Strax í upphafi er rétt að taka fram að ég hef ekki lesið nýja aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla í heild og vel má vera að um gott plagg sé að ræða. Athygli mín var hins vegar vakin á öðrum kaflanum þar sem gerð er grein fyrir hugtakinu almenn menntun. Þar er haldið á lofti fullyrðingum um eldri skilgreiningar á almennri menntun og án þess að ég sé sagnfræðingur eða sérfræðingur í menntunarfræðum get ég fullyrt að svona framsettar fullyrðingar yrðu seint samþykktar sem vitneskja á Wikipedia.
Þannig kemur fram einstaklega barnaleg söguskoðun og grunnur skilningur á miðaldasamfélaginu og stöðu kirkjunnar á miðöldum í Evrópu. Það að setja svona inn í nýja aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er fráleitt, nema ef ætlunin sé að námskráin endurspegli hugmyndaheim grunnskólaritgerða.
Svo ég útskýri mál mitt frekar. Í aðalnámskránni er sagt:
Miðaldakirkjan skilgreindi almenna menntun í Evrópu á miðöldum út frá sínum þörfum, …
Og er þessi fullyrðing notuð til að sýna hversu mjög hugmyndir um almenna menntun hefur breyst því að á:
21. öld er almenn menntun skilgreind út frá samfélagslegum þörfum og út frá þörfum einstaklinganna.
Gallinn við þessa framsetningu er auðvitað tvenns konar. Fyrir það fyrsta var einstaklingshyggja upplýsingarinnar óþekkt á miðöldum þannig að réttilega hefur sú áhersla bæst við (í orði að minnsta kosti). En það sem meira er um vert, kirkjan var sá samfélagslegi veruleiki sem allir bjuggu við og mótaði samfélagið. Almenn menntun á miðöldum tók því mið af samfélagslegum þörfum á sama hátt og nú er, en í stað fyrirtækjastyrktra kennslustofa og ríkismiðaðra námsferla, voru samfélagslegu þarfirnar skilgreindar af kirkjunni, enda stærsta og öflugasta samfélagslega stofnunin á þeim tíma.
Nú er ekki svo að ég telji að kirkjan eigi að hafa þetta hlutverk í dag, fjarri fer því, en það er einfaldlega barnalegt að halda því fram að grunnmarkmið almennrar menntunar hafi breyst svo mjög, þ.e. hvað varðar það hlutverk að uppfylla samfélagslegar þarfir.
Vissulega getur verið að höfundur sé einvörðungu að benda á að samfélagslegar þarfir á miðöldum hafi verið skilgreindar af kirkjunni en í dag séu samfélagslegar þarfir “raunverulegar” samfélagslegar þarfir. En það lýsir ekki bara barnaskap heldur hroka, og kallar á upplýsingar í námskránni um hvaða stofnanir og samfélagshópar móta hvaða samfélagslegar þarfir almenn menntun í dag á að mæta.
Þegar opinberir aðilar skrifa stefnumótandi gögn er gífurlega mikilvægt að slík gögn séu gagnrýnd ítarlega til að takast á við og greina rómantískar ranghugmyndir, hvort sem um er að ræða “illu miðaldakirkjuna” eða “kristilegan menningararf íslendinga.” Ef þrátt fyrir allt er ákveðið er að notast við slíkar hugmyndir þarf að gera það á faglegan hátt, þannig að hægt sé að leita í heimildir fyrir hugmyndunum.
Ég er ekki viss um að sagnfræðikennarinn minn í MR hefði orðið sáttur við vinnubrögðin ef ég hefði sett fram fullyrðingar um almenna menntun yfirstétta til forna og kirkjumiðlæga menntun á miðöldum á þann hátt sem gert er í drögum að námskránni sem honum ber að fylgja.