Vef-sabbatical

Að gefnu tilefni hef ég tekið þá ákvörðun að taka vef-sabbatical. Vefnotkun er mjög mikilvægur þáttur í lífi mínu og síðustu mánuði og ár hefur upplýsingaöflun og greinalestur tekið sífellt meiri tíma, að ógleymdu fremur tilviljanakenndu vafri sem oft skilar áhugaverðum og á stundum gagnlegum skilningi á mannlegu lífi. Hins vegar er líka hollt að skipta reglulega um gír og endurskoða lífsmynstur sitt. Af þeim sökum hef ég ákveðið að taka mér vef-sabbatical fram til 24. janúar 2008 eða í 55 daga. Þar sem tölvu- og netnotkun er nauðsynleg vegna námsins míns get ég ekki einfaldlega slökkt á tölvunni minni á þessum tíma. Þar af leiðandi hef ég sett mér ákveðnar reglur sem ég mun leitast við að fylgja á þessum tíma.

  • Ég mun nota netið við leitir í upplýsingagagnagrunnum í tengslum við rannsóknir á vegum Healthy Congregations. Ég mun einungis notast við tölvur Trinity Lutheran Seminary í þessu skini, en mun ekki leita frá tölvum heima hjá mér.
  • Ég mun nota netið við að sækja efni sem kennarar í námskeiðum sem ég er að taka óska eftir að ég nálgist eða benda á. Til að nálgast slíkt efni mun ég að öðru jöfnu notast við tölvur skólans.
  • Ég mun notast við vefi fjármálastofnanna bæði hér í BNA og á Íslandi ef þörf krefur.
  • Ég mun notast við Blackboard síður Capital og Trinity Lutheran Seminary eins og þarf til að uppfylla kröfur námsins. Það á eins við um síðu kennsluskrár Trinity.
  • Ef dóttir mín óskar þess mun ég aðstoða hana í WebKinz eða öðrum veftengdum búnaði sem hún notar.
  • Ef konan óskar mun ég setja inn fjölskyldumyndir inn á hrafnar.net.
  • Ég mun ef kennarinn í námskeiðinu “Urban Ministry in Detroit” óskar eftir því, taka þátt í að skrifa námstengt blogg á tímabilinu 12.-22. janúar 2008. Að öðru leiti mun ég ekki skrifa færslur, svara ummælum eða skrifa ummæli á vefsíðum á þessum tíma.
  • Ég mun nota vefinn til að fá upplýsingar um sýningartíma kvikmynda og ef þarf upplýsingar um sjónvarpsdagskrá.
  • Ég mun nota gCal til að samræma dagatal fjölskyldumeðlima, þó hyggst ég takmarka þá notkun og notast ef kostur er við útprentun.
  • Ég mun nota vefinn til að kaupa jólagjafir á Amazon.com ef nauðsyn krefur.
  • Ég mun nota Skype til að hafa samskipti við Ísland. Eðli málsins vegna verður þó að öllu jöfnu ekki kveikt á Skype nema þegar ég þarf að hafa samband. Þeir sem þurfa að ná á mig, geta samt sem áður hringt með hugbúnaðinum og símtalið færist þá sjálfvirkt í farsímann minn.
  • Ég mun hins vegar ekki lesa fréttamiðla á vefnum, blogg-síður eða almenna vefi. Þetta felur í sér að ég mun ekki notast við Google-Reader-inn minn eða notast við video-vefi líkt og google video, youtube.com eða ESPN360.
  • Ég mun ekki setja inn ný Application á FaceBook, ekki svara athugasemdum á veggjum, skrifa á síðuna eða bæta við efni á þessum tíma. Ég mun hins vegar samþykkja/synja vinabeiðnum sem ég fæ tilkynningar um í tölvupósti.
  • Ég mun að öllu jöfnu einungis athuga rafpósthólfið mitt tvisvar á dag, í kringum kl. 10 að Austurstrandartíma, kl. 15 á Íslandi og um kl. 15 hér í Ohio, eða kl. 20 á Íslandi. Ég mun ekki notast við gMail notification en sækja þess í stað allan póst með Mail þegar þess er kostur, sem ég hef stillt þannig að póstur er einungis sóttur þegar ég óska eftir því.
  • Sabbatical-ið hefst á hádegi 30. nóvember 2007 (kl. 17 að íslenskum tíma) og lýkur á hádegi 24. janúar 2008.

Ég mun prenta út þessa færslu og skrá inn á það athugasemdir, vangaveltur og vandamál sem upp kunna að koma. Að kvöldi 24. janúar mun ég skrá færslu þar sem ég met verkefnið.