Galatabréfið 5. kafli

Það að leitast við að fylgja lögmálinu til að tryggja sér á einhvern hátt náð Guðs, er yfirlýsing um að náð Guðs sé skilyrt og með slíkri yfirlýsingu gerum við lítið úr náðarverki Guðs, þá gerum við lítið úr Kristi.

Páll bendir á hvernig skilyrt náð leiði til hvers kyns vondra verka, flokkadráttar og deilna, metings og eigingirni. En traust til andans leiði til góðra hluta.

Það er tvennt guðfræðilegra pælinga sem er vert að tæpa á. Annars vegar notar Páll iðulega orðið Kristur en ekki Jesús, sem hefur fengið suma til að velta upp krítískum spurningum um meint tengsl Páls og Jesús eða öllu heldur skort þar á. Þannig virðist Páll með orðanotkun sinni allt að því líta fram hjá mannlegum veruleika Jesús. Á sama hátt og ég er stundum sakaður um að lesa of mikið inn í texta, þá held ég að slík gagnrýni sé einnig innlestur.

Hitt er aðgreining Páls milli holds og anda og vangaveltur um hvort að hér sé um gnóstíkar hugsanir að ræða. Stutta svarið er nei, en um leið er ljóst að grísk tvíhyggja er sjáanleg í þessum pælingum. Ég mun e.t.v. fjalla meira um þetta síðar.