Þjónustustofnun, kirkja eða eitthvað allt annað

Það er áhugavert að velta fyrir sér þessu máli í Digraneskirkju. Hér er nefnilega snert á grundvallarskilningi þjóðkirkjunnar á sjálfri sér. Hver er staða og hlutverk kirkjunnar? Það má segja að við getum greint tvo meginstrauma í þessu máli.

i. Kirkjan er þjónustustofnun sem annast þjónustu við borgarana m.a. á sviði helgihalds. Kirkjan er þannig ekki ólík heilsugæslunni, eða bifreiðaskoðun (sem reyndar er einkarekin í dag). Þjóðkirkjan, sér í lagi, ber skyldu til að veita þjónustu sinni til allra, óháð trúarskoðunum. Þannig er fermingin einfaldlega “check” sem gefur skoðunarmiða og reyndar varla það. Ekki er hægt að hafna neinum, allir þurfa að fá sína pakka og veislu við þréttán ára aldurinn, eftir að hafa haldið út, 1 1/2 tíma athöfnina. Hvort þú kærir þig um að tilheyra kirkjunni eða ekki er fullkomlega óháð kröfunni um að fá þjónustu.

ii. Kirkjan er samfélag trúaðra væri þá einhvers konar andstæða þjónustustofnunarinnar. Hér er litið svo á að kirkjan sé samfélag fólks, sem skilgreinir sig kristið í einhverjum skilningi. Þessi skilningur getur bæði verið opin og lokaður. Kirkjan er vettvangur þessara einstaklinga fyrir trúarlíf sitt. Þannig eru athafnir skilgreindar sem vettvangur þeirra sem tilheyra kirkjunni til að játa trú sína og styrkjast í samfélaginu.

Hér er að sjálfsögðu um að ræða jaðarskoðanir. En það er nauðsynlegt að spyrja hvar kirkjan vill standa. Sjálfsagt er leiðin þarna einhvers staðar á milli, alla vega í huga flestra sem telja sig virka í kirkjustarfi.

Spurningin í mínum huga er þó ekki síður, hvers vegna einhver sem sækir þjónustu sína í þjóðkirkjuna, kýs að skrá trúfélagsaðild annars staðar. Það hlýtur að vera hin meginspurningin í þessu máli?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.