Detroit

Í janúar síðastliðinn var ég staðsettur á skrifstofu Kwame Kilpatrick í Detroit nákvæmlega viku áður en Free Press birtu afritin af SMS-skilaboðunum.  Heimsóknin var hluti af námskeiði í skólanum mínum um kirkjulegt starf í stórborgum. Við hittum reyndar Kwame aðeins í nokkrar mínútur, en meginhlutverk komunnar á skrifstofuna var að fá fyrirlestur hjá aðstoðarmönnum hans um uppbygginguna í borginni. Þessi tveggja tíma heimsókn var einn óþægilegasti hluti rúmlega 10 daga heimsóknar til Detroit, þar sem við hittum skólastjóra í niðurnýddum grunnskólum, töluðum við hjúkrunarfræðinga sem glöddust yfir að ungbarnadauði hefði lækkað úr 15 í 13 börn af hverjum 1000 (tölur á Íslandi 2 af 1000), tókum vakt með lögreglumönnum sem höfðu það markmið helst að komast slysalaust úr vinnunni, hlustuðum á skýrslu frá innra eftirliti lögreglunnar þar sem fram kom að enn voru 1500 kvartanir á hendur lögreglunni frá 2007 órannsakaðar í janúar 2008 (rúmlega ein kvörtun á hverja tvo lögreglumenn) og heimsóttum húsnæði heimilislausra svo fátt eitt sé nefnt.

En heimsóknin til Kwame var það sem kallaði fram hvað hörðustu viðbrögðin. Aðstoðarmennirnir lýstu markmiðum sínum og Kwame og héldu því fram blákalt að allt væri að fara á betri veg í borginni og sögðu sögur af fjölskyldudagskrá einu sinni á ári á einu af grænu svæðum borgarinnar og hrósuðu sér af spilavítunum sem eru að rísa um alla borg. Raunveruleikinn var hins vegar sá að þeir félagar og Kwame virtust ónæmir fyrir því að almenningssamgöngur eru í rúst, atvinnuleysi er 15-20% í sumum hverfum, félagsráðgjafar borgarinnar eru sumstaðar með 530 mál á ári, það er framið eitt morð á dag í borginni og lögreglan borgar 20 milljónir dollara á ári vegna rökstuddra kvartana um misbeytingu valds. Þessar upplýsingar virtust ekki hafa náð eyrum aðstoðarmannanna í leðurstólunum, þar sem við sátum umkringd myndum af Kwame með hinum og þessum stórstjörnunum.

Í borginni sjálfri heyrðum við sögusagnir af myrtum vændiskonum eftir að hafa verið í partíi í borgarstjórabústaðnum, sem reyndar líktust meira reifara en sannleikanum. Nú er að koma í ljós að sumar þessara sögusagna höfðu einhverja stoð í raunveruleikanum og ljóst að Detroitborg á enn eftir að hnigna á meðan málaferli gegn Kwame halda áfram.

Disney uppgötvar “Tween-Agers”

Það er óhætt að segja að innkoma Disney inn á Tweenagers markaðinn hér í Bandaríkjunum sé með gróðavænlegustu ákvörðunum fyrirtækisins undanfarin ár. High School Musical II var þannig stærsta frumsýning kapalstöðvar frá upphafi í ágúst síðastliðinn og Hannah Montana æðið er ekki síðra.

Markhópurinn 9-12 ára stúlkur er því orðinn alvöru afl í hagkerfi Bandaríkjanna. Vissulega höfum við séð tilraunir til að virkja þennan hóp í hagkerfinu áður, en Disney hefur fullkomnað verknaðinn. 

Kirkjan uppfærð í samræmi við gildandi lög

Ákvörðun Kirkjuþings um málefni samkynhneigðra færir kirkjuna á par við núgildandi lög í landinu. Kirkjan gengur inn í það fyrirkomulag sem ríkir um staðfesta samvist og “óskar” eftir heimild fyrir þá sem eru vígslumenn að lögum til að staðfesta samvist. Jafnframt stendur kirkjuþing áfram við hefðbundin skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.

Allt orðalag og sér í lagi framsetning á tillögunum hefur verið milduð. Þannig er ekki lengur talað um ályktun um hjónabandið líkt og þegar málið var lagt fram. Eins hefur hugtakið vígslumenn verið sett inn í tillöguna til að mynda hugrenningatengsl við vígslu staðfestrar samvistar þó það sé ekki sagt berum orðum.  Þá er áherslan á heimildarákvæði veikari enn áður, ekki er talað um samviskufrelsi presta til að neita um athöfn en á móti lögð áhersla á að frelsi presta sé virt.

Vangaveltur sem vakna við lestur þessara breytinga og við þessa samþykkt eru nokkrar:

  • Ef frumvarp VG um ein hjúskaparlög nær fram að ganga, er ljóst að málið þarf að fara aftur fyrir Kirkjuþing vegna orðalagsins í þessari samþykkt.
  • Það virðist augljóst að hugtakið vígslumenn er sett inn til að mynda hugrenningatengsl við vígslu. Hvernig tókst fylgismönnum réttinda samkynhneigðra að fá kirkjuþingsmenn til að samþykkja það?
  • Hvers vegna er ekkert um form helgihalds samþykkt, en það var hluti af 15. máli. Nú þegar ný helgisiðahandbók er væntanleg má ekki seinna vænna að ganga frá formi fyrir athafnir, ef ekki á einfaldlega að notast við hjónavígsluformið.
  • Hvaða hugmyndir eru uppi um hvernig virða á frelsi presta? Þetta er augljóslega gert til að friða presta sem vilja ekkert með samkynhneigða hafa, en hefur þetta einhverja raunverulega merkingu. Hafa prestar frelsi til að neyta einhverjum um fyrirbæn?
  • Hér má segja að skrefið sé stigið til fulls guðfræðilega til jafnrar stöðu gagn- og samkynhneigðra innan kirkjunnar. Boltanum er rúllað yfir til löggjafans að stíga næsta skref, veita vígslumönnum rétt til staðfestingar samvistar og hugsanlega kalla eftir einum hjúskaparlögum.
  • Hvernig tekst kirkjunni að spila úr þessari ákvörðun? Ég verð að viðurkenna að ég efast um að það takist vel. Kirkjan tapaði fyrir löngu síðan allri PR-vinnu vegna þessara mála og ég fæ ekki séð að það breytist núna. En hver veit?

Að selja sál sína

Eins og Mr. Moore bendir réttilega á virðist Hillary Rodham Clinton hafa selt sál sína, enda er forsetastóllinn í BNA í boði. Hugmyndir HRC ganga út á það að skylda alla íbúa BNA til að kaupa sjúkratryggingu á frjálsum markaði og niðurgreiða tryggingar þeirra sem skortir til þess fé. Þannig fitna tryggingafyrirtækin enda öllum íbúum ríkisins skylt að borga þeim stórfé og þess utan mun ríkistjórnin í BNA leggja fé til þessara fyrirtækja. Í landi þar sem eftirlitsstofnanir eru litnar hornauga, mun þetta hugsanlega leiða til stórhagnaðar tryggingafyrirtækja á kostnað þjónustu og kostnaður ríkisvaldsins mun rjúka upp úr öllu valdi.

Það er einfaldlega svo að einkavædd skyldusjúkratrygging gengur ekki upp, ef hugmyndin er að sjúklingar njóti vafans/öryggis. Það þarf ekki nema eitt námskeið í hagfræði til að sjá að markaðsbrestir þegar kemur að sjúkratryggingum eru svo verulegir að einvörðungu ríkisvaldið ræður við að tryggja þegna sína. 

Lífsgæðarannsókn Sameinuðu þjóðanna

Hér í BNA hef ég á stundum vísað í þessar rannsóknir SÞ, en þær má sjá á http://hdr.undp.org/hdr2006/statistics/. Hér er litið til þátta eins og læsis, hlutfalls þjóðarframleiðslu til menntunar, rannsókna og heilbrigðismála. Það er litið til barnadauða, hverjar eru lífslíkur, þjóðarframleiðslu, misskiptingar í samfélaginu, aðgengis að síma, bifreiðum, hreinu vatni og svo mætti lengi lengi telja.

Vísanir mínar hér í BNA hafa reyndar flestar snúið að heilbrigðismálum, enda er öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla þegna eitt af einkennum landanna efst á listanum ef frá er talið ríkið í 8. sæti.

Áhugasamir geta skoðað einstaka þætti sem horft er til á síðu Sameinuðu þjóðanna. 

Fátækt í tölum

Fátæktarmörk í BNA eru $20.444 á hverja fjögurra manna fjölskyldu eða rétt um $1.700 á mánuði. Það kostar mig og konuna mína sem lifum tiltölulega sparlega með tvö börn, erum í mjög ódýru húsnæði, með niðurgreitt barnaheimilispláss, ókeypis sjúkratryggingu, höfum borgað bílinn og höfum ekki kapal rétt um $4.000 á mánuði að búa hérna. Þannig að vera undir fátæktarmörkum í BNA merkir fyrir fjögurra manna fjölskyldu að hafa $2.300 minna á milli handanna en þú þarft til að geta lifað af mánuðinn. Continue reading Fátækt í tölum

Aðgreiningin styrkt / Tímabundin lausn?

Sjá athugasemd Þráins Haraldssonar!

<DEL>Það er sorglegt að sjá þetta stigma í garð geðsjúkra barna og ungmenna. Að í einu af ríkustu ríkjum heims, með besta velferðar- og heilbrigðiskerfi veraldar skuli viðhorf heilbrigðiskerfisins vera að halda þeim geðsjúku frá hinum líkamlega veiku.

Á sama tíma og stefnt er að uppbyggingu glæsilegs sjúkrahús á Hringbrautarsvæðinu, þar sem öll þjónusta er á einum stað – þá á að halda einum hópi sér. Geðsjúk börn og ungmenni eru væntanlega öðruvísi en aðrir eða hvað?</DEL>

Að sjálfsögðu fagna ég endurbótum og bætri húsnæðisaðstöðu fyrir BUGL-ið, <DEL>en um leið harma ég það viðhorf sem ég tel felast í áframhaldandi uppbyggingu á Dalbraut.</DEL>

Athugasemd:
Sæl Elli, það hefur komið fram í umræðunni að það standi til að BUGL verði staðsett við hlið nýs spítala við Hringbraut. Húsnæðisvandi deildarinnar er hins vegar svo mikil að ekki er hægt að bíða eftir nýjum spítala. Væntanlega verður húsnæði BUGL selt þegar kemur að flutningum á Hringbraut, en hvenær það verður, veit nú enginn!
Þráinn Haraldsson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 16:05

Afsökunarbeiðni

Ég vil biðja landsmenn afsökunar á því að hafa fjórum sinnum á síðasta mánuði tekið stöðu gegn íslensku krónunni með verulegri sölu á krónum og kaupum á dollurum. Ég er meðvitaður um að ákvarðanir mínar hafa átt þátt í þessari veikingu krónunnar sem á sér stað núna.

Reyndar þykist ég hafa afsakanir fyrir hluta af þessum stöðutökum, bíllinn fór í viðgerð, ég keypti flugmiða heim um jólin fyrir fjölskylduna og þurfti að borga skólagjöldin hérna úti. En hluti af ákvörðunum mínum voru meðvitaðar tilraunir til að hagnast á athæfinu á kostnað náunga míns heima á Íslandi. Ég veit að þetta mun hugsanlega hafa áhrif á verðmæti húsnæðis ykkar sem búið á Íslandi, ég veit þið lendið hugsanlega í vandræðum með að borga af lánunum og þurfið jafnvel að selja hjólhýsið.

En lífið er hart, eins dauði er annars brauð. Hagnaður minn af þessum stöðutökum gerir mér mögulegt að njóta lífsins að fullu í stúdentaíbúðinni í Bexley, dóttir mín fékk nýjar stuttbuxur í gær og hver veit nema að strákurinn fái að fara í klippingu fyrir jólin.

Hvert fóru Actavis milljarðarnir?

Þar sem ég er áhugamaður um gengisþróun íslensku krónunnar gagnvart dollaranum, kalla þessar fréttir úr Kauphöllinni á faglegar útskýringar.

  1. Er það rétt skilið hjá mér að viðtakendur Actavis milljarðanna hafi ákveðið að fjárfesta ekki á Íslandi og markaðurinn sé að leiðrétta væntingar um kaup sem brugðust.
  2. Í tengslum við það hlýt ég líka að spyrja hvort það sé rétt hjá mér að gengi krónunnar sé að aðlagast þessum veruleika sem útskýri 5% lækkun krónunnar gagnvart dollaranum síðustu vikuna.
  3. Eitthvað hef ég heyrt um erfitt aðgengi að erlendum lánum, er það áhrifavaldur í þessari þróun núna, eða á það eftir að koma fram?
  4. Eða er eitthvað annað í gangi? 

 

Dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi

Í desember fórum við með son minn í læknisskoðun, við fundum út hvaða barnalæknir væri innifalinn í sjúkratryggingunni okkar og pöntuðum tíma. Í sjálfu sér gekk það vel, við fengum skoðun og þegar tímanum var lokið, fengum við nýjan tíma fyrir þrjár bólusetningar, þessar sem öll börn þurfa að fá. Við mættum síðan nokkrum dögum seinna og strákurinn fékk sprauturnar sínar. Tveimur vikum síðar kom reikningurinn, tvær heimsóknir og þrjár sprautur $760 eða 48.000 krónur. Fram kom að tryggingafélagið neitaði greiðslu vegna formatriðis, sem ekki var útskýrt. Það tók mig þrjá mánuði og 7 símtöl að leysa vandamálið. Ég þurfti að hringja á læknastofuna, tryggingafyrirtækið, fyrirtækið sem sér um greiðslur á kröfum fyrir tryggingafyrirtækið og síðan annan hring til allra. Eftir nokkur símtöl þar sem mér var sagt að ekki væru til nein gögn um að ég hefði kvartað, fékk ég loks bréf um að tryggingafyrirtækið hefði borgað sinn hlut.

Þegar ég svo nefndi þessa sögu við kunningja minn sem er lögfræðingur, sagði hann mér að allir vissu að tryggingafyrirtækin, alla vega sum, treystu á að fólk gæfist upp á 3 hringingu og greiddi þjónustuna sjálft enda kostar tíma og fyrirhöfn að standa í stöðugu tuði um þrjár sprautur.

Þetta gerist í dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi, þar sem stór af starfsfólkinu er ekki heilbrigðisstarfsfólk heldur lögfræðingar, viðskiptafræðingar, símastarfsfólk á endalausum skiptiborðum við að neita viðskiptavinum um þjónustu. Þetta kerfi er frábært fyrir þá einstaklinga sem eiga allt, þá sem taka ekki eftir því hvort það er $760 meira eða minna á Debetkortinu. En fyrir alla hina, þær 45 milljónir manna sem eru tryggingalaus, tugi eða hundruði milljóna manna sem eru háðir vinnuveitanda í vistaböndum, þar sem vinnuveitandi veitir af gnægtum sínum þær litlu tryggingar sem flestir hafa, þá er ástandið ekki eins gott.

En það sem ætti að vekja mesta athygli þeirra sem trúa á framtak atvinnulífsins og mikilvægi einkavæðingar er að kerfið er eitt það dýrasta í heimi, þegar litið er til hlutfalls af þjóðarframleiðslu. 

Talsmaður múslima

Eitt af vandamálum múslima víðast hvar í Evrópu er spurningin um talsmann. Það er ekki ljóst hver getur talað fyrir hönd hópsins. Það hefur leitt til þess að fjölmiðlar í leit að fréttum hafa skilgreint fyrir meginþorra fólks hver sé talsmaður og hver ekki. Þetta var eitt af félagslegum víddum Islam sem ég skoðaði í verkefni í Trúarbragðafræðum sem ég tók upp í Pontificium College Josephinum. Þar segi ég um stöðu talsmanna: Continue reading Talsmaður múslima

Feðginahelgi

Það er auðvelt að segja að lyf séu ekki besta lausnin, heldur eitthvað annað – fiskafitusýrur, feðginahelgi, heilsurækt eða bænir. Veruleikinn er hins vegar einfaldlega sá að stundum eru börn veik og þurfa lyf.

Um síðustu helgi fór ég á feðginahelgi með dóttur minni og þar vildi svo til að Jeff, aðalhöfundur ofangreindrar rannsóknar var þar með dóttur sinni. Hann sagði okkur hinum, pöbbunum hvað það væri undarlegt að vinna við rannsóknir og lenda í því allt í einu að verða fjölmiðlafóður. Hann væri búin að vera alla síðustu viku á námskeiðum í framkomu og fjölmiðlapakkinn myndi lenda á honum á þriðjudag (í gær). Jeff sá samt ástæðu til að gefa sér tíma og mæta með dóttur sína og eiga með henni góðar stundir í sumarbúðunum. Það að hann skyldi taka dóttur sína á feðginahelgi merkti samt ekki að hann trúði ekki eigin niðurstöðum, hann veit sem er að heilbrigt fjölskyldulíf, uppbyggjandi samskipti og jafnvel fiskafitusýrur (við reyndar ræddum það ekki) gera sitt gagn.  En þegar börn eru veik, sem gerist því miður, þá er mikilvægt að átta sig á hvort það sé betra að þau fái Prosac eða ekki. Líkt og það er nauðsynlegt að vita hvort það sé betra fyrir barn með opið beinbrot að fá verkjatöflu til að geta sofið, eða að leyfa náttúrunni og verkjunum að hafa sinn gang.

Niðurstöður Jeff og félaga eru fjölþættar, ein þeirra er sú að það dregur úr sjálfsvígshættu að gefa þunglyndum börnum lyf við vanlíðan sinni. Allir sem láta sig börn varða, hljóta að fagna slíku, óháð því hvað okkur finnst um lyfjafyrirtæki sem slík.

Þjónustustofnun, kirkja eða eitthvað allt annað

Það er áhugavert að velta fyrir sér þessu máli í Digraneskirkju. Hér er nefnilega snert á grundvallarskilningi þjóðkirkjunnar á sjálfri sér. Hver er staða og hlutverk kirkjunnar? Það má segja að við getum greint tvo meginstrauma í þessu máli. Continue reading Þjónustustofnun, kirkja eða eitthvað allt annað

Sofandi hlébarði

Þegar sonur minn braut skjáinn á iBook-vélinni minni á Gamlársdag, ákvað ég að vera fartölvulaus þar til Hlébarðinn kæmi í upphafi vormisseris, enda vel hægt að vera skrifborðsbundinn í mánuð eða tvo, og fá í staðinn fullkomið back-up kerfi og möguleikann á Boot-Camp fyrir Linux innbyggt í stýrikerfið. Nú er komið fram í apríl, hlébarðinn liggur enn í dvala og sinaskeiðabólgan að drepa mig ef ekki væri fyrir keiluhanskann á hægri hendi.

Það er því ljóst að fyrst hlébarðinn ætlar ekki að rísa úr dvala fyrr en í október, þá er fátt að gera annað en keyra upp í Easton eftir helgi og kaupa MacBook, losna úr fjötrum skrifborðsins og e.t.v. henda keiluhanskanum. Backup-ið býður þá bara fram á haust, og ég þarf hvort eð er ekkert á linux að halda.

Vonskuveður

Ég fékk bréf frá kennaranum mínum í Ministry of Worship í gær, þar sem hún lofaði þeim nemendum sem kæmu í tímann í dag kökum. Í morgun kom síðan annað bréf um að skólinn yrði læstur, enda á enginn að vera á ferli og norðan við okkur má handtaka hvern þann sem keyrir á opinberum vegum meðan að veðrið gengur yfir.

Þetta virðist fremur öfgafullar aðgerðir, en eins og bent var á í sjónvarpsfréttum í morgun er ástandið mjög alvarlegt. Víða á vegum sjást ekki einu sinni akgreinalínur. Annars er búið að vera heiðskýrt frá því ég vaknaði og létt snjókoma á köflum, eiginlega veður eins og sést í fallegum jólamyndum. Ég hef reyndar ekki farið út, en dóttir mín 8 ára hentist ekki úti nema í 20 mínútur með vini sínum frá Alaska, þrátt fyrir heiðríkjuna enda gífurlega kalt.

En að upplifa þetta í fyrsta sinn hér er samt pínu kómískt. Í svona veðri heima á Íslandi í febrúar væri skólasund það eina sem yrði aflýst.