Stolt vs. auðmýkt

Það lýsir vanda mínum í lífinu líklega best að ég veit ekki hvort stolt er skrifað með einu eða tveimur L-um. Ef til vill er það samt kostur að vita það ekki. Það flækir nefnilega veröldina verulega að mega ekki gefa eftir.

Vitneskjan um að ég er syndugur maður auðveldar mér nefnilega að sýna auðmýkt og viðurkenna þegar mér verður á.

Ekki segja ekki

Í dag hef ég setið áhugavert námskeið hjá Sæmundi Hafsteinssyni sálfræðing um samskipti. Þar talaði Sæmundur m.a. um jákvæð og neikvæð skilaboð og útskýrði á áhrifamikinn hátt hvers vegna “ekki” skilaboð virka ekki. Þar benti hann á að heilinn gerir sér alltaf mynd af því sem gera á. “Ekki” skilaboð kalla fram mynd af atburði sem ekki á að eiga sér stað en eykur jafnframt líkur á að við framkvæmum hann.