Tilkynning fyrir þá sem gætu hafa velt fyrir sér stöðu okkar hjóna í ljósi frétta undanfarna daga.
—
Vegna frétta í fjölmiðlum af erfiðleikum námsmanna erlendis þá er rétt að tilkynna að strax fimmtudaginn 2. október byrjuðum við hjónin að gera ráðstafanir til að lágmarka áhrif ástandsins á Íslandi á okkar plön. Þann dag fórum við mjög nákvæmlega yfir fjárþörf okkar hér í BNA og millifærðum frá Íslandi nægt fjármagn til að dekka allan daglegan kostnað fram í miðjan janúar. Næstu mánuði munum við lifa eftir mjög vel skilgreindri fjárhagsáætlun, sem gerir ráð fyrir minna af pöntuðum pizzum og meira af frosnum pizzum en áður.
Þegar svo hrunið varð liðna helgi, áttuðum við okkur á að ef við ætluðum okkur að standa við áform um DisneyWorld ferð um jól og áramót, þyrftum við viðbótarfjármagn. En upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að notast við íslensk kreditkort á Florída. Ég hafði því samband við BYR-sparisjóð á þriðjudag og millifærði nægilegt fé á föstu gengi Seðlabankans með Sparisjóðaálagi til að kosta þá ferð. Við höfum því ákveðið að halda öllum áætlunum um ferðalög um jól og áramót óbreyttum.
Þannig hefur ástandið á Íslandi ekki nein teljandi áhrif á líf okkar sem námsmanna erlendis, enn sem komið er. Geir og félagar hafa rúmlega 4 mánuði til að opna á ný fyrir gjaldeyrismillifærslur áður en við þurfum að endurskoða okkar stöðu.
Eða með orðum tónlistarmannanna í REM: “It is the end of the World as we know it. But I fell fine”.