Disney uppgötvar “Tween-Agers”

Það er óhætt að segja að innkoma Disney inn á Tweenagers markaðinn hér í Bandaríkjunum sé með gróðavænlegustu ákvörðunum fyrirtækisins undanfarin ár. High School Musical II var þannig stærsta frumsýning kapalstöðvar frá upphafi í ágúst síðastliðinn og Hannah Montana æðið er ekki síðra.

Markhópurinn 9-12 ára stúlkur er því orðinn alvöru afl í hagkerfi Bandaríkjanna. Vissulega höfum við séð tilraunir til að virkja þennan hóp í hagkerfinu áður, en Disney hefur fullkomnað verknaðinn. 

Einfaldur

Eitt af því sem er hvað erfiðast við að stíga út fyrir mörk öryggisins, er að horfast í augu við eigin barnaskap og einfaldleika. Í janúar dvaldi ég í Detroit og var neyddur til að horfast í augu við forréttindi mín og rasisma á algjörlega nýjan hátt. Ég gæti skrifað lærða kafla um ungbarnadauða í fátækrahverfum í BNA, misbeytingu valds af hendi lögreglunnar, spillta stjórnmálamenn, kynþáttamisrétti, sálarmorð á samkynhneigðum og margt fleira sem ég sá með eigin augum þar sem ég heimsótti heilsugæslu, barnaspítala, geðdeildir, skrifstofu borgarstjóra og tók í hendina á einhverjum spilltasta stjórnmálamanni BNA, heimsótti félagsmálaþjónustu, gistiheimili fyrir heimilislausa og ræddi við kirkjugesti og presta í jafnt svörtum og hvítum kirkjum í þessu ríkasta landi heims. Ég var enda reiður fyrstu fjóra dagana, ég kallaði samnemendur mína fífl, fyrir að taka þátt í svona samfélagi og bregðast ekki við. Ég benti þeim á að ungbarnadauði í Detroit væri sjö sinnum meiri en í mínu heimalandi, ég hneykslaðist á misskiptingunni í skólakerfinu sem við heyrðum um frá skólastjórum almenningsskóla í borginni og svo mætti lengi telja.

Það var ekki fyrr en á fjórða degi að ég þorði að horfast í augu við sjálfan mig og mínar aðstæður í besta landi í heimi. Ég hugsaði til þess að auður sumra Íslendinga er byggður á atvinnulausum símamönnum í Austur-Evrópu, mér varð hugsað til þess hvernig stjórnmálamenn á Íslandi eins og Gunnlaugur M. Sigmundsson hafa selt sjálfum sér ríkiseignir. Mér varð hugsað til þess hvernig stjórnmálamenn á Íslandi sem aðhyllast jöfnuð hafa uppi stórar hugmyndir um að innleysa milljarðahagnað í orkuveitum í fátækustu löndum heims. Vissulega er Detroit Íslendinga ekki staðsett í Norður-Atlantshafi, okkar Detroit er í Búlgaríu. Continue reading Einfaldur

Vangaveltur um kirkjuna, stjórnmál og Framsóknarflokkinn

[google 4594676550791662051]

Ég skrifaði og flutti hugleiðingu fyrir lokakvöld starfsfólks í Vatnaskógi. Það er smátruflun á myndinni í upphafi. Hugleiðingin var reyndar ekki notuð, þar sem hún var of löng, en hún hefur erindi til okkar í dag. Hugleiðingin sem var notast við á lokakvöldinu er hér.

Fyrir samviskusama lesendur Annáls Ella, er rétt að benda á að nokkur stef úr Nýársprédikun í Grensáskirkju sem var birt hér á annálnum voru fengin úr þessari hugleiðingu.

Hinir útvöldu

Ég átti áhugavert samtal milli jóla og nýárs á Íslandi við ungan guðfræðing með BA-gráðu frá Guðfræðideild HÍ sem lýsti fyrir mér hvernig það hefði verið að stunda nám í deildinni. Viðkomandi þekkti engin deili á mér, að ég held, og útskýrði hvernig innan háskóladeildarinnar hefðu verið tvenns konar fólk. Annars vegar ungir strákar sem komu úr kirkjuumhverfinu og/eða KFUM&KFUK, með endalausa reynslu úr starfi kirkjunnar. Strákar sem segðu skemmtisögur af prestunum, vinum sínum, héldu úti korti með upplýsingum um laus prestaköll og hlunnindi og væru uppfullir af sjálfsöryggi og vissu um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Þær væru enda sumir með vinnu í kirkjunni með námi og hefðu sterkt tengslanet inn í kirkjustofnunina. Síðan væru það hinir. Continue reading Hinir útvöldu

Veffríi lýkur

Nú hef ég lokið vef-sabbatical-inu mínu. Það varð ekki eins agað og ég hafði ætlað enda margt sem gerðist á þessum tíma í vefheimum. Hér fyrir neðan er yfirlit yfir hvernig ég tókst á við einstaka þætti.

  • Ég mun nota netið við leitir í upplýsingagagnagrunnum í tengslum við rannsóknir á vegum Healthy Congregations. Ég mun einungis notast við tölvur Trinity Lutheran Seminary í þessu skini, en mun ekki leita frá tölvum heima hjá mér.
  • Ég mun nota netið við að sækja efni sem kennarar í námskeiðum sem ég er að taka óska eftir að ég nálgist eða benda á. Til að nálgast slíkt efni mun ég að öðru jöfnu notast við tölvur skólans.

Ég stóð við þessi markmið að öllu leiti, notaðist við tölvur skólans og bókasafna.

  • Ég mun notast við vefi fjármálastofnanna bæði hér í BNA og á Íslandi ef þörf krefur.
  • Ég mun notast við Blackboard síður Capital og Trinity Lutheran Seminary eins og þarf til að uppfylla kröfur námsins. Það á eins við um síðu kennsluskrár Trinity.
  • Ef dóttir mín óskar þess mun ég aðstoða hana í WebKinz eða öðrum veftengdum búnaði sem hún notar.
  • Ef konan óskar mun ég setja inn fjölskyldumyndir inn á hrafnar.net.

Það reyndi takmarkað á þetta.

  • Ég mun ef kennarinn í námskeiðinu “Urban Ministry in Detroit” óskar eftir því, taka þátt í að skrifa námstengt blogg á tímabilinu 12.-22. janúar 2008. Að öðru leiti mun ég ekki skrifa færslur, svara ummælum eða skrifa ummæli á vefsíðum á þessum tíma.

Við notuðum ekki bloggsvæði í námskeiðinu og ég skrifaði ekki neinar færslur eða ummæli á tímabilinu ef frá er talið færsla í gærdag með vísun í Jim Wallis og birting prédikunar úr Grensáskirkju.

  • Ég mun nota vefinn til að fá upplýsingar um sýningartíma kvikmynda og ef þarf upplýsingar um sjónvarpsdagskrá.

Hér gleymdi ég að setja inn veðurvefi sem ég nota töluvert. En annars reyndi lítið á þetta.

  • Ég mun nota gCal til að samræma dagatal fjölskyldumeðlima, þó hyggst ég takmarka þá notkun og notast ef kostur er við útprentun.

Ég notaðist einnig við dagatal í símanum mínum sem ég “sync-aði” við gCal.

  • Ég mun nota vefinn til að kaupa jólagjafir á Amazon.com ef nauðsyn krefur.

Ég gerði það nokkuð.

  • Ég mun nota Skype til að hafa samskipti við Ísland. Eðli málsins vegna verður þó að öllu jöfnu ekki kveikt á Skype nema þegar ég þarf að hafa samband. Þeir sem þurfa að ná á mig, geta samt sem áður hringt með hugbúnaðinum og símtalið færist þá sjálfvirkt í farsímann minn.

Ég gerði það.

  • Ég mun hins vegar ekki lesa fréttamiðla á vefnum, blogg-síður eða almenna vefi. Þetta felur í sér að ég mun ekki notast við Google-Reader-inn minn eða notast við video-vefi líkt og google video, youtube.com eða ESPN360.

Ég stóð við þetta fram í janúarbyrjun, að mestu leiti. Meðan ég var í Detroit fylgdist ég nokkuð með fréttum í gegnum símann minn. Eins hreinsaði ég nokkrum sinnum Google Reader-inn minn.

  • Ég mun ekki setja inn ný Application á FaceBook, ekki svara athugasemdum á veggjum, skrifa á síðuna eða bæta við efni á þessum tíma. Ég mun hins vegar samþykkja/synja vinabeiðnum sem ég fæ tilkynningar um í tölvupósti.

Stóð við þetta með einni undantekningu sem ég man ekki lengur hver var.

  • Ég mun að öllu jöfnu einungis athuga rafpósthólfið mitt tvisvar á dag, í kringum kl. 10 að Austurstrandartíma, kl. 15 á Íslandi og um kl. 15 hér í Ohio, eða kl. 20 á Íslandi. Ég mun ekki notast við gMail notification en sækja þess í stað allan póst með Mail þegar þess er kostur, sem ég hef stillt þannig að póstur er einungis sóttur þegar ég óska eftir því.

Þetta gekk ágætlega að standa við.

Það hefur alltaf verið svona!

Handrit prédikunar sem var flutt í guðsþjónustu í Grensáskirkju þann 1. janúar 2008.

Áður en ég kom til starfa í Grensáskirkju hafði ég starfað um margra ára skeið í sumarbúðunum í Vatnaskógi og geri svo sem enn viku og viku á hverju sumri. Eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja sem starfsmaður í Vatnaskógi var sjálfvirkt svar við hugmyndum um breytingar: En þetta hefur alltaf verið svona! Continue reading Það hefur alltaf verið svona!

Vef-sabbatical

Að gefnu tilefni hef ég tekið þá ákvörðun að taka vef-sabbatical. Vefnotkun er mjög mikilvægur þáttur í lífi mínu og síðustu mánuði og ár hefur upplýsingaöflun og greinalestur tekið sífellt meiri tíma, að ógleymdu fremur tilviljanakenndu vafri sem oft skilar áhugaverðum og á stundum gagnlegum skilningi á mannlegu lífi. Hins vegar er líka hollt að skipta reglulega um gír og endurskoða lífsmynstur sitt. Af þeim sökum hef ég ákveðið að taka mér vef-sabbatical fram til 24. janúar 2008 eða í 55 daga. Þar sem tölvu- og netnotkun er nauðsynleg vegna námsins míns get ég ekki einfaldlega slökkt á tölvunni minni á þessum tíma. Þar af leiðandi hef ég sett mér ákveðnar reglur sem ég mun leitast við að fylgja á þessum tíma.

  • Ég mun nota netið við leitir í upplýsingagagnagrunnum í tengslum við rannsóknir á vegum Healthy Congregations. Ég mun einungis notast við tölvur Trinity Lutheran Seminary í þessu skini, en mun ekki leita frá tölvum heima hjá mér.
  • Ég mun nota netið við að sækja efni sem kennarar í námskeiðum sem ég er að taka óska eftir að ég nálgist eða benda á. Til að nálgast slíkt efni mun ég að öðru jöfnu notast við tölvur skólans.
  • Ég mun notast við vefi fjármálastofnanna bæði hér í BNA og á Íslandi ef þörf krefur.
  • Ég mun notast við Blackboard síður Capital og Trinity Lutheran Seminary eins og þarf til að uppfylla kröfur námsins. Það á eins við um síðu kennsluskrár Trinity.
  • Ef dóttir mín óskar þess mun ég aðstoða hana í WebKinz eða öðrum veftengdum búnaði sem hún notar.
  • Ef konan óskar mun ég setja inn fjölskyldumyndir inn á hrafnar.net.
  • Ég mun ef kennarinn í námskeiðinu “Urban Ministry in Detroit” óskar eftir því, taka þátt í að skrifa námstengt blogg á tímabilinu 12.-22. janúar 2008. Að öðru leiti mun ég ekki skrifa færslur, svara ummælum eða skrifa ummæli á vefsíðum á þessum tíma.
  • Ég mun nota vefinn til að fá upplýsingar um sýningartíma kvikmynda og ef þarf upplýsingar um sjónvarpsdagskrá.
  • Ég mun nota gCal til að samræma dagatal fjölskyldumeðlima, þó hyggst ég takmarka þá notkun og notast ef kostur er við útprentun.
  • Ég mun nota vefinn til að kaupa jólagjafir á Amazon.com ef nauðsyn krefur.
  • Ég mun nota Skype til að hafa samskipti við Ísland. Eðli málsins vegna verður þó að öllu jöfnu ekki kveikt á Skype nema þegar ég þarf að hafa samband. Þeir sem þurfa að ná á mig, geta samt sem áður hringt með hugbúnaðinum og símtalið færist þá sjálfvirkt í farsímann minn.
  • Ég mun hins vegar ekki lesa fréttamiðla á vefnum, blogg-síður eða almenna vefi. Þetta felur í sér að ég mun ekki notast við Google-Reader-inn minn eða notast við video-vefi líkt og google video, youtube.com eða ESPN360.
  • Ég mun ekki setja inn ný Application á FaceBook, ekki svara athugasemdum á veggjum, skrifa á síðuna eða bæta við efni á þessum tíma. Ég mun hins vegar samþykkja/synja vinabeiðnum sem ég fæ tilkynningar um í tölvupósti.
  • Ég mun að öllu jöfnu einungis athuga rafpósthólfið mitt tvisvar á dag, í kringum kl. 10 að Austurstrandartíma, kl. 15 á Íslandi og um kl. 15 hér í Ohio, eða kl. 20 á Íslandi. Ég mun ekki notast við gMail notification en sækja þess í stað allan póst með Mail þegar þess er kostur, sem ég hef stillt þannig að póstur er einungis sóttur þegar ég óska eftir því.
  • Sabbatical-ið hefst á hádegi 30. nóvember 2007 (kl. 17 að íslenskum tíma) og lýkur á hádegi 24. janúar 2008.

Ég mun prenta út þessa færslu og skrá inn á það athugasemdir, vangaveltur og vandamál sem upp kunna að koma. Að kvöldi 24. janúar mun ég skrá færslu þar sem ég met verkefnið.

Skýrsla um trúarlega aðkomu í grunnskólum og leikskólum

Vantrú.is bendir á nýútkomna skýrslu um trúarlega aðkomu í grunn- og leikskólum. Um leið og niðurstöður skýrslunnar eru að mörgu leiti áhugaverðar hlýtur kirkjan að taka til alvarlegrar skoðunar þá mikilvægu niðurstöðu fyrir leikskólann að

Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.

Ég hef reyndar haldið á lofti þeirri skoðun að ekki sé nauðsynlegt að öll börn geti tekið þátt í öllu starfi, fjölbreytni og viðurkenning á henni sé ekki nauðsynlega slæm, en niðurstaða skýrslunnar er önnur.

Það er mikilvægt að kirkjan gangist við niðurstöðu nefndarinnar og bregðist við á þann hátt að greina skýrt á milli starfs á vettvangi frítímans annars vegar og verkefnum á skólatíma hins vegar. Eins þarf kirkjan að endurskoða alla upplýsingagjöf um starf sitt og finna leiðir til að bjóða upp á öflugt starf á vettvangi frítímans til að mæta nýjum aðstæðum.

Hér er um enn eitt skrefið til aðskilnaðar ríkis og kirkju, og mikilvægt að kirkjan líti á þetta sem tækifæri til endurskoðunar á áherslum en ekki sem árás á farsælt samstarf.

Vinaleiðarummæli

Það virðist tilhneiging sumra hér á vefnum að stela umræðum, þegar það gerist á eigin vefjum kalla þeir það troll. En ég veit ekki hvað það kallast hér, líklega pirrandi.

En ég hef ákveðið að færa umræðu um Vinaleið og síðkölt af færslu um bréf Menntamálaráðuneytisins um bann við fermingarferðalögum hingað: Continue reading Vinaleiðarummæli

Fermingarferðalög

Sú niðurstaða Menntamálaráðuneytisins að ekki sé heimilt að veita börnum leyfi frá skóla til að taka þátt í fermingarfræðslu er áhugaverð, en augljóslega röng.

Það er auðvelt og sjálfsagt að samþykkja þá niðurstöðu ráðuneytisins að skólum sé óheimilt að koma að undirbúningi fermingarferðalaga og full ástæða til að ítreka það.

En það er einfaldlega EKKERT sem bannar foreldrum að fá frí í tvo daga í skólanum fyrir börnin sín til að sinna sérstökum verkefnum. Það er réttur foreldra skv. þessari námskrá sem vísað er til í bréfi ráðuneytisins til skólastjórnenda.

Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum og forráðamönnum. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Þetta sameiginlega verkefni heimila og skóla kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.

Ég skal ekki draga í efa að eitthvað hafi misfarist á tíðum í skrifræðinu þannig að gagnvart einhverjum hafi litið svo út að ferðirnar væru í tengslum við skóla, en það er auðvelt að laga. Þannig mætti bregðast við þessu með stöðluðu bréfi sem foreldrar skila inn í skólann og óska eftir fríi fyrir barn sitt. Þetta kallar á meiri vinnu fyrir sóknarpresta og foreldra en er í sjálfu sér eðlileg þróun. Frumábyrgð í uppeldi er hjá foreldrum og þeim er heimilt að fá frí fyrir barnið sitt úr skóla til að sinna öðrum verkefnum – það gerist t.d. í tengslum við íþróttaferðir og ýmsa aðra viðburði.

Þegar svo skólarnir sjá að 95%-100% nemenda óska eftir fríi einhverja tvo ákveðna daga, þá er það skólans að ákveða hvort þeir kenna nemendunum tveimur sem fara ekki eða gefa þeim frí. Þannig er skólinn fríaður ábyrgð á ákvarðanatöku í málinu og það eina sem breytist er að fermingarferðin er ekki sett inn á dagatal skólans og mun því koma foreldrum barnanna tveggja sem ekki eru í fræðslunni á óvart.

Viðbrögð kirkjunnar ættu því að vera þau að nýta tækifærið, auka tengsl við foreldra og útbúa eyðublað sem foreldrar geta fyllt út og óskað eftir fríi í skólanum fyrir börnin sín þá daga sem fermingarfræðslan stendur. Í námskrá er tekið sérstaklega fram að:

Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir.

Ég sé því ekki að skólanum sé unnt að bregðast neikvætt við beiðni foreldra um að barnið fái frí til að taka þátt í trúarlegu starfi eins og fermingarfræðslu um takmarkaðan tíma.

Það er mikilvægt í þessari umræðu að halda á lofti gagnkvæmum skyldum allra í málinu. Foreldrar hljóta að eiga rétt á virðingu í garð trúaruppeldis barna sinna, þó þau tilheyri meirihlutahópi.

Sú fullyrðing í bréfinu frá Menntamálaráðuneytinu um að skólum sé “ekki heimilt að veita nemendum í 8. bekk leyfi til að fara í 1-2 daga ferð á vegum kirkjunnar í tengslum við fermingarundirbúning” er þannig augljóst brot á foreldrarétti og í mótsögn við þá áherslu á virðingu fyrir trúar- og lífsskoðunum sem boðuð er í aðalnámskrá grunnskóla. Eins er niðurstaða ráðuneytisins ekki í samræmi við rétt barna til trúaruppeldis sem er tryggður í mannréttindasáttmála Evrópu.

Rétt er að taka fram að ég er vígður til starfa í þjóðkirkjunni og hef um áratugaskeið starfað á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi.

Sjálfstýrð teymi

Einn af fjölmörgum bloggurum sem ég les reglulega hefur sérstakan flokk sem kallast dylgjublogg. Þetta gæti flokkast undir það.

Eitt af fjölmörgum verkefnum hér í Organisational Behavior í síðustu viku var að fjalla um “self-managed teams” (e. sjálfstýrð teymi). En slík eru talin allra meina bót. Í verkefninu átti ég að fjalla um reynslu mína af slíkum teymum og bera saman við kenningarnar. Nú má segja að sjálfstýrð teymi einkenni uppbyggingu félagasamtaka eins og KFUM og KFUK. Því leitaði ég í reynslu mína sem æskulýðsfulltrúi þar. Minnistæðasta teymið frá þeim tíma, með fullri virðingu fyrir deildarstarfsteymum, er án vafa undirbúningshópur landsmóts unglingadeilda líklega 2002, en ég bar ábyrgð á þeirri ákvörðun að skipa í nefndina hóp efnilegra leiðtoga og gaf þeim lausan tauminn í skipulagsvinnu, í samræmi við þær kenningar sem þykja bestar þegar kemur að sjálfstýrðum teymum. Alla vega er það svo í minningunni. Ég reyndar vissi ekkert um slík teymi og kenningar á því sviði á þessum tíma, svo ég var ekki nægilega meðvitaður um hætturnar sem gætu skapast.

Ég vona að kennarinn minn hafi hins vegar ánægju og gleði af að lesa um það þegar ung og ábyrg stúlka kom að máli við mig á miðju landsmóti til að segja mér hvað væri framundan þá um kvöldið. Annars verð ég að segja að ég gat hlegið þegar ég skrifaði frásögnina og bar atburðarásina saman við kenningarnar nú meira en 5 árum síðar, en boy child, o, boy child, mér var ekki hlátur í huga þá.

Skírn

Í tíma í Pastor as Leader var ekki bara rætt um kosti og galla Facebook sem hjálpartækis í safnaðarstarfi, heldur var nokkuð rætt um skírnina og guðfræðileg álitamál sem upp kunna að koma. Á Íslandi hefði þessi umræða verið óþörf enda öllum spurningum svarað með lögum frá 27. júlí 1771.

… höfum Vér allramildilegast ákveðið … að foreldrarnir skuli vera sjálfráðir um það, eftir því sem heilsa barnsins og ástæður útheimta, bæði hvort þau láta skíra það heima, en prestur má eigi synja um það, ef hann er þess beðinn, og hvort þau síðan bera það í kirkju, ef það verður gert án þess að lífi barnsins eða heilbrigði sé stofnað í hættu; foreldrunum skal þó eigi vera skylt að gera það innan nokkurs tiltekins tíma …

Ég veit að einhverjum þykir prýði að konungstilskipunum um skírn og fermingu í lagasafninu, e.t.v. voru hæstaréttardómararnir að vísa til þeirra í dómi sínum gegn Ásatrúarfélaginu, en lög sem eru markleysa, enginn fer eftir og eiga ekki við í dag eru engum til gagns.

Að opna

Það er áhugavert að glíma við námið hér í BNA í samanburði við akademíuna í HÍ. Vissulega var ég yngri, en námsaðferðirnar eru að mörgu leiti gjörólíkar. Að einhverju leiti má skýra það með því að í HÍ var ég í grunnnámi en er í framhaldsnámi hér, en þó útskýrir það ekki allt. Lausnarorðið hér felst í Case-Studies. Ég er í sífellu að skrifa reynslusögur úr mínu lífi og tengja þær við kenningarnar sem ég les. Hvort sem það snýst um hvar einhver leggur bílnum sínum, hvernig er best að takast á við uppgjör reikninga eða hvaða stjórnunaraðferð er best að beita í fyrirtæki þegar skipt er um símanúmer, svo fáin dæmi liðina vikna séu tekin.

Þessi aðferð kallar líka á spennandi sjálfskoðun sem vonandi leiðir til þess að ég verði betri/heilbrigðari manneskja. Þessi leið reynslusagna hafnar því um leið að einhver ein rétt þekking sé til. Aðferðir/hugmyndir/kenningar eru einungis leiðir til að takast á við þann veruleika sem við erum stödd í hverju sinni.

Ekki alltaf “inn”

Fyrir nokkrum dögum ákvað ég að kíkja á Facebook, enda skylst mér að það sé búið að vera málið um nokkra hríð. Og það virðist vera rétt, kerfið er einfaldlega snilld í alla staði og virðist virka, annað en MySpace-conceptið, sem allir tóku þátt í en mér mistókst algjörlega að skilja, þrátt fyrir nokkrar tilraunir.

Facebook býður upp á endalausa möguleika til tenginga, upplýsingamiðlunar og skilaboðadreifingar sem á væntanlega eftir að þróast enn frekar. Einfaldlega snilld! En þar sem ég er búin að uppgötva og skilja dæmið, er ljóst að ekki er lengur um trend að ræða, enda er ágætt að miða við það að þegar ég er orðin hluti af einhverju, er það ekki lengur “inn”.

Ég hafði rangt fyrir mér

Ég verð að viðurkenna að dómsorð í Hæstaréttardómi 109/2007 vekja hjá mér takmarkaða gleði. Ég hef ekki lesið rökstuðning dómaranna, en renndi hratt yfir sératkvæði Hjördísar Hákonardóttur. Þessi dómur kemur til með í framtíðinni að verða eitt af grundvallarskjölum í umræðunni um aðskilnað ríkis og kirkju og því mikilvægt að hafa vísun í hann hér.

Fyrir þau/þá sem hafa viljað nota hugtakið ríkiskirkja um stöðu Þjóðkirkjunnar á Íslandi þrátt fyrir mótmæli mín. Dómur Hæstarétts er fallinn, ég hafði rangt fyrir mér. Eftir allt erum við ríkiskirkja og spurning hvort að ég noti ekki tækifærið og geri kröfu á kirkjuna um leiðrétt lífeyrisréttindi.