Afsakaðu Óskar

Einhverju sinni sagði góður maður í ummælum að ég væri fremur hrifnæmur og það má til sanns vegar færa. Ég tel það ekki eftir mér að skipta um skoðun og hrífast með, jafnvel skrifa um þær skoðanir hér á annál.

Eitt af því sem ég hef tjáð mig lítillega um eru málefni samkynhneigðra í kirkjulegu samhengi. Þannig taldi ég eftir síðasta Kirkjuþing að málið væri í raun í höfn og í samtölum við fólk kvartaði ég undan viðbrögðum Óskars og sagði við fleiri en einn og fleiri en tvo að vandamálið fælist í mistökum við að kynna niðurstöðu þingsins, fremur en í því misrétti sem í því fólst. Þannig taldi ég Óskar og viðbrögð hans grafa undan kirkjunni, ögra hugmyndinni um að öll séum við eitt.

Í þessu máli líkt og mörgum öðrum hafði ég rangt fyrir mér. Kirkjustofnun sem fer sér hægt til að móðga ekki lykilstarfsfólk og skeytir inn í frumvarp um samkynhneigð orðunum “og stendur við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu” til að tryggja sig gagnvart íhaldsfólkinu, leitast við að halda stöðu sinni, er ekki upptekinn af því að uppfylla hlutverk sitt á jörðinni.

Kirkja sem telur það hlutverk sitt að viðhalda sjálfri sér, glatar sjálfri sér.

Jesús var freistað á margvíslegan hátt, hann þurfti ítrekað að glíma við spurninguna hvort einstaklingurinn/manneskjan væri trúarstofnun hans tíma æðri. Er það að viðhalda ríkjandi ástandi, standa við bókstafsskilninginn, mikilvægara en lækna á hvíldardegi?

Öll þekkjum við söguna sem er skeytt inn í Jóhannesarguðspjall í lok 7. kafla. Eigum við að fylgja lögmálinu, eigum við að heiðra trúarstofnunina og hefðina eða hvað?

Ég held að öll séum við sammála um að það hefði verið harðneskjulegt af Jesús að taka upp stein og grýta manneskjuna sem stóð frammi fyrir honum, fá okkar aðhyllast þess konar lögmálstúlkun. Og vissulega voru það ekki þau viðbrögð sem við sáum á Kirkjuþingi nú síðast. Þess í stað má segja ef við höldum líkingunni áfram að í stað þess að staldra við og skrifa í sandinn, hafi Kirkjuþing með því að skeyta inn klásulunni um hjónabandsskilninginn, kastað sandi í andlit þeirra sem stóðu frammi fyrir dóminum.

Óskar hafði í gagnrýni sinni á niðurstöðu Kirkjuþings rétt fyrir sér, ég með hugmyndir um mikilvægi þess að hafa gott PR, hafði rangt fyrir mér. Réttlæti Guðs verður aldrei fullkomnað með góðum fjölmiðlafulltrúum.

Skrifað í kjölfar námskeiðs um “isma” sem fram fór í Detroit 10.-22. janúar 2008