Modern eða post-modern

Prófkjör demókrata er ekki einvörðungu spurning um karl eða konu, reynslu eða ferskleika, hvítt eða svart, miðvestrið eða ströndina, lagadeildina í Harvard eða lagadeildina í Yale. Prófkjörið er líklega fyrst og fremst spurning um heimsmynd. Ekki svo að hugmyndir frambjóðendanna tveggja séu svo ólíkar, alls ekki. Ef við lítum til hefðbundina málaflokka þá eru þau sammála um allflest og þó sumir myndu segja Barack lengra til hægri en Hillary, þá er Michelle lengra til vinstri en Bill.

Munurinn á framboðunum tveimur liggur í því að annar frambjóðandinn er fulltrúi línulegrar heimsmyndar. Stjórnmál felast í tæknilegum lausnum, sannleikurinn er þarna úti, lausnin er til. Þessi hugmynd sem á uppruna sinn í upplýsingunni, er stundum kölluð newtónísk, og er líklega sú heimsmynd sem við styðjumst flest við, oftast nær alla vega. Útfærslur og afleiðingar af þessari hugmynd sem við getum kallað moderníska eru fjölmargar, hún hefur enda fengið mörg höggin, heimstyrjaldirnar á síðustu öld kannski þau stærstu. Þegar sprengjan sprakk í Hirosima, má segja að hugmyndin um tæknina sem leiddi á endanum alltaf til góðs hafi dáið endanlega. Þessi heimsmynd lifir samt enn góðu lífi og hefur leitast við að aðlagast óþægindunum og frávikunum. Oft á tíðum þýðir þó hugmyndin um tæknilegar lausnir, að sú lausn sem hentar best ráðandi stétt og samræmist hugmyndaheimi hennar er lausnin sem gripið er til.

Hinn frambjóðandinn virðist vita að ein sameiginleg frásögn (meta-narrative), sameiginlegur skilningur alls mannkyns er ekki til. Við lifum í brotakenndum heimi þar sem hvert brot á sína frásögn, sinn skilning. Til að þjóna slíkum heimi er ekki til ein tæknileg lausn, nýrri sameiginlegri frásögn verður ekki þvingað upp á okkur. Ljósið er ekki annað hvort bylgja eða ögn. Þessi frambjóðandi skilur enda að lausnin felst í að vera sveigjanlegur og hann veit að við getum unnið saman. Hann er nefnilega sjálfur afsprengi fjölmargra frásagna. Þetta mótar framboð hans, mótar verkefnið sem hann stendur frammi fyrir. Verkefnið er ekki tæknilegt, tilraun til að finna bestu lausn á einstökum vandamálum. Þvert á móti, verkefnið er að virkja frásagnir (narrative) sem flestra til að takast á við heiminn á sem fjölbreyttastan hátt. Þetta er oft gagnrýnt sem skortur á lausnum. Viðkomandi stjórnmálamaður er sagður skoðanalaus. En veruleikinn er annar. Skoðun hans felst í að vilja virkja og virða frásagnir sem flestra, þannig að allir hafi tækifæri. Slagorðið YES, WE CAN er þannig í einhverjum skilningi uppspretta og inntak kosningabaráttunnar. Það færir ábyrgðina frá Hvíta Húsinu og þinginu til okkar sjálfra og það er ekki bara ábyrgðin sem færist til, völdin fylgja.

Að ofansögðu virðist ljóst að spurningin í prófkjöri Demókrata er fyrst og fremst spurning um hvort við trúum því að modernisminn hafi liðið undir lok. Er vilji, kjarkur til að færa ábyrgðina og völdin frá tæknilausnum og takast á við brotakenndan póstmódernískan heim.