Fyrir jól urðu nokkur skrif um meint tengsl landvættanna og guðspjallamannanna. Þar áttu Óli Gneisti og Þórhallur Heimisson í nokkrum skoðanaskiptum um lítt rökstudda en skemmtilega hugmynd Þórhalls um uppruna landvættanna og tengsl við Biblíusögur.
Óli benti réttilega á að fremur langsótt væri að segja ljón vera dreka og mannsmynd vera tröll, og það má vissulega taka undir þá gagnrýni á hugmyndir Þórhalls þó skemmtilegar séu. Hins vegar er gaman að segja frá því að nýlega rakst ég á írskt rit frá 8. öld (Book of Kells) þar sem guðspjallamennirnir eru málaðir sem “risi”, naut, dreki og fugl.
Það sem meira er, uppruni bókarinnar er tengdur komu skríns Columba til Kells, sem Víkingar reyndu síðan að taka yfir á 9. öld. Því er e.t.v. ekki algjörlega fráleitt að þessar ímyndir komi þaðan inn í norræna söguhefð. Þannig sé frásögn Heimskringlu um tilvonandi innrás Dana, og tilfærslan úr ljóni í dreka, ekki frá Snorra kominn heldur eldri og eigi rætur að rekja til Írlands, hugsanlega til innrásar Víkinga á Kells. Fyrir þessu hefi ég engar heimildir aðrar en myndir af guðspjallamönnunum úr Book of Kells og þá staðreynd að heimildir um innrásir á Ísland af hendi Víkinga höfum við fáar, en þeim mun fleiri tengdar Írum.
Þannig sé saga Snorra um íslensku landvættirnar hugsanlega afbökuð írskt mýta um vernd guðspjallanna, sprottin úr samfélaginu í Kells.
Vissulega væri gaman að gera á þessu fræðilega rannsókn, leita uppi slíkar frásögur og e.t.v. lesa sér til um írska sögu, en þar sem ég les ekki keltísk mál, er upptekin við önnur fræði og hef enga sérstaka þörf að gefa Írum landvætti Íslands, þá læt ég staðar numið í bili.