. Þar segir frá tveimur einstaklingum sem taka höndum saman og reyna að byggja upp friðsamlegt samfélag í Líbanon, sett fram sem dæmi um hvað fólk er að gera og hvar fólk virðist kunna til verka. Vissulega getum við lært af þeim og vissulega verðum við að taka okkur tak.

    Þú bendir réttilega á Torfi að þjóðkirkjan hefur ekki tjáð sig með stórum orðum á síðum blaðanna um aðstæður fólks af erlendu bergi á Íslandi í dag. En segir það alla söguna? Hefur þú eða hef ég leyfi til þess að dæma um starf kirkjunnar í heild sinni út frá því. Þú veist betur en svo Torfi að ætla að halda því fram að hægt sé að steypa þjóðkirkjuna í heild sinni í eitt mót í þessu máli. Þú veist vel að starfsfélagar þínir, prestarnir, eru misjafnir og sumir að gera góða hluti í málefnu innflytjenda meðan aðrir setja aðrar starfsáherslur, oftar en ekki vegna þess að enginn getur gert allt, fólk – líka prestar – verða að forgangsraða.

    Ég er hissa á ykkur báðum að sjá steinakast sem eitthvað saklaust, réttlætanlegt athæfi. Næst friður með því að kasta steinum? Erum við betur sett með að leyfa ofbeldi á meðan það eru skiljanleg rök þar á bak við?

    Og Elli er ekki hluti af vandamálinu sá að við höfum ekki staðið okkur í uppfræðslu fólks á Vesturlöndum hvað alhæfingar varðar? Ef það er rétt hjá þér að túlkun lesendans á mynd af spámanni trúarbragða – hverra svo sem það eru – sé sú að allir sem aðhyllist viðkomandi trúarbrögð falli undir þá tjáningu sem teiknarinn tjáir með teikningu sinni, þá erum við enn á steinöld og jesúfríkur eins og ég og þú örugglega í sandölum og hvítum, skósíðum kufli með sítt hár og skegg.

  21. Hafi það farið framhjá einhverjum, þá hafa múslimar víða beðist undan því að þessar myndir séu birtar, þeim finnst þær særandi. Einhverjir múslímar hafa mótmælt með sýnilegum hætti, t.d. með því að brenna fána og í örfáum undantekningartilfellum ráðist að eigum fólks. Það að danska leyniþjónustan birti mjög óljósar fréttir um hugsanlegt samtal einhverra manna sem gætu hafa verið að tala um að einhver væri réttdræpur, virðist réttlæta það að myndirnar séu birtar á ný. Hér er rétt að hafa í huga að ásakandinn, danska leyniþjónustan, treystir sér ekki með málið fyrir dómstóla, heldur vill fá dómsvaldið í sínar hendur í málinu.

    Það að nota þetta tækifæri til að særa múslima með því að endurbirta myndirnar, segir mun meira um þá sem birta en nokkru sinni, nokkuð um það hvort múslimar séu ofurviðkæmir eða ekki. Það kemur málinu varla við.

    Varðandi athugasemd Péturs. Ég myndi ekki fara með Torfa niður að danska sendiráðinu. En það merkir ekki að ég geti ekki haft skilning og á vissan hátt samúð með þeim sem sjá það sem einu mögulegu leiðina til að tjá sig.

    Þjóðkirkjan hefur ekki haft þá siðu að tjá sig opinberlega um mörg mál. En ég held að þegar kemur að misrétti í garð þjóðfélagshópa, líkt og hefur gerst í umræðunni um rassisma hefur kirkjan ríka skyldu til að taka til máls. Fyrir því get ég fært fjölmörg rök.

    Jú, okkur hefur mistekist í allri uppfræðslu það er ljóst. Kirkjan sem montar sig af því að hafa 90% unglinga á aldrinum 13-14 ára í fræðsludagskrá um boðskap Krists og mikilvægi kærleikans, má skammast sín mjög, fyrir að hafa klúðrað verkefninu.

    Í árásum á trúartákn (tákn í víðum skilningi) felst oft árás á trúarsannfæringu. Auðvitað taka ekki allir múslimar slíkt til sín, en það er ekki fyrir þá sök að árásarmaðurinn hafi gert rétt.

  22. Ég er sammála þér Elli að skylda kristinnar kirkju í heild sinni, hvort heldur um er að ræða þjóðkirkju eða einstaka trúfélög eða trúarhópa, hefur mjög ríka skyldu til að tjá samstöðu sína með hverjum þeim sem er undir í samfélaginu á einhvern hátt. Hér þurfum við að játa mistök okkar og biðjast fyrirgefningar á því að við höfum þagað þunnu hljóði, allt of oft. En hér getum við ekki alhæft frekar en í öðru samhengi. Margir eru að gera góða hluti í sínu starfi þó svo að viðkomandi hafi ekki þau ítök og þær leiðir sem nauðsynlegar eru til þess að koma sínu á framfæri í nafni þjóðkirkjunnar í heild sinni. Tökum bara fjölmenningarverkefni Fella- og Hólakirkju sem dæmi.

  23. Miklu fleiri múslimar hafa ekki beðist undan því að þessar myndir séu birtar. En þetta er póstmódernískur útúrsnúningur 🙂

    Talsmaður múslima í Danmörku sagði reyndar að hann teldi birtinguna skiljanlega í þessu tilviki, þar sem verið væri að bregðast við tilteknum hótunum. Því taldi hann ekki sennilegt að þeir myndu bregðast við þessu.

    Ég velti því fyrir mér hvort hófsömum múslimum sé mikill greiði gerður þegar fullt af fólki móðgast svona stórkostlega fyrir hönd öfgamanna.

  24. Ég veit af verkefninu í Fella- og Hóla og auðvitað er hægt að benda á Adrenalíngengið hennar Jónu. Hins vegar eru þetta “token” verkefni, þ.e. þau lýsa ekki breiddinni, heldur eru svona “sönnun” þess að við erum að standa okkur. Líkt og “samkynhneigði” eða “svarti” nemandinn í guðfræðiskólanum mínum. Tilraun til að segja að við bjóðum alla velkomna.

    Umræðan um birtingu myndanna snýst í mínum huga ekki um múslima, ég er ekki móðgaður fyrir þeirra hönd. Ég er móðgaður fyrir mína hönd og míns fólks. Ég er móðgaður vegna þess að þeir sem tala fyrir mína hönd, eru hluti af mínum menningarheimi haga sér eins og fífl. Ég er móðgaður vegna þess að Egill Helgason er í vinnu hjá íslenska ríkinu sem fjölmiðlamaður. Ég er móðgaður vegna þess að frjálslynda og frábæra landið Danmörk sem ég bjó í er uppspretta fordóma og heimskulegrar hegðunar. Ég er móðgaður vegna þess að ég er hluti þessara Norðurlandabúa sem láta eins og bjánar.

    Kannski felst móðgunin umfram allt í því að ég hef tekið þátt í að uppfræða fleiri þúsund börn á Íslandi um Jesús Krist og hluti þessara barna stofnar félög eins og Ísland fyrir Íslendinga eða Félag gegn Pólverjum. Líklega snýst pirringur minn yfir birtingu myndina fyrst og fremst um það að birting þeirra, segir mér að mér hafi mistekist hrapalega.

    Ég ítreka, ég er ekki móðgaður fyrir hönd múslima, hófsamra eða öfgamanna. Ég er móðgaður fyrir mína hönd, þjóðar minnar og þess menningarheims sem ég tilheyri.

  25. Það eru komin svo mörg innlegg við skeyti mínu að það er erfitt að byrja.
    Fyrst vil ég þó svara fullyrðingu Matta um að það sé glórulaus túlkun að teikningin af Múhameð með sprengju í vefjarhnettinum feli í sér skírskotun til þess að allir múslimar séu hryðjuverkamenn.

    Mér finnst hún reyndar ekki fela það í sér heldur að trúin sem slík hvetji til hryðjuverka. Túlkun Matta finnst mér hins vegar mjög hæpin, þ.e. að þar sé aðeins gefið í skyn að menn misnoti trúna til að réttlæta terror. Ég veit ekki heldur til þess að islam sé notað á þann hátt. Hryðjuverk eru kannski fyrst og fremst framin til að mótmæla, eða berjast gegn, Bandaríkjamönnum, áhrifum þeirra og veru herja þeirra í hinum múslimska heimi.

    Við Hjalta hef ég það að segja að ég ber enga ofurvirðingu fyrir sendiráðum ríkja sem fara með ófriði gegn öðrum þjóðum. Danir fara ekki aðeins fram með níð og óhróður gegn islam heldur taka þátt í hersetu tveggja landa í arabaheiminum, Írak og Afganistan. Það eru furðuleg einfeldni hjá þeim (og vinum þeirra) að halda að allt þetta hafi engar neikvæðar afleiðingar fyrir þá.
    Og til að svara Pétri Björgvini þá hef ég aldrei haldið því fram að friður náist með því að kasta steinum. Ég sagðist einfaldlega skilja slík viðbrögð mjög vel.

    Um þjóðkirkjuna er það að segja að ég hef verið að rannsaka fermingarfræðslu hennar nú um hríð. Þar vekur athygli mína hve lítið er fjallað þar um þjóðfélagsmál, þó svo að mjög gott tækifæri gefist til þess með fermingarkverinu sem hefur verið mest notað til þess. Umræða um siðræn málefni hefur látið undan síga fyrir þekkingarlegri áherslu (nokkurs konar biblíusöguáherslu). Ég kenni frekar aukinni þjóðfélagslegri íhaldsemi innan prestastéttarinnar um, en að ytri aðstæður kalli á slík.

  26. Torfi, þú varst ekki að tala um að henda grjóti í sendiráðið til þess að mótmæla átökunum í Afganistan og Írak, heldur vegan þess að danskt blað birti teiknimyndir sem sumt fólk segir að særi viðkvæmar trúartilfinningar þeirra.

    …þ.e. að þar sé aðeins gefið í skyn að menn misnoti trúna til að réttlæta terror. Ég veit ekki heldur til þess að islam sé notað á þann hátt.

    Það er greinilega margt sem þú veist ekki. Er það virkilega umdeilt að sumir öfgamúhameðstrúarmenn nota trúna til þess að réttlæta hryðjuverk?

  27. Ég veit margt ekki, það er rétt, en ég er þó næstum viss um að ég viti meira um þessi mál en þú.

    Ekki veit ég svo sem hvort það sé umdeilt hvort sumir muslímar (múhameðstrúarmenn eru ekki til, þar sem Muhameð var maður, ekki Guð, og aðeins er hægt að trúa á Guð (ekki mann/menn)) noti trúna til að réttlæta hryðjuverk en ég minnist þess ekki að þeir geri það almennt.
    Þú leiðréttir mig þá ef þetta er misminni hjá mér og þá með almennum dæmum.
    Hryðjuverkin eiga sér fyrst og fremst pólitískar ástæður, ekki trúarlegar.

    Mér finnst merkilegt með ykkur vantrúarmenn hvað þið eruð miklar hægribullur, eða virðist a.m.k. vera það. En kannski blindar “hatur” ykkar á trúarbrögðum almennt ykkur sýn í afstöðunni til muslíma? Þið eruð með birtingu skopmyndanna því það sé eðlilegt og sjálfsagt að hæðast að trúarbrögðum – og horfið þá framhjá því að hér er um ofsóknir á hendur minnihlutahópum að ræða – hópum sem líkjast ykkur sjálfum að því leyti.
    Rétt eins og þið þurfið að sætta ykkur við kúgun meirihlutans á ykkur þá þurfa múslimar í Danmörku að sætta sig við það sama. Auk þess eiga arbalöndin mjög erfitt uppdráttar í heimspólitíkinni og því full ástæða til að hafa samúð með þeim.
    Greyin mín! Reynið að sjá málið í minnihlutaljósinu og þá munum við geta átt mjög góða samleið.

  28. Jæja þá eru viðbrögðin farin að koma í ljós. Hamas-menn á Gasaströndinni mótmæla teikningunum þúsundum saman, sjá http://politiken.dk/udland/article472152.ece

    Þeir létu reiði sína bitna á bókasafni á vegnum KFUM!
    Kannski sáu vantrúarmennirnir þetta fyrir og fögnuðu því birtingu teikninganna?

    Þá stendur einnig yfir mótmælaganga í Kaupmannahöfn gegn framferði dönsku blaðanna og yfirvalda.

    Þegar er búið að vísa Túnismönnunum úr landi, án þess að lagðar hafi verið neinar sannanir fyrir því að þeir hafi í raun og veru ætlað að drepa teiknarann. Tekið skal fram að þeir eru báðir kvæntir og konur þeirra danskir ríkisborgarar!
    Nú krefjast vinstri menn á danska þinginu að sett verði lög um leyniþjónustuna, sem setji henni skorður hvað varðar brottrekstur fólks úr landi.

    Ástandið í Danmörku er farið að líkjast ritskoðunarlögunum(!) frá 1799 þegar hægt var að vísa mönnum úr landi fyrir ósannaðar sakir. Réttarríkið hefur farið aftur um meira en 200 ár.

    Og síðustu helgi voru miklar óeirðir á Norrebro, sem enginn virðist vita af hverju eru til komnar. Danmörk er að verða einn stór suðupunktur.

  29. Fullyrðing: “Menn nota múhameðstrú til þess að réttlæta hryðjuverk.”

    Svar Torfa: “Ástæður hryðjuverkanna eru pólitísk en ekki trúarleg.”

    Sérðu ekkert undarlegt við þetta svar þitt?

  30. Mér finnst merkilegt með ykkur vantrúarmenn hvað þið eruð miklar hægribullur, eða virðist a.m.k. vera það.

    Þetta er skemmtileg nýbreytni, vanalega erum við sökuð um að vera kommúnistar 🙂

Comments are closed.