Verkefnaskil og námið mitt

Í dag kl. 13:10 sendi ég með tölvupósti lokaverkefnið í námskeiðinu Transformational Leadership, ritgerð upp á rúmlega 20 síður til kennarans míns í Methodist Theological School of Ohio. Ég fékk tölvupóst frá kennaranum mínum kl. 14:14, þar sem hún var búin að fara yfir verkefnið og tillkynnti mér að einkunnin mín fyrir kúrsinn væri B. Það liðu þannig 64 mínútur frá því að ég skilaði þar til kennarinn hafði lokið við að lesa það yfir, skrifa ábendingar og athugasemdir við ritgerðina og gefa mér einkunn fyrir kúrsinn.

Þetta er þriðja skiptið sem ég fæ einkunn fyrir námskeið í náminu sem er að ljúka en að öðru jöfnu er gefið PASS eða FAIL í Trinity, í MALM-náminu. Hin námskeiðin sem ég hef fengið einkunn í eru MBA kúrsinn Organizational Behavior sem ég tók í Viðskiptadeild Capital University, en ég fékk A- fyrir þann kúrs og síðan Emerging Global Church, en af ókunnum ástæðum ákvað kennarinn að gefa mér einkunn en ekki PASS, en ég fékk A fyrir þann kúrs.

Í náminu sem hefst í haust tek ég hins vegar öll námskeið til einkunnar nema þrjá kúrsa sem umsjónarmaður námsins og Academic Dean skólans töldu nauðsynlegt að ég tæki sem undanfara framhaldsnámsins. Þessir kúrsar eru annars vegar tveir inngangskúrsar í Biblíufræðum, annar fjallar um Spámenn Gamla Testamentisins og hinn um bréfin og opinberunarbókina í Nýja Testamentinu. Þriðji undanfarinn er hins vegar annað hvort kúrs um sögu lúthersku kirkjunnar í BNA eða kúrs þar sem saga lúthersku kirkjunnar í BNA og játningar lúthersku kirkjunnar eru samtvinnaðar.

Annars á ég enn eftir eitt verkefni í skólanum mínum áður en ég útskrifast, en ég þarf að skila ritgerð um Sálgæslu sem verkefni safnaðarins alls á miðvikudagsmorgun kl 8:30. Þar mun ég beina gagnrýnum augum að þeirri hugmynd presta (og djákna) að þeir séu í einhverjum skilningi sérstaklega hæfir til að sinna sálgæslu (Care of souls) og hvernig sálgæsla hefur verið gerð að einhvers konar sérsviði “fagfólks” í stað þess að vera hlutverk okkar allra. Áhugavert dæmi um þessa “faggervingu” sálgæslunnar er að sjálfsögðu Vinaleiðin, þar sem sumir telja æskilegt að vígðir þjónar taki yfir það hlutverk að vera kærleiksríkir fullorðnir einstaklingar sem börn geta leitað til.