Menntun leiðtoga

Þegar lokafrestur nálgast á verkefnum í skólanum er alltaf freistandi að gera eitthvað allt annað. Nú bíður mín að ljúka við kynningarefni um Lúther í kirkjusögu og því ljóst að þankar um mat á kirkjustarfi og rannsóknir á gæðum þess er það sem ég ætla að skrifa um.
Á skrifborði dóttur minnar (ég á ekki mitt eigið) er núna bókin “Natural Church Development” eftir Christian A. Schwarz, hún er til í íslenskri þýðingu hjá aðventistum, en ég man ekki heitið í augnablikinu. Í bókinni kynnir Schwarz nokkur einkenni veluppbyggðra og starfhæfra safnaða. Hugmyndir hans spretta upp úr Church Growth hreyfingunni í BNA, en tekur tillit, að eigin sögn, til þeirrar gagnrýni að vöxtur sé ekki endilega góður mælikvarði á gæði starfs.
Schwartz byggir rit sitt á rannsóknum á 1100 söfnuðum í 32 löndum. Hann leggur áherslu á menningarlegan og landfræðilegan mun á umhverfi safnaðanna, að eigin sögn, og það verður að segjast að niðurstöðurnar eru um margt áhugaverðar, þó ég hafi enn aðeins skimað bókina lítillega. Hann greinir í ritinu söfnuðina í fjóra meginflokka, þar sem á x-ásnum er mældur vöxtur og á y-ás er talað um gæði. Hvernig þetta er mælt hyggst ég ekki fjalla um hér.
Hins vegar er fyrsta fullyrðingin sem hann fjallar um áhugaverð. Í ljós kemur að í hópi þeirra presta sem starfa í kirkjum sem eru staðnaðar og bjóða upp á lítil gæði í starfi hafa 85% lokið formlegri guðfræðimenntun (sem er reyndar ekki skilgreind nánar). Þeir söfnuðir hins vegar sem eru vaxandi og bjóða upp á vandað starf (skv. Schwarz) hafa einungis í 42% tilvika leiðtoga með formlega guðfræðimenntun. Eins er athyglisvert þvert á kenningar kirkjuvaxtarhreyfingarinnar að þeir söfnuðir sem vaxa byggja síður á markmiðsmiðuðum leiðtogum, en leggja meira upp úr samskiptum og því að kalla sem flesta til áhrifa. Þannig er hugmyndin um sterkan alráðan leiðtoga, sem við sjáum oft vísað til, alls ekki sterkari í kirkjum í vexti, heldur en hnignandi kirkjum.
Niðurstöður Schwarz eru fleiri, margar tala beint inn í veruleika þjóðkirkjunnar á Íslandi á sorglegan hátt. Hins vegar er mikilvægt að glíma við stöðu þjóðkirkjunnar í ljósi svona rannsókna, hvort sem við teljum að vöxtur sé mikilvægur eða ekki, og hvort sem við teljum að gæði eins og þau eru mæld í tilfelli Schwarz skipti máli. Þjóðkirkjan er ekki eyland, hún þarf að svara hvað hún vill með viðskeytinu -kirkja.

One thought on “Menntun leiðtoga”

  1. Formlegri menntun hættir til að drepa sköpunarhæfileika og frumkvöðla-andann. Þetta á sjálfsagt við á öllum sviðum mannlífs. Þegar búið er að lemja inn í mann hugsun annarra þarf oft smá námskeið til að kenna sjálfstæða hugsun að nýju.
    Ef til vill er ég síðasti maður sem ætti að tjá sig um vanda trúarhópa en geri það samt. Mér hefur lengi fundist að þjóðkirkjan sé fyrst og fremst að spila vörn en ekki sókn. Varnarleikurinn birtist mér í því að margir prestar milda og mýkja boðskapinn þar til hann getur ekki misboðið neinum og verður þá eins og Eurovision-lag: Eitthvað sem má alveg glamra í bakgrunninum en maður hækkar ekki í útvarpinu og kaupir ekki diskinn.
    Að lokum vil ég óska þér til hamingju með viðamiklar og vandaðar net-birtingar. Mér fannst það merkileg tilviljun að reka augun í blog-ið þitt á mbl.is daginn eftir að ég hafði velt fyrir mér hvort haldið yrði upp á 15 ára stúdentsafmæli okkar og hvað gömlu félagarnir úr 6.X væru að gera í dag.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.