Réttlaus

Þegar þessi færsla birtist, 26. október, er ég án réttarstöðu í Bandaríkjunum og rétt í þann mund að lenda á Toronto Pearson International Airport á leið til Íslands. Ég ákvað að taka saman á einn stað helstu upplýsingar um reynslu mína af landvistarreglum í BNA. Annars vegar fyrir sjálfan mig og hins vegar ef fjölskylda/vinir hefur áhuga á að setja sig inn í málið.

Þegar ég var nemi við Trinity Lutheran Seminary var ég með vegabréfsáritun sem heitir F-1. Slík áritun er gefin til erlendra nemenda við bandaríska skóla og byggir á tiltölulega einföldu ferli. Eftir að skólinn samþykkir nemanda, þá sendir skólinn nemandanum eyðublað sem heitir I-20, nemandinn tekur I-20 pappírana ásamt ýmsum öðrum gögnum í sendiráð BNA í heimalandi sínu og fær límmiða í vegabréfið.

Að námi loknu getur nemandi síðan fyllt út einfalt form, sent til stjórnvalda í BNA og fengið atvinnuleyfi til eins árs sem kallast OPT, en ég gerði það. Ég reyndar þurfti að fylla út formið 2-3 sinnum og endursenda það (enda flókið að fylla út rétt).

Það er ýmislegt merkilegt við OPT ferlið. Eitt sem er vert að nefna er að eftir að umsækjandi hefur sent in umsókn fyrir OPT og þar til hann/hún hefur fundið starf, er ekki gert ráð fyrir að viðkomandi ferðist frá Bandaríkjunum. Það að yfirgefa BNA áður en OPT-hafi hefur fengið starf getur verið túlkað af bandarískum stjórnvöldum sem ákvörðun um að draga umsókn um OPT til baka. Þetta merkti fyrir mig að ég gat ekki heimsótt Ísland frá því í lok febrúar og þangað til í dag, án þess að eiga á hættu að atvinnuleyfið mitt yrði afturkallað. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að krakkarnir komu ekki til Íslands í sumar, ég gat ekki farið með þau án þess að eiga á hættu að missa landvistar- og atvinnuleyfi. Ekki að það skipti máli núna, fyrst þetta fór svona svo sem.

26. júlí s.l. fékk ég síðan atvinnuleyfisskírteini með mynd af mér. Á skírteininu kemur skýrt fram að ég hef atvinnuleyfi í BNA frá 20. júlí 2010 og til 19. júlí 2011. Hins vegar var reglugerðum breytt í BNA 8. apríl 2008, á þann veg að ef handhafi OPT atvinnuleyfis er atvinnulaus í 90 daga, er atvinnuleyfið ógilt. Hér er rétt að nefna að ég gat ekki tekið hvaða starf sem er OPT atvinnuleyfið er mjög skilyrt og í mínu tilfelli þurfti ég að finna starf sem að

hjálpaði nemandanum að öðlast frekari reynslu á sviði safnaðarstarfs, starfi trúarhreyfinga og hlutverki leiðtoga í kirkjulegu samhengi, jafnframt því að tengja saman trúarlegar hefðir og guðfræðilega menntun. (þýtt af I-20 eyðublaðinu mínu)

Vinnan þurfti einnig að styðjast við menntun mína á meistarastigi. Ég sótti um níu störf á Columbus svæðinu, sem ég taldi að hentuðu mér vel, ég gæti lagt eitthvað gagnlegt fram og uppfylltu þessar kröfur. Ég gæti velt upp spurningum hvers vegna einstaklingar með minni menntun og styttri reynslu voru ítrekað ráðnir fram yfir mig, ég gæti talað um kirkjupólítík á bak við sumar ráðningarnar og kvartað undan virðingarleysi og óheiðarleika sem ég fann fyrir á sumum þeim stöðum þar sem ég sótti um (en alls ekki öllum, sumir unnu mjög faglega) en í raun skiptir það ekki mál. Staðreyndin er sú að ég fann ekki vinnustað sem hafði áhuga á að nýta sér hæfileika mína.

Svo þetta er staðan. Í dag er F-1 vegabréfsáritunin mín og atvinnuleyfið mitt fallið úr gildi. Ég vona að þetta sé þó ekki í síðasta skiptið sem ég verð í BNA. Konan mín klárar námið sitt við Ohio State University næsta vor og krakkarnir voru að hefja nýtt skólaár hér í Ohio. Ég fer á fund núna á fimmtudaginn í bandaríska sendiráðinu á Íslandi til að óska eftir vegabréfsáritun sem maki, svokallað F-2. Slík áritun gefur mér heimild til að dvelja með fjölskyldunni í BNA og ferðast um svo lengi sem konan mín er í námi. Hins vegar

er handhöfum F-2 áritunar ekki heimilt að starfa í BNA undir neinum kringumstæðum. Reglugerðir um áritanir kveða skýrt á um að handhafar F-2 áritunar, hafa ekki heimild til að stunda háskólanám eða taka námskeið sem gætu nýst til formlegrar prófgráðu. Handhafar F-2 áritunar geta þó tekið þátt í frístundastarfi og börn með F-2 áritun mega vera í grunnskólanámi. (þýtt af http://oie.osu.edu/international-students/f-2-and-j-2-dependents.html)

Þetta merkir að ég mætti spila knattspyrnu í BNA mér til ánægju sem handhafi F-2, en það er um það bil allt sem ég má. Það að spila sem vinstri miðherji í frístundastarfi er ekki mjög fjárhagslega gjöfult (og ef það væri það mætti ég það ekki), sem þýðir að þó það væri gaman að geta verið áfram í BNA, þá neyðist ég til að leita eftir vinnu á Íslandi.

Og þannig er það. Ég vona að þetta útskýri stöðuna í augnablikinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.