Af námsmönnum erlendis

Tilkynning fyrir þá sem gætu hafa velt fyrir sér stöðu okkar hjóna í ljósi frétta undanfarna daga.

Vegna frétta í fjölmiðlum af erfiðleikum námsmanna erlendis þá er rétt að tilkynna að strax fimmtudaginn 2. október byrjuðum við hjónin að gera ráðstafanir til að lágmarka áhrif ástandsins á Íslandi á okkar plön. Þann dag fórum við mjög nákvæmlega yfir fjárþörf okkar hér í BNA og millifærðum frá Íslandi nægt fjármagn til að dekka allan daglegan kostnað fram í miðjan janúar. Næstu mánuði munum við lifa eftir mjög vel skilgreindri fjárhagsáætlun, sem gerir ráð fyrir minna af pöntuðum pizzum og meira af frosnum pizzum -) en áður.
Þegar svo hrunið varð liðna helgi, áttuðum við okkur á að ef við ætluðum okkur að standa við áform um DisneyWorld ferð um jól og áramót, þyrftum við viðbótarfjármagn. En upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að notast við íslensk kreditkort á Florída. Ég hafði því samband við BYR-sparisjóð á þriðjudag og millifærði nægilegt fé á föstu gengi Seðlabankans með Sparisjóðaálagi til að kosta þá ferð. Við höfum því ákveðið að halda öllum áætlunum um ferðalög um jól og áramót óbreyttum.
Þannig hefur ástandið á Íslandi ekki nein teljandi áhrif á líf okkar sem námsmanna erlendis, enn sem komið er. Geir og félagar hafa rúmlega 4 mánuði til að opna á ný fyrir gjaldeyrismillifærslur áður en við þurfum að endurskoða okkar stöðu.
Eða með orðum tónlistarmannanna í REM: “It is the end of the World as we know it. But I fell fine”.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.