Fermingarferðalög

Sú niðurstaða Menntamálaráðuneytisins að ekki sé heimilt að veita börnum leyfi frá skóla til að taka þátt í fermingarfræðslu er áhugaverð, en augljóslega röng.

Það er auðvelt og sjálfsagt að samþykkja þá niðurstöðu ráðuneytisins að skólum sé óheimilt að koma að undirbúningi fermingarferðalaga og full ástæða til að ítreka það.

En það er einfaldlega EKKERT sem bannar foreldrum að fá frí í tvo daga í skólanum fyrir börnin sín til að sinna sérstökum verkefnum. Það er réttur foreldra skv. þessari námskrá sem vísað er til í bréfi ráðuneytisins til skólastjórnenda.

Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum og forráðamönnum. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Þetta sameiginlega verkefni heimila og skóla kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.

Ég skal ekki draga í efa að eitthvað hafi misfarist á tíðum í skrifræðinu þannig að gagnvart einhverjum hafi litið svo út að ferðirnar væru í tengslum við skóla, en það er auðvelt að laga. Þannig mætti bregðast við þessu með stöðluðu bréfi sem foreldrar skila inn í skólann og óska eftir fríi fyrir barn sitt. Þetta kallar á meiri vinnu fyrir sóknarpresta og foreldra en er í sjálfu sér eðlileg þróun. Frumábyrgð í uppeldi er hjá foreldrum og þeim er heimilt að fá frí fyrir barnið sitt úr skóla til að sinna öðrum verkefnum – það gerist t.d. í tengslum við íþróttaferðir og ýmsa aðra viðburði.

Þegar svo skólarnir sjá að 95%-100% nemenda óska eftir fríi einhverja tvo ákveðna daga, þá er það skólans að ákveða hvort þeir kenna nemendunum tveimur sem fara ekki eða gefa þeim frí. Þannig er skólinn fríaður ábyrgð á ákvarðanatöku í málinu og það eina sem breytist er að fermingarferðin er ekki sett inn á dagatal skólans og mun því koma foreldrum barnanna tveggja sem ekki eru í fræðslunni á óvart.

Viðbrögð kirkjunnar ættu því að vera þau að nýta tækifærið, auka tengsl við foreldra og útbúa eyðublað sem foreldrar geta fyllt út og óskað eftir fríi í skólanum fyrir börnin sín þá daga sem fermingarfræðslan stendur. Í námskrá er tekið sérstaklega fram að:

Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir.

Ég sé því ekki að skólanum sé unnt að bregðast neikvætt við beiðni foreldra um að barnið fái frí til að taka þátt í trúarlegu starfi eins og fermingarfræðslu um takmarkaðan tíma.

Það er mikilvægt í þessari umræðu að halda á lofti gagnkvæmum skyldum allra í málinu. Foreldrar hljóta að eiga rétt á virðingu í garð trúaruppeldis barna sinna, þó þau tilheyri meirihlutahópi.

Sú fullyrðing í bréfinu frá Menntamálaráðuneytinu um að skólum sé “ekki heimilt að veita nemendum í 8. bekk leyfi til að fara í 1-2 daga ferð á vegum kirkjunnar í tengslum við fermingarundirbúning” er þannig augljóst brot á foreldrarétti og í mótsögn við þá áherslu á virðingu fyrir trúar- og lífsskoðunum sem boðuð er í aðalnámskrá grunnskóla. Eins er niðurstaða ráðuneytisins ekki í samræmi við rétt barna til trúaruppeldis sem er tryggður í mannréttindasáttmála Evrópu.

Rétt er að taka fram að ég er vígður til starfa í þjóðkirkjunni og hef um áratugaskeið starfað á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi.

28 thoughts on “Fermingarferðalög”

  1. Eruð þið núna farin að hafa einhverjar áhyggjur af foreldrarétti og virðingu fyrir trúar- og lífsskoðunum?

    Jæja, batnandi fer fólki best að lifa og allt það.

  2. Vil við þetta bæta.

    …og mun því koma foreldrum barnanna tveggja sem ekki eru í fræðslunni á óvart

    Þetta lýsir hroka þínum og Þjóðkirkjunnar. Já, hverjum er ekki sama um þessi tvö börn. Þau eru hvort sem er svo asnaleg og fáránleg. Þvælast fyrir ykkur Ríkiskirkjufólki.

    Djísus kræst.

  3. Ég er bara að benda á að ef upplýsingagjöf er “bönnuð” milli kirkju og skóla þá leiðir það til hörmunga.

    Ég hef aldrei og mun aldrei hafa neikvæð orð um þau börn sem ekki taka þátt í kirkjustarfi, enda eiga
    þau heiður skilið fyrir að þora að vera þau sjálf.

  4. …í bréfi ráðuneytisins til skólastjórnenda.

    Er hægt að nálgast þetta bréf á netinu?

  5. Ég hef ekki hugmynd hvort það er aðgengilegt á netinu. En það var frétt um bréfið á Vísi.is í dag og allir skólastjórnendur og aðrir hagsmunaaðilar að málinu ættu að hafa það undir höndum.

  6. Þetta bréf Menntamálaráðuneytis er á margan hátt ágæt áminning til þjóðkirkjupresta að vanda vel samskipti sín við grunnskóla landsins og nota réttar boðleiðir þegar óska á eftir leyfi fyrir fermingarbörn úr skóla. Slíkt leyfi eiga foreldrar að sækja fyrir sín börn en ekki kirkjan fyrir heildina. Þeir eru eflaust einhverjir sem vilja óska sér þess að hægt sé að afmá þátttöku ungmenna í starfi á vegum trúfélaga en slíkt verður að teljast frekar ólíklegt og það er rétt hjá þér Elli að höfuðábyrgðin á menntun barnanna hvílir á foreldrum og því ættu þeir að getað fengið leyfi fyrir börn sín vegna þátttöku þeirra í íþróttamótum, ferðum félagsmiðstöðva og/eða fræðsluferða á vegum trúfélags. Sé það ætlun Menntamálaráðherra að stöðva slík leyfi verður að taka fyrir öll slík, án tillits til þess af hvaða tilefni leyfið er fengið.
    Ég er á morgun að fara í fyrirlestur um stjórnkerfi grunnskóla og lagalegt umhverfi í mastersnámi mínu í stjórnun við HA og vitanlega ætla ég að taka þetta mál upp og fá álit þeirra fræðinga sem þar verða.

    Rétt er að taka fram að ég tilheyri þjóðkirkjunni, hef starfað við fermingarfræðslu en starfa sem grunnskólakennari á Akureyri.

  7. Vissulega hafa foreldrar rétt til að fá leyfi fyrir börnin sín úr skóla og fara því miður sumir heldur frjálslega með þann rétt. A.m.k. er þeim kennurum sem ég kannast við ekki alltaf skemmt þegar rétturinn er nýttur til að fara með börnin í skíðafrí til útlanda eða á sólarströnd. Vetrarfrí og haustfrí voru trúi ég sett á til að bregðast við þessu m.a.
    Það er auðvitað argasta frekja í kirkjunni að vilja ráðskast á þennan hátt með skólastarf í einstökum skólum og lýsir lítilli virðingu fyrir skólastarfi og námi barnanna. Einfaldast er auðvitað að kirkjan fari í sín ferðalög með fermingarbörn í vetrarfríum og haustfríum og á öðrum tímum sem ekki raska skólastarfi (jólafrí og páskafrí eru býsna drjúg) en það yrði náttúrulega óvinsælt, og ekki víst að eins margir kæmu í ferðalag þá daga sem eru frídagar hvort eð er.

  8. Sem trúleysingi get ég fallist á það sem þú segir að mestu leyti Halldór. Foreldrar ættu vissulega að geta fengið frí í einhverja 2 daga á skólatíma, hvort sem það er vegna trúariðkunar eða sláturgerðar hjá afa og ömmu á Vestfjörðum. Þegar slík frí fara að bitna á rétti barnsins til menntunar þá verðum við að standa upp og mótmæla (sá réttur barna gengur hiklaust framar ákvörðunarrétti foreldra varðandi þau) en að væla yfir 2ja daga fríi er óþarfa forsjárhyggja.

    Mig grunar hins vegar að Siðmennt sé að mótmæla beinum þætti grunnskólanna í umræddum ferðum fremur en mögulegum neikvæðum áhrifum þeirra á skólastarfið. Ég fellst heilshugar á það að Menntamálaráðuneytið ætti ekki að skipta sér af minniháttar fríum barna í skólum, en það er bókstaflega særandi gagnvart nemendum af öðrum trúarhópum ef skólinn ákveður að senda nú allan bekkinn þeirra til Skálholts að læra um hinn þríeina guð kristinna manna. Þó þeim væri ekki þröngvað með þá væri verið að senda þeim nemendum skýr skilaboð um að þessi skóli sé ekki skólinn þeirra.

    Grunnskóli verður að vera 100% guðlaus. Ekki vegna þess að guðstrú sé uppfundið fyrirbæri (þó ég sjái enga ástæðu til að halda annað) heldur þvert á móti vegna þess hversu margir eru sannfærðir um gildi slíkrar trúar en geta ekki fallist á hver þeirra er rétt.

  9. Ég hef aldrei og mun aldrei hafa neikvæð orð um þau börn sem ekki taka þátt í kirkjustarfi, enda eiga
    þau heiður skilið fyrir að þora að vera þau sjálf.

    Þú varst að enda við að hafa neikvæða orð um þessi börn og gerðir lítið úr þeim.

    Vandamálið blasir við.

    Það fermast alltof mörg börn. Langflest börn sem fermast gera það ekki vegna trúar.

    Lausnin er einföld. Kirkjan hættir að ferma börn sem ekki eru sannarlega trúuð. Fermingarferðir fara fram um helgar eða í öðrum fríum þannig að börn þurfi að leggja eitthvað á sig. Alveg eins og íþróttaferðir fara fram um helgar eða á sumrin.

    En þá er hætt við að kirkjan myndi missa spón úr aski sínum. Það er í raun það sem þetta mál snýst um.

  10. Nei, Matti, ég benti á að ef skólinn hefur ekki heimild til að taka tillit til kirkjustarfs, þá komast upplýsingar ekki til skila. Ég segi EKKERT neikvætt um unglinga sem taka ekki þátt í kirkjustarfi en bendi á að foreldrar þeirra fái ekki upplýsingar um hvað er að gerast. Matti, ekki gera mér upp skoðanir sem ég hef EKKI eða fullyrða að ég haldi einhverju fram sem ég geri EKKI.

    Hvað varðar seinni hlutann hjá þér Matti, þá er ég að einhverju leiti sammála um það að fjöldi barna í fermingarfræðslu kallar á margvísleg vandamál sem kirkjan þarf að takast á við. Ég held hins vegar að lausnin felist ekki í að stjórnvöld banni foreldrum að fá frí fyrir börnin sín í 1-2 daga úr skóla til að taka þátt í trúarlegu starfi.

    Ég hef bent unglingum í fermingarstarfi á borgaralega fermingu sem valkost ef þau hafa ekki sýnt áhuga á trúarlegum viðfangsefnum. Ég hef boðið unglingum sem segja að foreldrar þeirra heimti að þau fermist að ég geti talað við foreldrana til að fá foreldrana ofan af heimtufrekjunni. Ég legg mikla áherslu á að þetta sé í fyrsta skipti sem þau hafi raunverulegt val um að gera eitthvað, ég bendi iðulega á að ef þau séu ekki viss sé hægt að fermast síðar og bendi á dæmi um einstaklinga sem eru mér nákomnir og fermdust á fullorðinsaldri.

    Ég minnist samtals sem ég átti við móður drengs sem kvartaði gífurlega yfir því að prestarnir í bæjarfélaginu þar sem hún bjó hefðu ekki reynt að tala son sinn til, sem hætti við að fermast í kirkjunni og ákvað að fermast borgaralega. Hún byrjaði á að spyrja hvers vegna þeir hefðu ekki heimsótt þau og reynt að tala drenginn til. Ég benti henni á að þeir virtu rétt barnsins, en þá vildi hún að ég reyndi að tala drenginn til.

    Ég og því sem næst allir sem ég hef kennt fermingarfræðslu með síðustu 15 árin, leggja mjög mikla áherslu á að ferming er val, ekki allir benda á borgaralegu ferminguna sem valkost, en sumir. Ég hef á síðustu 15 árum kennt 5-7000 fermingarbörnum eina kennslustund eða fleiri og í flestum tilfellum hefur það verið nefnt að fermingarfræðslan sé valkvæð. Í einhverjum tilfellum hafa kennslustundirnar verið sértækar og ekki verið tækifæri á 40-50 mínútum að taka upp þá umræðu.

    Sem einn af fjölmörgum vígðum þjónum kirkjunnar sem hef starfað við fermingarfræðslu þá tek ég það ekki til mín að ég hræðist það að kirkjan missi spón úr aski sínum. Ég útiloka ekki að einhverjir prestar geri það, en það er mjög framandi hugsun í þeim hópi sem ég starfa með.

  11. “allir skólastjórnendur og aðrir hagsmunaaðilar að málinu ættu að hafa það undir höndum.”

    Veistu hverjir eru skilgreindir hagsmunaaðilar? Ég veit t.d. að prestum var ekki sent þetta bréf og ekki foreldrum. Eftir stendur skólinn og hagsmunaaðilar – hverjir eru þeir ef prestar og foreldrar eru ekki þar í hópi?

  12. Hagsmunaðilar eru yfirleitt þeir sem að málinu koma. Prestar koma þannig að málinu að þeir sjá um fermingarfræðslu og þar með einnig téðar ferðir. Foreldrar eðlilega einnig hlutverks síns vegna. Skólinn vþa börnin eru þar í námi og þurfa leyfi. Mín spurning er því hverjir eru hagsmunaðilar ef prestar og foreldrar teljast ekki til hópsins. Veist þú það kannski, Matti?

  13. Bréfið var frá Menntamálaráðuneyti til skólastjórnenda og fjallar um undirbúning fermingarferðalaga.

    Prestar eru ekki starfsmenn skólanna, fermingarstarfið á ekki að fara fram á skólatíma og á ekki að tengjast skólastarfi án nokkurn hátt.

    Ég get því ekki séð að prestarnir séu á nokkurn hátt “aðilar að málinu”.

  14. Matti, Menntamálaráðuneytið er að krefjast breytinga á vinnubrögðum sem prestar hafa verið aðilar að um áratuga skeið, en eiga hugsanlega ekki að vera það.

    Bréfið var sent til skólastjórnenda og hagsmunaaðila að málinu. Prestar og foreldrar hafa ekki fengið vitneskju um málið. Vissulega eru það hagsmunir presta að vita hvort og hvernig þeir mega skipuleggja fermingarstarfið sitt. Ef bannið gildir þurfa prestar að sjálfsögðu að fá að vita um breytingarnar.

  15. Ég ræddi þetta mál og innihald bréfsins við Trausta Þorsteinsson sem er yfirmaður skólaþróunarsviðs við Háskólann á Akureyri. Hans viðbrögð voru á þá leið að það gætti ákveðinnar einföldunar af hætti ráðuneytisins að gefa út bréf sem bannar skólum að veita frí vegna slíkra ferðalaga. Framsetningin er ekki líkleg til að bæta samskipti skóla og trúfélaga en líklega komið til vegna þess að þörf er á að þjóðkirkjan og þá prestar hennar átti sig á stöðu sinni gagnvart grunnskólum landsins. Þeir verða að taka tillit til þess að það er skólaskylda í landinu og þeir geta ekki leyft sér að setja fermingarfræðslu á fastan tíma í viku hverri án samráðs við skólann. Ég veit að í mínum skóla þarf að leyfa nemendum að fara 15 mínútum áður en skóladegi þeirra líkur svo þeir verði ekki of seinir í fermingarfræðslutíma upp í kirkju. Prestarnir þar höfðu akkurat enginn samskipti við skólastjórnendur þegar þeir ákváðu þessa tímasetningu og það er yfirgangur og frekja.

    En að mínu mati hefði það sýnt vilja ráðuneytis til að finna lausn ef þeir hefðu sett sig í samband við Biskupsstofu og óskað eftir því að málið yrði tekið upp meðal presta og þeir áminntir um að virða starf grunnskólans og benda þeim á að foreldrar fermingarbarna verði að sækja um leyfi vegna ferðalaga.

    Við skulum ekki berja höfðinu við steininn og afneita lífsskoðunum fólks (börn eru líka fólk). Trúarbrögð og lífssýn verður ekki slitin úr sambandi innan veggja skólans. Þar á hins vegar að gæta hlutleysis í afstöðu til trúarbragða og virða fjölbreytileikann en ekki afneita honum.

    Ef fulltrúar ólíkra hópa, t.d. kirkjunnar, Siðmenntar eða votta Jehóva geta ekki tekið undir þetta sjónarmið þá eru þeir í herferð gegn lífsskoðunum annarra. Slík herferð er stundum nefnd “trúboð” og getur farið fram hvort sem þú aðhyllist kristna trú eða trúleysi.

  16. Ég verð að viðurkenna að ég hefði að óreyndu talið að svona samskipti eins og þú lýsir Jói, heyrðu fremur til undantekninga í dag. Um leið verð ég að segja að hættan sem felst í bréfi ráðuneytisins er einmitt að dæmum eins og þú nefnir Jói, muni fjölga.

  17. “Prestarnir þar höfðu akkurat enginn samskipti við skólastjórnendur þegar þeir ákváðu þessa tímasetningu og það er yfirgangur og frekja,” fullyrðir Jóhann Þorsteinsson hér í færslu.

    Mörg undanfarin ár hefur fermingarfræðsla í Akureyrarkirkju farið þannig fram að fermingarbörnin mæta í kirkjuna þriðja hvern þriðjudag kl. 15 í fermingarfræðslu og eru í þrjá tíma.

    Þegar tíminn var ákveðinn var það gert í samráði við stjórnendur skólanna í sókninni. Ég veit ekki til þess að neinir árekstrar hafi orðið við starf skólanna fyrr en í vetur.

    Þegar það var ljóst var strax haft samband við viðkomandi skólastjóra og tíminn færður.

    Ef til vill ætti Jóhann Þorsteinsson að kynna sér málin betur áður en hann ásakar menn um yfirgang og frekju.

  18. Matti, bréfið er stílað til grunnskóla, skólanefnda, skólaskrifstofa og ýmissa hagsmunaaðila.
    Mín spurning er ennþá: Hverjir eru þessir hagsmunaðilar?
    Þú veist það greinilega ekki. Ekki ég heldur.

  19. Ég veit bara að prestar eru ekki hagsmunaaðilar (nema fjárhagslega, þeir græða á því að ferma). Meira þarf ég ekki að vita.

  20. Ég veit bara að prestar eru ekki hagsmunaaðilar (nema fjárhagslega, þeir græða á því að ferma). Meira þarf ég ekki að vita.

    Dálítið þreytt hvað þú heldur að þú komist upp með ódýr skot, Matti. Þú heldur, að fyrst prestar taki fræðslugjald af fjölskyldum fermingarbarna, þá sé það einu hagsmunirnir sem þeir geti haft? Já, og að innræta börnum hina skaðlegu lífsskoðun sem þú og Birgir og fleiri kallið “síðkölt” og öðrum niðrandi nöfnum.

    Hvernig væri þá að gera ökukennara að eiginhagsmunarpoturum fyrir það eitt að þeir taka gjald fyrir kennsluna? Eða má kannski ætla að gjaldtakan útiloki ekki umhyggju fyrir velferð nemandans, bæði hjá ökukennaranum og prestinum.

    [Seinni hluti færslunnar færður annað]

  21. Sæll Halldór Elías.
    Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessa umræðu en þarf samt að létta á hjarta mínu. Ég var nefnilega á skólaferðalagi í Vatnaskógi í haust með 8. bekk eins grunnskólans hér í Reykjavík. Þar vakti margt athygli mína, m.a. það að kristilegur áróður var óspart hafður í frammi á kvöldvökum sem starfsmenn KFUM í Vatnaskógi stóðu fyrir. Sungnir voru kristilegir her- og æskulýðssöngar eins og “Ég er ekki stórskotaliði, hergönguliði … ég er hermaður Krists” (já kristin hernaðarhyggja og allur hermórall var mjög áberandi hjá starfsmönnunum, einkum einum karlkyns slíkum). Þá var farið með borðbænir og kvöldbænir í matsalum.
    Eftir að skólaferðalaginu lauk varð hópurinn, sem á að fermast í skólahverfinu á vori komanda, eftir í Skóginum og fékk frí frá skólanum í heilan dag í viðbót vegna fermingarfræðslunnar.

    Meðan ég var þarna fékk ég að vita að Reykjavíkurborg hefði gefið Skógarmönnum 100 milljónir króna (held ég sé að fara með rétta upphæð) til að byggja nýtt gistirými í Skóginum. Hugmyndin með byggingu hússins væri að mæta hinu mikla álagi vegna fermingarnámskeiða safnaðanna í höfuðborginni sem fer í síauknu mæli fram í Vatnaskógi.

    Ef þessar nýju reglur frá Menntamálaráðuneytinu taka gildi, þ.e. að ekki sé heimilt að veita börnum leyfi frá skóla til að taka þátt í fermingarfræðslu, þá er hætt við að Skógarmenn missi af miklum tekjum vegna þess.
    Andstaða þín gegn þessum reglum verður því að skoðast í ljósi þess að þú hefur um “áratugaskeið” starfað á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi og ert þannig einn Skógarmanna.

    Það er auðvitað rétt að ekkert bannir einstaka foreldri að biðja um frí fyrir börnin sín í einn eða tvo daga. Hins vegar gildir allt annað um hóp foreldra, jafnvel foreldra heils bekkjarárgangs, að biðja um frí fyrir börn sín á sama tíma. Þá fellur kennlan niður og bitnar alfarið á skólanum og námi allra barnanna.

    Með þessum nýju reglum er skólastjórnendum ekki lengur heimilt að gera þetta – og er það vel. Kirkjan á auðvitað að nota frítíma barnanna í þetta starf, þ.e. helgarnar.
    Vandamálið verður þá hins vegar það að helgarnar eru svo fáar að á höfuðborgarsvæðinu verður varla hægt að koma slíku við. Jafnframt verður nýtingin á húsunum í Vatnaskógi mun verri og erfiðara að halda úti starfsfólki (sem aðeins ynni um helgar).
    Kirkjan getur reyndar vel leyst þetta mál með sumarnámskeiðum eða með því að vera með námskeið í vetrarfríunum eða starfsdögum kennara, á milli jóla og nýárs og í páskafríinu.

    Sumarið er hins vegar vandamál fyrir Vatnaskóg. Þá eru sumarnámskeiðin á fullu sem standa yfir lungann af sumrinu og yfirleitt vel sótt að því er mér skilst.
    Niðurstaðan er því sú að hvernig sem kirkjan leysir sín mál þá mun Vatnaskógur alltaf missa spón úr aski sínum.

    Þannig er þú, Halldór Elías sem gamall skógarmaður, hagsmunaaðili í málinu, kannski einmitt þessi hagsmunaaðili sem vísað er til í reglunum.

    Orð þín um nærgætni gagnvart trúarskoðunum annarra verður að túlkast í því ljósi. Enda er það svo að sú nærgætni sem þú ferð fram á, á að fara fram í skólanum sjálfum, í kennslustund og fleiru.
    Slíkt á auðvitað engan veginn um starfsemi sem fer fram utan veggja skólans, enda ber hann enga ábyrgð á slíku og á á engan hátt við um skyldu hans til að sýna ólíkum trúar- og lífsskoðunum virðingu. Hvað þá að ákvæði Mannréttindasáttmáli Evrópusamræmi við rétt barna til trúaruppeldis eigi hér við!

    Skólinn er því í fullum rétti til að hafna slíkri fríbeiðni enda gengur foreldraréttur ekki fyrir rétti skólans og kennsluskyldu hans.
    Skrif þín eru því kennslubókardæmi um það hvernig hagsmunagæsla getur jafnvel blindað sýn bestu manna!

  22. Ég þakka þér athugasemdina Torfi, og bendi þér á að ég tek skýrt fram í færslunni að ég hafi starfað um margra ára skeið á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi. Þannig reyni ég á engan hátt að fela þau tengsl. Ég þekki ekki til fjármögnunar nýrrar byggingar í Vatnaskógi eða forsendur styrkveitinga til hennar annað en ég get fullyrt að talan 100 milljónir frá Reykjavíkurborg er ekki rétt og minnsta kosti tvöfalt hærri en raunveruleikinn kveður á um án þess að nákvæmar upphæðir skipti í sjálfu sér nokkru máli. Þá óska ég eftir að einstökum starfsmönnum í Vatnaskógi sé haldið utan við þessa umræðu.

    Það hefur tíðkast um áratugaskeið að gefa foreldrum frí fyrir börn sín frá skólastarfi af ýmsum ástæðum. Eins og rekið er fyrr í færslu og umræðu þarf hið sama að ganga yfir allt og alla. Ef einvörðungu verða settar reglur um trúarlegt starf, en ekki íþróttastarf eða leiklistarverkefni, þá er það ekki í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla. Þú vilt túlka nærgætni við trúar- og lífskoðanir þröngt en ég held að það sé einfaldlega ekki hægt, nærgætni skólans getur ekki endað við skóladyr.

    Torfi, þú talar um rétt skólans og kennsluskyldu sem æðri foreldrarétti, ég verð að viðurkenna að í þeirri fullyrðingu þinni er munur á skoðunum okkar falinn, ekki síður en í mjög mismunandi skoðunum okkar á KFUM&KFUK.

  23. Ég hef ekkert á móti KFUM og K sem slíkum! Þetta eru samtök sem hafa nýst kirkju og kristni vel á Íslandi. En ég tel hæpið að samtökin samtökin séu með trúarlega boðum eða trúarlegt atferli þegar skólar eru í heimsókn. Ég tók það sem gerðist í skólaferðalaginu sem mistök sem skrifist á hina ungu leiðtoga sem þar voru – og gerðu sitt besta. Ég skil vel að þau hafi gripið til efnis sem þau þekkja mjög vel og ætlaðu eflaust að nota áfram á fermingarnámskeiðinu sem haldið var í framhaldinu.
    Stjórn Vatnaskógs þarf hins vegar að móta sér skýrar reglur um móttöku á þeim hópum sem ekki eru á staðnum á trúarlegum forsendum – og hafa það alveg skýrt að trúarleg boðun og/eða trúarlegt efni verði ekki notað á þá hópa. Stangt til tekið var þetta ólöglegt hjá Skógarmönnum.

    Um hitt nenni ég ekki að rökræða við þig um, enda erum við þar einfaldlega ósammála og komum okkur eflaust aldreio saman um hvað sé rétt þar. En eins og ég sagði. Skólinn (og menntayfirvöld) er í fullum rétti að hafna því að gefa heilum árgöngunum frí frá kennslu vegna fermingarnámskeiða. Slík almenn þátttaka þekkist ekki hvað aðra þætti varðar, svo sem íþróttir eða leiklistarstörf, en þar er skólinn reyndar einnig í fullum rétt til að neita að gefa frí.
    Ef foreldrar taka börnin samt sem áður úr skóla þá fá nemendurnir einfaldlega skróp!

  24. Torfi hefur lög að mæla í síðustu færslu sinni, varðandi stefnumótun KFUM/K um móttöku skólahópa í framtíðinni. Mér skilst að þetta sé nýmæli hjá skólum og kirkju, að samnýta ferðalag meginþorra 8. bekkjar í fermingarbúðir til skólaferðalags.

  25. Ég verð að geta þess hér að ég nefndi enga kirkju á nafn í ummælum mínum hér að ofan og hvergi kemur fram í hvaða grunnskóla ég vinn. Hins vegar hefur sóknarprestur Akureyrarkirkju séð ástæðu til að áminna mig hér á blogginu um að ég skuli kynna mér málin áður en ég fjalla um þau. Það taldi ég mig hafa gert en kýs að tjá mig ekki um það frekar þar sem ég hef gefið yfirmanni mínum lof um að fjalla ekki opinberlega um skoðanir mínar á samskiptum sem ég á ekki beina aðild að. Ekki var ætlun mín að draga einstaka presta (persónur) inn í þessa umræðu og harma að þannig skyldi þetta fara. Framvegis mun ég hringja í viðkomandi beint ef ég hef eitthvað við störf viðkomandi að athuga og vonast til að þeir geri slíkt hið sama.

Comments are closed.