Meistaranámi í leikmannafræðum næstum lokið

Í fyrramálið mæti ég í síðustu kennslustundina í meistaranáminu mínu í leikmannafræðum (Master of Lay Ministry). Jafnframt skila ég ritgerð um Sálgæslu sem verkefni safnaðarins alls, sem ég var að ljúka við að skrifa núna kl. 3:19, en geri reyndar ráð fyrir að lesa og leiðrétta í fyrramálið (á eftir). Það er við hæfi að leikmannanámið mitt endi á ritgerð, þar sem ég gagnrýni málefnalega en ákveðið prestamiðlægni kirkjunnar og bendi meðal annars á hvernig Biblíurýni og veikur sakramentisskilningur kirkjunnar, gerði sálgæslu að sérstöku fagi presta, í tilraun til að öðlast hlutverk þegar allt benti til að prédikunarhlutverkið og útdeiling sakramentana hefðu misst gildi sitt. Mér til stuðnings vísa ég í tvo stórkostlega ólíka fræðimenn. Annars vegar anglíkana að nafni A.J. van den Blink, mikinn sálgæslugúru og hins vegar gasprara úr ranni evangelista eða baptista að nafni Reggie McNeal.

[Ég skilaði ritgerðinni rafrænt kl 8:46 í morgun og mætti þar af leiðandi 17 mínútum of seint í tíma sem byrjaði 8:30. Þegar tímanum lauk núna kl. 9:45 er ég því formlega búin með öll verkefni og alla tíma vegna MALM gráðunnar. Nú er bara að bíða fram á laugardaginn 24. og sjá hvort ég fái ekki pappír um afrekið.]