Trúaruppeldi

Það er áhugavert hvernig umræðan hér á annálnum mínum opnar áhugaverðar hliðar á námsbókunum sem ég hef á skrifborðinu. Þannig var áhugavert fyrir mig rétt í þessu að sjá hvernig kirkjan í BNA, “kristnasta landi heims” hefur fært allt helgihald af heimilunum og inn í Guðshúsið (e. the Godbox). Þannig er bænahald einungis reglulegur þáttur í heimilishaldi tæpra 9% hefðbundina mótmælenda, og tölurnar virðast svipaðar fyrir katólikka, kannski rétt aðeins hærri. Kirkjan hefur þannig orðið eini vettvangur trúarlífsins.

Þetta vakti sérstaka athygli mína, vegna þess að fyrr í dag setti Torfi inn vísun, í ummælum við aðra færslu, á Gallup könnun um trúarlíf, þar sem fram kemur að reglulegt bænahald með börnum fer fram á 37% heimila á Íslandi (helmingur úrtaksins var reyndar spurður um tíðni og þar sögðust 45% biðja daglega með börnum). Vissulega er PC-áhrif einhver í þessari spurningu, fólk svarar því sem er “rétt” að svara, sem hækkar töluna eitthvað, en ætla má að PC-áhrifin séu einnig til staðar í BNA könnunni.

Dagleg/regluleg trúariðkun í barnafjölskyldum á Íslandi er þannig a.m.k. fjórfalt algengari en í “kristna landinu í vestri”.
Höfundar bókarinnar sem ég les, benda á mikilvægi fjölskyldugildismats og benda á að það rof sem hefur orðið milli trúarlífs og heimilis, sé vandi sem verði ekki leystur í Guðshúsinu. Þannig sé gildismat “kristinna” unglinga Í BNA, óæskilegra en unglinga sem telja sig ekki kristna, þar sem kennsla í “réttu” gildismati, hafi verið “outsource-að” til stofnunar í tilfelli þeirra kristnu, í stað þess að byggja á heimilinu sem grunneiningu.

Strommen og Hardel benda þannig á mikilvægi þess að fræðsla sé ekki kirkjumiðuð og með stuðningi frá heimilinu, heldur sé kirkjunni ætlað að styðja fræðsluna inn á heimilinu.

Í ljósi þessara orða, er e.t.v. ástæða til að taka Matta og félaga á orðinu og endurskoða hugmyndir okkar um Vinaleiðir, leikskólaheimsóknir og frístundaheimilasamstarf. Þar með er ég ekki að halda því fram að þessar leiðir séu endilega neikvæðar, en erum við e.t.v. að stofnanavæða verkefni heimilanna, sem er sinnt með ágætum á Íslandi. Eða erum við að styðja við heimilin með þessum verkefnum?

4 thoughts on “Trúaruppeldi”

  1. Ég verð víst að hryggja þig Halldór með öðrum tölum og neikvæðari fyrir trúrækni á heimilum en tölurnar í Gallupskönnuninni bendir til.
    Í könnun þeirri sem ég að leggja síðustu hönd á koma efnilega fram allt aðrar tölur en hjá Gallup. Að vísu er úrtakið aðeins 169 sjöundubekkingar í fjórum grunnskólum landsins en líklega er meira að marka þá en foreldrana!
    Reyndar er útkoma í könnun Gallups alls ekki svo jákvæð heimilunum. Þar kemur t.d. fram að 20,5% ungmenna á aldrinum 13-17 ára biðja aldrei. Einnig kemur fram í þeirri könnun að bænaiðkun ungmenna fari hraðminnkandi. Þessi þróun heldur áfram í ár samkvæmt minni rannsókn. Þannig eru það aðeins 26 af 169 aðspurðra sem biðja oft eða 15%.
    Reyndar sýna svör við annarri spurningu miklu betur þessi þverrandi áhrif heimilanna. Þar var spurt „Hvar hefurðu lært mest um Guð?“ Í könnuninni 2007 segjast 66% hafa lært mest um Guð í skóla en tæp 20% í kirkju. Einungis 10% sögðust hafa lært mest heima um hann.

    Ég held að það sé mjög erfitt að snúa þessari þróun við þar sem heimilin eru ekki fræðslu- eða bænastaður. Það er í kirkjum sem bænahaldið á að fara fram – og fræðslan jafnt í skólum sem í kirkjum (hlutlaus í skólanum!!).
    Þar verður að gera átak því heimilin eru þegar “töpuð” og verða ekki unnin aftur nema með óheyrilegu átaki sem kirkjan hefur hvorki tíma né mannskap til að sinna.

  2. Ég er ósammála þér um hlutverk heimilana Torfi. Auðvitað er heimilið staður fyrir fræðslu, miðlun gildismats og uppeldis í samskiptum (við Guð og menn). Vissulega hefur kirkjan mannskap og tíma til að gera hvað það sem þarf að gera.

  3. Þú mátt ekki taka þessi skrif mín of bókstaflega Halldór. Auðvitað hafa heimilin hlutverki að gegna, sérstaklega fyrir börn á forskólaaldri. Kirkjan aðstoðar við slíkt þegar við skírn barnsins og fylgir því eftir á ýmsan hátt. Bænaiðkun foreldra með börnum sínum er mikilvæg, ekki aðeins trúarlega séð heldur skapar hún einnig öryggiskennd hjá barninu sem það býr lengi að.
    En að reyna að gera fjölskylduna aftur að einhverjum burðarás í trúaruppeldi barnsins, eins og verið er að reyna í stefnumótun kirkjunnar, er dæmt til að mistakast að mínu mati. Samfélagið býður einfaldlega ekki upp á slíkt. Þú vitnar í einhverja ameríska spekinga sem gagnrýna stofnanavæðinguna í fræðslustefnu kirkjunnar vestra og vilja heldur að hún styðji fræðsluna inn á heimilinu. Við hvernig aðstæður vilja þeir búa? Fá konurnar aftur inn á heimilin?
    Nei, mér sýnist hugmyndir þeirra byggjast á íhaldsömum fjölskyldugildum sem eru gjörsamlega úr takt við nútímann.
    M.a.s. sjálfsstæðismenn, sem lengi hafa vilja standa vörð um heimilin, eru nú að láta undan síga. Á landsfundi þeirra voru deilur uppi um hvort heimilin ættu að vera með þegar ályktað var um fjölbreyttara kennsluform (einkarekna skóla o.s.frv.). Þar var því hafnað að gefa foreldrum kost á því að sjá sjálfir um uppfræðslu barna sinna og fá borgað fyrir það.
    Í stefnumótunarplaggi kirkjunnar var talað um að verkefnið, Heimilið – vettvangur trúaruppeldis, ætti að ná hámarki veturinn 2005 – 2006. Ekki hefur nú farið mikið fyrir því verkefni í starfi kirkjunnar, sem sýnir að mínu mati hve allt slíkt tal er óraunhæft. Þetta hljómar svo sem ágætlega fyrir suma, en framkvæmdin er býsna erfið og verður því minna úr henni en skyldi.
    Snertifletir kirkjunnar eru aðrir, þ.e. á vissum tímamótum í lífi fólks. Þar þarf hún að standa sig betur en hún gerir og beina kröftum sínum í þá átt.
    Auk þess á hún að hafa ákveðna tilburði uppi til að hafa áhrif á kennslu kristinna fræða í skólum – og vera þar framsýn og opin. Sem dæmi má nefna samningu nýs námsefnis í greininni. Það eru ekki margir aðrir en kirkjunnar fólk sem getur samið slíkt kennsluefni, enda hefur svo verið um langa hríð. Nú er svo komið að kennslubækur þær sem sr. Sigurður Pálsson samdi fyrir um 10 árum síðan eru farnar að standa kennslu í greininni mjög fyrir þrifum. Kennarar veigra sér við að nota þær, m.a. vegna undarlegs áhuga á sögum Gyðingaþjóðarinnar. Þeir spyrja sig hvers vegna þeir ættu að vera kenna börnum uppi á Íslandi að Ísraelsþjóðin sé Guðs útvalda þjóð og landið sem þeir hafa hertekið með voppnavaldi sé gjöf Guðs til þeirra. Svona áróður gengur ekki lengur í ljósi þess yfirgangs- og apartheitstefnu sem heimurinn hefur orðið vitni að af hendi Ísraelsmanna undanfarna áratugina.
    Það hlýtur að vera hægt að semja betra námsefni en þetta, þar sem gengið er út frá því að gera nemendur læsa á eigin menningu en ekki vera með einhvern dulinn trúaráróður í gangi, áróður sem m.a. þjónar heimsvaldastefnu Breta og Bandaríkjamanna og bandamönnum þeirra í Miðausturlöndum.

  4. Torfi, ég skil varúðarorð þín um atvinnuþátttöku kvenna. Hins vegar sé ég ekki nauðsynlegt samasemmerki á milli aukinnar þátttöku fjölskyldna í trúaruppeldi og heimavinnandi húsmæðra. Frítími fólks á Íslandi sér í lagi, er miklu meiri í dag en fyrir 20 árum. Hvað þá 40 árum eða 100 árum. Hins vegar er það rétt að hlutverk skólans, heimilis og kirkjunnar eru mismunandi og við þurfum að vinna milliveg þar á milli.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.