Skuldir íslensku bankanna í samhengi

Íslensku bankarnir þrír, Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn, skulduðu 86 milljarða Bandaríkjadala, 10.085 milljarða króna, er þeir fóru í þrot.

Sagði í frétt Morgunblaðsins 15. september síðastliðin. Svona tölur eru að sjálfsögðu vitagagnslausar og segja fátt, ef ekki er hægt að finna þeim samhengi. En það er þó ljóst að tölurnar eru gífurlega háar.

Þegar ég hlustaði á prédikun Joe Brosious í morgun, þar sem hann minntist í framhjáhlaupi á kostnað við að útrýma sárasta hungrinu í heiminum, þá flaug mér í hug hvort að upphæðin sem bankarnir glutruðu niður hefði eitthvað að segja í því samhengi. Ég er meðvitaður um að einhverjar eignir eru á móti þessum skuldum. Hins vegar hafa ákveðnir hópar húsnæðis- og bifreiðaeigenda á Íslandi verið duglegir að krefjast þess að þær eignir verði afskrifaðar úr bókum bankanna.

Ég leitaði uppi áætlun matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna og þar er gert ráð fyrir að 30 milljarða Bandaríkjadala þurfi á ári til að byggja upp matvælaframleiðslu og dreifingu til þeirra 862 milljóna manna, kvenna og barna sem stöðuglega búa við sára svengd. Með öðrum orðum skuldir bankanna hefðu getað hjálpað 862 milljónum einstaklingum sem búa við erfiðustu aðstæðurnar á jörðinni til að hafa mat í þrjú ár.

Auðvitað er hjálparstarf flóknara en svo að peningar leysi allan vanda og sjálfsagt hefðu ekki 862 milljónir einstaklinga losnað undan hungurvofunni, en tilhugsunin um bruðlið og ruglið á Íslandi í þessu samhengi er einstaklega sársaukafull.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.