Þetta er alvöru

Fyrir nokkrum mánuðum, næstum ári var ég að lesa mér til um kirkjulegt starf með ungu fólki og rakst á sögu frá Bandaríkjunum sem hafði veruleg áhrif á mig. Þannig var að móðir kom mjög æst til fundar við æskulýðsfulltrúann og prestinn í kirkjunni sinni. Hún hafði verulegar áhyggjur af syni sínum á háskólaaldri og taldi það sök kirkjunnar. Presturinn og æskulýðsfulltrúinn ákváðu að kalla soninn til fundarins til að fá botn í málið.

Ákvörðun sonarins var skýr, hann var á leið með hópi fólks á öllum aldri til Bagdad þar sem þau ætluðu að stilla sér upp við sjúkrahús og skóla, við borgaraleg skotmörk sem lifandi skyldir. Móðirin var ekki hrifin og sakaði æskulýðsleiðtogann um að hafa gert barnið sitt of ábyrgt. Sonurinn svaraði að bragði og benti á að það hafi verið hún sem vildi að hann væri í kirkjustarfi, hún hafi hvatt hann til að taka boðskap Jesú Krists alvarlega um að standa með þeim þjáðu og snjáðu, vernda þá sem minna mega sín. Síðan bætti sonurinn við. “Ef ég tek Jesús Krist alvarlega get ég ekki staðið hjá og gert ekkert.” Þegar móðirin gekk af fundi, sagði hún stundarhátt. “Ég hefði betur haldið að honum grasi.”

“Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans” (Heb 4.12). Ef við trúum því að það sé satt, Guð sé skapari alls, lausnari lífs og kraftur til góðra verka, þá getum við ekki með góðu móti sagt að það feli í sér hlutleysi í trúmálum að gefa börnum Nýja Testamentið. Ef við trúum því að bænin sé máttug, þá getum við ekki haldið því fram að bænahald í grunnskólum sé ekkert vandamál. Við sem höfum fengið að upplifa kraft Guðs vitum betur. Ég trúi á góðan Guð sem er lifandi og kröftugur, Guð sem er ekki bundin við aðgang að skólum, Guð sem er ekki háður hefðum. Ég trúi á Guð sem er stöðuglega skapandi nýtt, ný tækifæri, nýja framtíð, nýjan dag.

Þegar við streitumst á móti nýjum tækifærum, nýjum degi, þá lokum við Guð inni. Við festumst í fari hefðanna og til að réttlæta stöðnunina neyðumst við til að smækka Skaparann. Við tölum um að dreifing Nýja Testamentisins hafi enginn áhrif, við tölum um að bænahald sé hefðin ein. Við afneitum lifandi og upprisnum frelsara og játum trú á skurðgoð hefðanna. Við setjum hljóðkút á kall Guðs til okkar, svo það skeri nú örugglega ekki í eyrun.

Guð (YHWH), skaparinn, frelsarinn og lausnarinn er nefnilega svo miklu meira en hefðirnar. Lifandi Guð kallar okkur til þjónustu. Lifandi Guð kallar fólk til að standa sem skyldir við borgaraleg mannvirki í Írak. Lifandi Guð býður okkur að spila körfubolta með skólabörnum á Haiti. Upprisinn frelsari kallar okkur til að drekka te með öldungum í litlu þorpi í Marokko. Guð kallar okkur til að setjast niður með þeim sem hafa litla rödd og standa með þeim. Lausnarinn okkar gleðst yfir gostappaeyrnalokkasölu á Glerártorgi. Guð kallar okkur til að bera ábyrgð hvort á öðru.

Svar okkar við kallinu getur falist í að flytja með fjölskylduna í ókunnugt land til að hjálpa stækkandi trúarsamfélagi að takast á við vaxtarverki. Svarið okkar getur falist í því að styðja við góð verkefni. Svarið getur falist í að stíga fram og segja sannleikann þrátt fyrir að það geti kostað líf, limi eða atvinnu. Svarið okkar snýst umfram allt um að vera heiðarleg gagnvart þeim sem við mætum, gangast óhrædd undir sannleikann.

Þegar Jónsi syngur: “Það besta sem Guð hefur skapað er nýr dagur” þá lýsir hann betur en flest annað hvað í því felst að trúa á upprisinn frelsara. Guð tækifæranna og ævintýranna, Guð réttlætis og nýrrar gleði, Guð framtíðar, fortíðar og nútíðar. Guð sem er stöðuglega skapandi, Guð sem er vissulega hættulegur, Guð sem hefur kallað okkur til að taka þátt í ævintýrinu með sér.

Góður Guð hjálpi okkur til að horfast með djöfung fram á nýjan dag, dag óvissu og tækifæra. Guð gefi að við megum treysta á orðin í Jeremía 29: “Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.”

One thought on “Þetta er alvöru”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.