Sú niðurstaða Menntamálaráðuneytisins að ekki sé heimilt að veita börnum leyfi frá skóla til að taka þátt í fermingarfræðslu er áhugaverð, en augljóslega röng.
Það er auðvelt og sjálfsagt að samþykkja þá niðurstöðu ráðuneytisins að skólum sé óheimilt að koma að undirbúningi fermingarferðalaga og full ástæða til að ítreka það.
En það er einfaldlega EKKERT sem bannar foreldrum að fá frí í tvo daga í skólanum fyrir börnin sín til að sinna sérstökum verkefnum. Það er réttur foreldra skv. þessari námskrá sem vísað er til í bréfi ráðuneytisins til skólastjórnenda.
Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum og forráðamönnum. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Þetta sameiginlega verkefni heimila og skóla kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.
Ég skal ekki draga í efa að eitthvað hafi misfarist á tíðum í skrifræðinu þannig að gagnvart einhverjum hafi litið svo út að ferðirnar væru í tengslum við skóla, en það er auðvelt að laga. Þannig mætti bregðast við þessu með stöðluðu bréfi sem foreldrar skila inn í skólann og óska eftir fríi fyrir barn sitt. Þetta kallar á meiri vinnu fyrir sóknarpresta og foreldra en er í sjálfu sér eðlileg þróun. Frumábyrgð í uppeldi er hjá foreldrum og þeim er heimilt að fá frí fyrir barnið sitt úr skóla til að sinna öðrum verkefnum – það gerist t.d. í tengslum við íþróttaferðir og ýmsa aðra viðburði.
Þegar svo skólarnir sjá að 95%-100% nemenda óska eftir fríi einhverja tvo ákveðna daga, þá er það skólans að ákveða hvort þeir kenna nemendunum tveimur sem fara ekki eða gefa þeim frí. Þannig er skólinn fríaður ábyrgð á ákvarðanatöku í málinu og það eina sem breytist er að fermingarferðin er ekki sett inn á dagatal skólans og mun því koma foreldrum barnanna tveggja sem ekki eru í fræðslunni á óvart.
Viðbrögð kirkjunnar ættu því að vera þau að nýta tækifærið, auka tengsl við foreldra og útbúa eyðublað sem foreldrar geta fyllt út og óskað eftir fríi í skólanum fyrir börnin sín þá daga sem fermingarfræðslan stendur. Í námskrá er tekið sérstaklega fram að:
Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir.
Ég sé því ekki að skólanum sé unnt að bregðast neikvætt við beiðni foreldra um að barnið fái frí til að taka þátt í trúarlegu starfi eins og fermingarfræðslu um takmarkaðan tíma.
Það er mikilvægt í þessari umræðu að halda á lofti gagnkvæmum skyldum allra í málinu. Foreldrar hljóta að eiga rétt á virðingu í garð trúaruppeldis barna sinna, þó þau tilheyri meirihlutahópi.
Sú fullyrðing í bréfinu frá Menntamálaráðuneytinu um að skólum sé “ekki heimilt að veita nemendum í 8. bekk leyfi til að fara í 1-2 daga ferð á vegum kirkjunnar í tengslum við fermingarundirbúning” er þannig augljóst brot á foreldrarétti og í mótsögn við þá áherslu á virðingu fyrir trúar- og lífsskoðunum sem boðuð er í aðalnámskrá grunnskóla. Eins er niðurstaða ráðuneytisins ekki í samræmi við rétt barna til trúaruppeldis sem er tryggður í mannréttindasáttmála Evrópu.
Rétt er að taka fram að ég er vígður til starfa í þjóðkirkjunni og hef um áratugaskeið starfað á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi.