Um afskipti ríkisvalds

Í dag hefur verið í fréttum skýrsla frá starfshópi á vegum Forsætisráðuneytisins um stöðu samkynhneigðra. Þar vekur athygli mína þessi setning, sem birtist í skýrslunni:

Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til þess breyta afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör. Slík afstöðubreyting er að mati nefndarinnar forsenda þess að unnt verði að breyta hjúskaparlöggjöf í þessa átt.

Ég verð að segja að mér líkar ekki að nefnd á vegum ríkisins leitist við að hafa áhrif á boðun einstakra trúfélaga. Slíkar aðferðir eru mér vægast sagt ógeðfelldar. Enn verr er mér við að sjá að nefndin telji að skoðun einstaks trúfélags komi í veg fyrir að hægt sé að stíga jákvæð skref í mannréttindaátt.

17 thoughts on “Um afskipti ríkisvalds”

  1. Meðan ekki er skorið á tengsl ríkis og Þjóðkirkju að fullu leyti er ekkert athugavert við að ríkið geri athugasemdir við það hvernig þessi kirkja kemur fram gagnvart þegnum þjóðarinnar. Staðreyndin er sú í dag að Þjóðkirkjan mismunar fólki. Staðreyndin er sú að í forsvari fyrir þetta apparat eru aðilar sem líta á samkynhneigð sem synd. Lausnin á þessu er einföld, það þarf að slíta á öll tengsl ríkis og kirkju.

  2. Það er augljóst að skýrsluhöfundar eru sammála Matta. Ríkið hefur heimild til að skipta sér af innri ákvörðunum kirkjunnar og þeirri fullyrðingu að þjóðkirkjan mismuni fólki. Ég held að við sem berum hag kirkjunnar fyrir brjósti hljótum að hræðast svona afskipti og taka undir orð Matta:

    Lausnin á þessu er einföld, það þarf að slíta á öll tengsl ríkis og kirkju.

  3. Ég vil vitna í Andra Óttarsson sem skrifar á deiglunni í pistlinum Réttarstaða samkynhneigðra: “Það verður að teljast algjörlega óþolandi að ríkisstofnun sé að mismuna fólki og ala á fordómum með þessum hætti. Það er þess vegna staðföst trú undirritaðs að ef þjóðkirkjan hverfur ekki frá kreddum sínum varðandi samkynhneigða sé aðskilnaður ríkis og kirkju óumflýjanlegur.” Skemmtileg grein? Annars verður aðskilnaður hvað sem þessu líður 🙂

  4. Nefndin skorar einnig á þjóðkirkjuna að breyta afstöðu sinni til hjónabands samkynhneigðra … Í dag er staðan þannig að skv. lögum um staðfesta samvist geta einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra verið framkvæmdaðilar hennar en það útilokar kirkjulega athöfn skv. 17. gr. hjúskaparlaga. Telur nefndin að kirkjan þurfi að breyta afstöðu sinni til þessara mála til að hægt verði að breyta íslenskum lögum á þann hátt að prestar geti einnig staðfest samvist.

    Þessi áliktun nefndarinnar er RÖNG en kallar á þessi ólíðandi afskipti af innri málum kirkjunnar. Annars vegar væri hægt að fella út 17. gr. hjúskaparlaga og aðskilja trúarlega og veraldlega þátt hjónavígslunnar. Hins vegar mætti setja inn heimildarákvæði til handa prestum og forstöðufólki trúfélaga til að annast lögformlegan þátt staðfestrar samvistar. Hvor leiðin sem væri farin kemur kirkjunni EKKI við.

  5. En samkvæmt mínum heimildum hefur Kirkjan lobbíað mjög mikið gegn þessháttar breytingum á lögum. Kirkjan er nefnilega ekki bara stofnun, hún er líka þrýstihópur.

  6. Það er örugglega rétt hjá Matti. Biskup hefur t.d. barist gegn slíku. Hins vegar ítreka ég orð mín í upphafi:

    Enn verr er mér við að sjá að nefndin telji að skoðun einstaks trúfélags komi í veg fyrir að hægt sé að stíga jákvæð skref í mannréttindaátt.

    Sér í lagi þar sem alls ekki allir í trúfélaginu eru samstíga í viðkomandi máli.

  7. Skúli, þetta er út úr kú hjá nefndinni einmitt vegna skrifa Lúthers.

    Þar sem hjúskapurinn er veraldleg stofnun eiga prestar kirkjunnar ekki að skipa neinu þar um heldur á að leyfa hverju landi og hverri borg að halda áfram að iðka sína siði og háttu.

    Þegar til þess bær stjórnvöld þora EKKI að leiðrétta lagasafn sitt af hræðslu við kirkjuna, þá eru prestarnir byrjaðir að skipa til um það sem þeim er EKKI ætlað.

  8. Ég held að kirkjan geti ekki verið í raunverulegri sambúð við ríkið. Eins og Guðm. Karl Brynjarsson bendir á í Fréttablaðinu þá er ekki alltaf hægt að þjóna tveimur herrum.

  9. Sambúð sem byggð er á herravaldi er hrollvekjandi hvort sem er og sjálfri stendur mér stuggur af því sem saga mannsins hefur framkvæmt í nafni alls kyns herravalds. En þarf þetta að vera svona dramatískt? Er ekki hægt að tala um fólk sem stendur á sama gólfi við sama borð og leitast við að tala saman?

  10. Auðvitað er eðlilegt að talað sé saman. Fjölmiðlafundir þar sem stjórnvöld fullyrða að kirkjan dragi lappirnar og komi í veg fyrir réttindi samkynhneigðra eru hins vegar allt annað en eðlilegt samtal. Mín skoðun er sú að stjórnvöldum beri skylda til að tryggja réttindi ALLRA þegna sinna og tilraunir til að varpa ábyrgðinni á aðra, í þessu tilfelli kirkjuna, eru óásættanlegar. Í niðurstöðu skýrslunnar er EKKI borin virðing fyrir því samtali sem hefur átt sér stað milli kirkjunnar og stjórnvalda. Kirkjan hefur gert grein fyrir skoðun sinni (skv. skýrslunni) og viðbrögð sambúðaraðilans er að birta opinberlega hvatningu um að þeirri skoðun verði breytt. Mun eðlilegra hefði verið að birta í skýrslunni greiningu á stöðu málefna samkynhneigðra innan kirkjunnar, en láta vera að hvetja til endurskoðunar, alla vega opinberlega eins og gert var.

  11. Þessu er ég hjartanlega ósammála og held raunar að öll hvatning til endurskoðunar sé elsta og fyrsta boð kristindómsins. Þar sem þetta er fjarri því að vera sinnulausar skipanir eða hávaðasamar fullyrðingar, sem hvoru tveggja er leiðingjarn talsmáti og á stundum misbeiting á valdi og skortur á upplýsingu, þá get ég ekki séð af hverju þetta er svona hróplegt. En látum það liggja á milli hluta. Ég skil að sumum hópum innan kirkjunnar er mikið niðri fyrir hvað þennan einstaka málstað snertir og ætla ekki að fara út í þær flækjur. Athyglisvert verður hins vegar að sjá hvort málið verður hugsanlega ögrun við mægðir kirkjunnar við ríkisvaldið. Það væri þá ásteytingarsteinninn!

  12. Líklega er pirringur minn of mikill miðað við tilefnið og stafar líklega af því að ég tel aðskilnað ríkis og kirkju mikilvægan svo kirkjan fái vaxið og dafnað. Eins er ég ósáttur við að ríkið telji hendur sínar bundnar í málefnum samkynhneigðra vegna þess að biskupinn er íhaldssamur. Ég tek undir með þér að málefni samkynhneigðra eru slæmur ásteytingarsteinn per se. Hins vegar lýsir þetta mál að mínu mati upp þau vandamál sem hrjá sambandið, hér er um einkenni að ræða ekki sjúkdóminn sjálfan.

Comments are closed.