Íslandsferð í sumar

Ákvörðunin um að koma ekki til Íslands í sumar hefur nú verið endurskoðuð en rétt í þessu gekk ég frá kaupum á flugmiðum fyrir alla fjölskylduna til sumarleyfisparadísarinnar Íslands. Nú er ekki lengur flogið til Íslands frá Baltimore þannig að í stað þess að kaupa miðana til Íslands og miðana innanlands í BNA í sitt hvoru lagi, borgar sig nú að kaupa alla leið með Flugleiðum. Verðið fyrir Flugleiðafarið er reyndar ekki gefið, en flug innan BNA er fáránlega dýrt, sér í lagi á flugvellina sem Flugleiðir fljúga á. Á móti kemur að Flugleiðir fljúga í sumar tvisvar á dag til Boston, þannig að við þurfum ekki að fljúga með Tómas að næturlagi og gista þar sem við millilendum. En flugáætlun sumarsins er þannig að við fljúgum öll saman til Íslands frá Columbus í gegnum Boston og lendum í Keflavík kl. 23:40 (19:40 að Ohio-tíma) 9. júlí. Jenný heldur svo til baka kl. 10:30 þann 16. júlí og lendir í Columbus kl. 21:13 sama dag. Anna Laufey fer í Ölver 17.-23. júlí, vonandi næ ég að kíkja til Akureyrar með börnunum síðustu vikuna í júlí, ég og börnin förum svo á Sæludaga í Vatnaskógi 1.-4. ágúst og fljúgum til baka til Ohio 6. ágúst kl. 10:30 og lendum í Columbus 21:13 sama dag.