Jeremía 7. kafli

Zion guðfræði musterisins, um fyrirheitnu þjóðina sem hefur byggt sér hús þar sem Guð býr, musterið í Jerúsalem, þar sem Guð býr sama hvað. Hugmynd sem við sjáum t.d. í áætlunum Davíðs og væntingum um ævarandi konungsdóm í Annarri Samúelsbók 7. kafla og bregður víða fyrir hjá fyrsta Jesaja, fær harkalega útreið hér hjá Jeremía.

Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: “Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.”

Trúarskilningur Jeremía byggir ekki á húsinu glæsilega í Jerúsalem, heldur á afstöðunni til Torah, til lögmálsins. Guð býr þar sem aðkomumenn búa við frelsi, munaðarleysingjar og ekkjur hafa réttindi, þar sem saklausu blóði er ekki úthellt. Guð er þar sem sanngirni ríkir, á slíkum stað finnur Guð sér bústað.

Það að byggja hallir og skrauthýsi þar sem gengið er fram fyrir Guð, eftir að hafa svikið og prettað náungann er ekki þóknanlegt fyrir Guði. Slíkt hús er ræningjabæli. Fórnarþjónustan í musterinu er hluti af þessum blekkingarleik að mati Jeremía. Guð kallar ekki eftir fórnargjöfum heldur hlýðni við lögmálið segir spámaðurinn.

Lögmálið sem Jeremía vísar til og við sjáum í skrifum Amosar, er ekki lögmál sem festist í að fylgja í blindni, heldur lögmál sem krefst réttar fyrir hin veika, smáa og jaðarsetta. Lögmálið knýr á um rétt fyrir ekkjur og munaðarlausa, fátæka og útlendinga, það snýst ekki um hárgreiðslu, föt eða fórnaraðferðir, alls ekki.

Jeremía 6. kafli

Engin(n) vill hlusta. “Þeir skopast að orði Drottins, þeim fellur það ekki í geð.” Loforðin um betri tíð, þegar engin framtíð liggur fyrir. Skjótur gróði er markmið þeirra sem segjast hafa lausnir, hegðunin er viðurstyggileg samkvæmt Jeremía, en loforðaspámennirnir hafa enga blygðunarkennd.

Hamingja samfélagsins skiptir engu, hvíld, sátt og friður skipta engu fyrir þá sem vilja hagnast. Engin spyr um “gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin.” Ógæfan er afleiðing hugarfarsins, hrunið er óumflýjanlegt.

Jeremía 5. kafli

“Engin ógæfa mun koma yfir oss, … Spámennirnir eru loftið tómt, orðið er ekki í munni þeirra, það kemur þeim í koll.”

Skeytingar- og andvaraleysið leiðir til glötunar. Þegar viðvörunarraddirnar eru hunsaðar og spámennirnir niðurlægðir, þá er endirinn nærri. Þá styttist í að samfélagið leysist upp. Þá taka völdin þeir sem svíkja og hunsa munaðarleysingjana, fátæklingana og ekkjurnar í leit að skjótum gróða. Í landi skeytingarleysisins og sjálfhverfunnar, kenna prestarnir að eigin geðþótta það sem fellur í kramið hjá þjóðinni. Sannleikurinn verður afstæður og notaður í þágu hins sterka.

Jeremía 4. kafli

Uppgjör, ákall til að snúa frá villu vega, ákall um að endurvekja traustið á Dorttin. Jeremía kallar landa sína til að opna sig gagnvart Guði, koma fram fyrir Drottin án feluleiks. Framundan er innrás, auðn og eyðilegging. Vanmátturinn að horfast í augu við sjálfan sig, ganga inn í eigin sjálfhverfu, illsku og eigingirni gerir okkur bitur og leiðir til þess að við gerum illt.

En mitt í aðkomandi eyðileggingu, klæðist sjálfumhverft fólkið skarlati, skreytir sig með gulli og faðrar augun, láta sem ekkert sé fyrr en það er of seint.

Jeremía 2. kafli

Guð er gleymdur, nema á degi neyðarinnar. Íbúar Jerúsalem hafa snúið baki við skapara sínum. Sjálfhverfan og fullvissan um eigið ágæti hefur leyst af hólmi auðmýkt gagnvart Guði. Sagan og traustið til Guðs er gleymt, guðirnir sem eru dýrkaðir eru sjálfgerðir, hver borg hefur gert guði eftir eigin mynd.

Sektin felst í því að neita að horfast í augu við misgjörðirnar. Að fullyrða, “ég hef ekki syndgað.” Að neita að horfast í augu við óréttlætið meðan blóð fátæklinganna litar klæðafald okkar.

Jeremía 1. kafli

Spádómsbók Jeremía lýsir viðvörunum spámannsins og áminningu til landa sinna, en ekki síður fjallar hún um glímu spámannsins við sjálfan sig og köllun sína. Þannig sér spámaðurinn þörfina á að boðskapurinn sem hann telur sig hafa frá Guði heyrist, en óskar sér þess að hann þurfi ekki að sjá um flutninginn. Jeremía telur sannleikann mikilvægari en eigin velferð, þó það sé alls ekki alltaf auðvelt.

Eftir að ritari tímasetur líf Jeremía Hilkíasonar á tímabilinu milli fyrri og síðari Herleiðingarinnar, eða á árabilinu 597-587 f.Kr. hefst glíma Jeremía.

Hann veit sem er að hann á að fara og benda á misgjörðir samfélagsins, hann upplifir köllun sína sem Guðs útvalningu, en Jeremía upplifir sig takmarkaðan, “ég er enn svo ungur.” Guð lofar Jeremía ekki auðveldu lífi, fullyrðir að á hann verði ráðist, en hlutverk hans sé að tala sannleikann og hjálpa þjóð sinni að horfast í augu við stöðu sína.

Spámenn Gamla testamentisins

Spámenn Gamla testamentisins mynda stóran hluta Biblíunnar sem heildar. Þegar við nálgumst spámennina þá er mikilvægt að hafa í huga að þeir standa fyrir mismunandi hópa, svæði og hugmyndir. Í einhverjum tilfellum má jafnvel hugsa sér að skrif einstakra spámanna eða hópa spámanna séu með beinum hætti að bregðast við og gagnrýna hugmyndir annarra spámanna. Þannig sjá sumir skrif þriðja Jesaja í 56.6-8 sem beina gagnrýni á einangrunarhyggju Esekíels. Continue reading Spámenn Gamla testamentisins

Lestrarverkefni í bið

Undanfarna þrjá mánuði hef ég skráð hér á síðuna viðbrögð mín og hugsanir þegar ég les í gegnum Biblíuna, einn kafla á dag. Verkefnið hefur verið gefandi og skemmtilegt en þar sem framundan eru miklar breytingar hjá mér og fjölskyldu minni á næstu fjórum mánuðum, ferðalög, flóknir flutningar, nýir vinnustaðir, nýir skólar hjá börnunum ásamt nýjum tækifæri og margvíslegum hindrunum, þá ætla ég að setja verkefnið í bið í bili.

Næsti texti sem ég hafði hugsað mér að taka fyrir var Spádómsbók Jeremía en hún hefst á köllunarfrásögn sem mér þykir vænt um. Framundan er að takast á við svar fjölskyldunnar við næstu köllun okkar. Afsökun Jeremía “En ég er enn svo ungur” á líkast til ekki við, svo um fátt annað að ræða en að takast á við framtíðina.

Ljóðaljóðin 5. kafli

Eftir að þau sofa saman, virðist karlinn fara á braut. Kórinn spyr hvers konan sakni og hún lýsir fegurð elskhuga síns.

Hjalti bendir á mögulega tengingu Ljóðaljóðanna við frjósemisdýrkun miðausturlanda árþúsundið fyrir Krist í ummælum við fyrri kafla. Sé sú raunin, liggur beinast við að lesa inn í textann hugmyndir um árstíðir og hringrás lífsins. Ástmaðurinn sem kemur og fer gæti verið tákn vorsins. En ég veit það samt ekki.

Ljóðaljóðin 4. kafli

Hafi kynferðisleg skýrskotun textans farið fram hjá einhverjum fram til þessa þá þarf ekki að velkjast í vafa lengur. Líkingamálið verður vart augljósara, þegar karlinn hefur lýst fegurð konunnar þá býður hún honum í rúmið með sér.

Ljóðaljóðin 2. kafli

Ástarjátningarnar halda áfram. Það er sjálfsagt margt táknrænt þar að finna, ég rek augun í að rúsínukökur eru á meðal þess sem brúðurin borðar. Þessi tilvitnun gefur til kynna að textinn sé e.t.v. ekki upphaflega úr Jahve hefð, enda er rúsínukökuátt tengt skurðgoðadýrkun í einu spádómsriti Gamla testamentisins (sjá betur síðar).

Á sama hátt má sjá í 2. kaflanum vísanir til frjósemisdýrkunar, m.a. í vísunum til vorsins, þegar lífið vaknar, þegar elskhuginn kemur af fjöllum.

Galatabréfið 6. kafli

Við eigum að leitast við að leiðrétta hvort annað. Við eigum að stunda sjálfskoðun, koma fram af hógværð og gera gott. Það stingur reyndar í augun þegar Páll segir “einkum trúsystkinum okkar.” Þó má benda á að hann notar “einkum,” ekki “einungis” eða “bara”. Það er samt spurning hversu mikil huggun það er.
Continue reading Galatabréfið 6. kafli