Stuttir þankar um tillögur mannréttindaráðs

Ég hef verið beðin um að skrifa um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur um trúar- og lífsskoðunarmál. Það eru mismunandi leiðir til að nálgast svona texta, en upphafsspurningin er hvort hér sé um að ræða altækt eða sértækt skjal. Er skjalinu ætlað að vera leiðbeinandi um hvernig skólastjórnir nálgast svona mál almennt eða er verið að ávarpa sértæk vandamál? Það sem hér fer á eftir eru pælingar mínar meðan ég horfi á House og svíkst undan að brjóta þvott og það er alls ekki ósennilegt að ég geti ekki staðið við allt sem fylgir hér að neðan.

Það vekur athygli mína við fyrsta lestur að þrátt fyrir að orðalagið sé almennt er augljóslega verið að bregðast við sértækum aðstæðum. Þannig er gagnrýnt að skólastarf í öllum skólum fari úr skorðum í a.m.k. 2 daga á hverju hausti vegna fermingarnámskeiða og það þurfi að stöðva. Fyrir það fyrsta er þessi alhæfing ekki rétt. Það fara ekki allir söfnuðir í fermingarferðir á haustin. Í annan stað eru ferðirnar ekki á vegum skólana heldur kirkjunnar. Í þriðja lagi er foreldrarétturinn æðri rétti skólans til að taka ákvarðanir um líf barna.

Ákvörðun um fermingarferðir er því ekki skólans heldur kirkjunnar í samstarfi við foreldra. Á kirkjan að bjóða upp á dagskrá sem veldur því að “börn … telji sig útundan” og veldur raski á skólastarfi? Það er spurningin sem kirkjan þarf að spyrja sig. Skólayfirvöld eða Reykjavíkurborg hafa í raun lítið um það að segja, sér í lagi ef banna á allt samtal og samstarf.

Sú ákvörðun að greina frístundastarf trúar- og lífsskoðunarfélaga frá öðru tómstundastarfi þarfnast útskýringa. Ég held að sú aðgreining sé ekki heppileg, enda kallar slík aðgreining á endalausar spurningar. Hvenær er frístundastarf gildishlaðið og hvenær ekki? Hvers konar frístundastarf má koma með bæklinga og hverjir ekki? Hver ætlar að dæma um gildishleðslu?

Það að nefna Nýja Testamentið sérstaklega sem trúarrit sem óheimilt er að dreifa er jafnframt áhugavert, nema ef ætlunin er að taka sérstaklega fyrir starf Gídeonfélagsins. Þannig væri mun nær væri að taka Biblíuna sem dæmi, ef ætlunin er að hafa tillögurnar almennar. Í sjálfu sér er þetta minniháttar mál, en snýst samt um eðli tillagnanna. Er hugmyndin að koma í veg fyrir starf Gídeonfélagsins (sértækt), eða er um að ræða almennar tillögur um trúarrit? Annað þarf svo sem ekki að útiloka hitt.

Ég tek að mestu undir tillögur um að samþætta ekki húsnæði og starfsemi stofnana, sem vinna með börn á vegum Reykjavíkurborgar, og starfsemi trúar- og lífsskoðunarhópa á skólatíma. Ég hef beitt mér fyrir þessari aðgreiningu þar sem ég hef starfað á kirkjulegum vettvangi og fátt við það að bæta, og þó. Ég velti fyrir mér hvort að með þessu sé horfið frá hugmyndum um að allt frístundastarf barna skuli fara fram á tíma frístundaheimilanna ef þess er kostur, eða er það skilningur mannréttindaráðs að frístundastarf trúar- og lífskoðunarfélaga falli ekki undir regnhlífina “allt frístundastarf.”

Ég tek undir liðin sem segir að “ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki heima í starfi með börnum í opinberum skólum. Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla.” Ég reyndar hefði stytt þetta nokkuð og einfaldlega sagt: “Ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi á ekki heima í starfi með börnum í opinberum skólum.”

Hins vegar skil ég ekki setninguna: “Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla.” Hún virðist illa ígrunduð og marklaus, sett inn til að gefa í skyn að ekki verði hróflað við “litlu jólunum.” Ég sé ekki þörfina á þessu hér.

Lokatillagan þar sem “því er beint til stofnana borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- eða lífsskoðunarfélaga” er fyrst og fremst heimskulega orðuð. Ég trúi ekki að hugmynd mannréttindaráðs sé að gefa í skyn að starfsfólk trúar- og lífskoðunarfélaga séu ekki fagaðilar þegar kemur að sálrænum áföllum, heldur sé verið að leggja áherslu á að kallaðir séu til leiks einstaklingar sem hafi víðari skírskotun til alls en leiðtogar í trúfélögum geta haft.

One thought on “Stuttir þankar um tillögur mannréttindaráðs”

  1. Ég sé ekki þörfina á þessu hér.

    Þetta er líklega sett þarna inn af því að það virðist vera taktík þeirra sem eru fylgjandi sókn kirkjunnar inn í skóla að stilla þessu þannig upp að það sé t.d. verið að ráðast á litlu jólin.

    Ég trúi ekki að hugmynd mannréttindaráðs sé að gefa í skyn að starfsfólk trúar- og lífskoðunarfélaga séu ekki fagaðilar þegar kemur að sálrænum áföllum, heldur sé verið að leggja áherslu á að kallaðir séu til leiks einstaklingar sem hafi víðari skírskotun til alls en leiðtogar í trúfélögum geta haft.

    Ég held að það sé rétt skilið hjá þér. Það mætti breyta þessu orðalagi.

    Í sjálfu sér er þetta minniháttar mál, en snýst samt um eðli tillagnanna. Er hugmyndin að koma í veg fyrir starf Gídeonfélagsins (sértækt), eða er um að ræða almennar tillögur um trúarrit? Annað þarf svo sem ekki að útiloka hitt.

    Það mætti auðvitað orða þetta víðtækt (“Skólinn á ekki að vera vettvangur fyrir dreyfingu trúaráróðursrita”, veit ekki um betra orð en “áróður”).

    En það er gott að sjá að þú ert sammála því að bænahald og sálmasöngur eigi ekki heima í skólunum. Þetta virðist vera frekar sjaldgæft viðhorf innan kirkjunnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.