Ofbeldismaður í prestastétt

Fyrir nokkrum árum settist ég niður með fyrrverandi eiginkonu kynferðisbrotamanns úr prestastétt á kaffihúsi. Þar sagði hún mér hluta af sögu sinni. Það var lærdómsríkt að heyra hana tala um barnaskap sinn, hvernig hún dýrkaði þennan frábæra mann og trúði honum í einu og öllu.

Það var ekki síður áhugavert að heyra hana segja frá viðbrögðunum þegar það komst upp um manninn. Hún lýsti fyrir mér hvernig hún upplifði svikin við sig, lýsti væntingunum um að hún stæði með manninum í gegnum erfiðleikana sem hann gekk í gegnum. Kröfu sumra um að hún stæði með manninum sínum og heimtingu annarra um að hún segði án tafar skilið við allt sem hún hefði treyst á. Hún lýsti fyrir mér hvernig hún upplifði ásakanir um að hún hefði vitað eitthvað. Ásakanir foreldra í söfnuðinum sem áttu auðveldara með að gera hana að sökudólgi en prestinn sem þau höfðu svo lengi treyst. Hún sagði mér hvernig hún hröklaðist úr söfnuðinum án þess að hafa neitt til sakar unnið annað en að treysta manninum sínum. Hún talaði um hvernig hún uppgötvaði að maðurinn sem hún hafði dýrkað og dáð var skrýmsli, hvernig hún sá líf sitt og samskipti við hann í nýju ljósi þegar blekkingin kom í ljós.

Hún sagði mér hvernig hún velti fyrir sér hvort og hvernig kirkjan brást, hvort trú sín á Guð væri byggð á blekkingu. Hvort kirkjan væri í raun verkfæri Guðs, eða eitthvað allt annað.

Ég velti oft fyrir mér samtali okkar, hvernig henni tókst að brjótast undan ömurlegum aðstæðum og byggja upp nýtt líf, eftir að allt hafði hrunið í kringum hana. Ég uppgötvaði líka að nýstandi sársaukinn er allt í kringum okkur, jafnvel í lífi vinalegu konunnar á kaffihúsinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.