Er starf kirkjunnar með börnum slæmt?

Í dag var vangaveltna- og rökræðudagur hjá mér. Ein af glímunum sem ég þurfti að fást við, reyndar mestmegnis inni í mér, var spurningin um samband kirkju og skóla. Eða e.t.v. kirkju og frístundaheimila ÍTR.

KFUM og KFUK í samstarfi við Grensáskirkju tók upp þá nýbreytni í haust að bjóða 6-9 ára börnum í frístundaheimilum ÍTR í sókninni upp á að koma í kirkjustarf vikulega og taka þar þátt í klukkustundar dagskrá. Til að auðvelda framkvæmdina er boðið upp á rútuferð til og frá frístundaheimilunum fyrir og eftir stundina. Til að börnin megi taka þátt þurfa þau að hafa skriflegt leyfi hjá foreldrum. Þessi aðferð var tekin upp m.a. til að mæta þeim hugmyndum að reyna að ljúka tómstundastarfi þessara barna fyrir ákveðinn tíma líkt og ÍTR hefur lagt áherslu á. Eins er talað á vef ÍTR um að:

Innra starf frístundarheimilanna, svo sem dagskrá, viðfangsefni og samstarf við utanaðkomandi aðila fer eftir aðstæðum á hverjum starfstað fyrir sig. Nefna má að mörg Frístundaheimilin eru í hverfasamstarfi við skáta, kirkju og fleiri aðila til að auka á fjölbreytileikann í starfseminni.
Öllum sex ára börnum býðst ókeypis íþróttaskóli sé því við komið vegna aðstæðna. Um er að ræða eina kennslustund í senn, tvisvar í viku á vegum íþróttafélags viðkomandi hverfis. Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur yfirumsjón með íþróttaskólunum.

Reglum um skriflegt leyfi er beitt til að tryggja að foreldrar veiti samþykki sitt fyrir þátttökunni, enda kemur skýrt fram að um sé að ræða starf á trúarlegum grunni. Eins förum við þá leið að sækja börnin á rútu og fara með þau í kirkjuna til að ekki komi fram gagnrýni á að starfið sé á vettvangi ÍTR.

Nú hafa hins vegar komið fram áhyggjur af að börnum sem ekki taka þátt sé mismunað, þau upplifi vini sína fara í spennandi starf í rútu og því sé hugsanlega ástæða til að leggja starfið af eða finna því annan vettvang. Þessum þönkum/áhyggjum þarf að svara. Ég vil leggja spurninguna upp: Er kirkjan með því að bjóða upp á starfsemi að mismuna börnum einfaldlega vegna þess að starf kirkjunnar er trúarlegt?

Það fara ekki öll börn í kirkjustarfið, ekki frekar en til skátanna, í handbolta eða karate, svo dæmi sé tekið. Er kirkjutilboðið eins og við leggjum það upp meira ögrandi en hinir hóparnir? Ég skil ekki að svo sé. Hins vegar finnst það einhverjum og mikilvægt að við getum brugðist við því. Hvernig? Ég veit ekki!

28 thoughts on “Er starf kirkjunnar með börnum slæmt?”

  1. Til hvers að ræða þetta Halldór minn. Við trúleysingjar munum benda á að þetta er afkáranlegt, það er jafn rangt að aðgreina börn útfrá trú og það er að aðgreina börn útfrá kynætti eða stjórnmálaskoðun foreldra. Trúaðir munu aftur á móti halda því fram að þetta sé uppbyggilegt og eina leiðin til að forða börnum frá glötun (áfengi og eiturlyfjum) Eftir þrjátíu komment verður þú orðinn leiður og lokar umræðunni 😉

  2. Ég vil meina að við höfum í þessu tilfelli sett inn margvíslega varnagla, m.a. til að taka tillit til athugasemda þinna Matti á vef þínum. En jafnframt leitumst við eftir að fylgja óskum ÍTR um að hafa tómstundastarf fyrir börn á vinnutíma foreldra. Er það mat þitt að kirkjustarf fyrir börn eigi einfaldlega ekki rétt á sér? Eða öllu heldur. Felst aðgreining í því að börnum sé boðið að taka þátt í kirkjustarfi? Auðvitað stoppa ég umræðuna fljótlega, en mér finnst þessar spurningar samt sem áður áhugaverðar. 🙂

  3. Felst aðgreining í því að börnum sé boðið að taka þátt í kirkjustarfi?

    Já. Átti samtal um áfallahjálp. Getur kirkjan ekki unnið samfélagslegt starf án þess að stunda trúboð? Ég er ekki að krefjast þess að kirkjan komi hvergi nærri, ég fer fram á að hún taki þátt á öðrum forsendum.

    En jafnframt leitumst við eftir að fylgja óskum ÍTR um að hafa tómstundastarf fyrir börn á vinnutíma foreldra.

    Þið eigið að benda ÍTR á að óskir þeirra eru óréttlætanlegar, það á ekki að bjóða upp á starf þar sem gert er upp á milli krakka vegna trúarskoðana, sérstaklega ekki ef það starf er kostað með skattfé. Ekki er hægt að líkja þessu við handbolta eða karate, þar er hvergi spurt um trú. Þið spyrjið um trú, starf ykkar með börnum snýst um trú. Það þarf að senda kvörtun til ÍTR útaf þessu, það er ekki hlutverk ÍTR að stuðla að því að börn séu kristnuð.

  4. Ég bara skil ekki þessa umræðu. Er ekki alveg sins verið að mismuna börnum út frá fjárhag, menntun og áhugamálum foreldra ef sumum gefst kostur á að taka þátt í skátastarfi, stunda tónlistarnám eða sækja dansnámsskeið? Glætan að ég tæki það til greina að láta barnið mitt ekki fara á reiðn+amskeið af því að önnur börn gætu orðið öfundsjúk. Kristið fólk hefur fullan rétt á því að bjóða sínum börnum upp á hverja þá tómstundastarfsemi sem því bara sýnist. Eins og við hin. Hvað innrætinguna varðar þá hlýtur fólk alltaf að innræta börnum sínum þær skoðanir sem það sjálft aðhyllist. Sunar skoðanir kunna að vera kjánalegar, jafnvel rangar en fólk hefur þennan rétt sem foreldrar og basta.

  5. Ferðalög og vettvangsferðir, útileikir, dagblöð í skólastarfi, skólakór, skólalúðrasveit, dans, útvarpsrekstur, handmennt. Þetta er listi yfir klassískar tómstundaiðkanir fyrir börn á grunnskólaaldri. Trúariðkun er í grundvallaratriðum frábrugðin ofantöldum tómstundum, mér finnst það stórmerkilegt að eingöngu trúlausir skuli sjá það. Eva, ertu að segja að fyrst hvort eð er sé verið að mismuna börnum út frá fjárhag, menntun og áhugamálum foreldra, að það hljóti þá að vera í lagi að mismuna út frá trúarskoðunum líka? (ég efast um að þú meinir það, hljómar bara þannig) Það er rétt hjá þér Eva að kristið fólk hafi fullan rétt á því að senda börnin sín í heilaþvottinn, en af hverju er það ekki augljóst að þetta á ekki heima í skólunum? Eiga skólar ekki að varast það, að innræta börnum hugmyndir, sem kunna að vera kjánalegar og jafnvel rangar, þó að foreldrar hafi þann rétt?

  6. Björn Darri, í þessu tilfelli erum við einmitt að tala um að starfsemin fer EKKI fram í skólanum eða í beinum tengslum við skólann. Hins vegar er sú leið farin að bjóða þetta á sama tíma og frístundaheimili ÍTR er opið og börnin sem hafa skriflegt leyfi foreldra sinna séu sótt þangað. Ég veit til þess að nú þegar hefur verið komið á framfæri athugasemd til ÍTR vegna þessa. Þetta mál er að sjálfsögðu ekki á forræði kirkjunnar og þar sem mér er ómögulegt að skilja muninn á karate og kirkju, enda bæði með mjög sterkar trúarlegar tilvísanir, þá munum við að sjálfsögðu ekki aðhafast nema ÍTR sjái að sér og vilji ekki hleypa börnunum út í kirkju. Varðandi hitt að við séum að kristna börnin, þá lít ég ekki svo á. Hins vegar bjóðum við kristnum börnum upp á fræðslu og leik til að auka skilning þeirra á inntaki trúarinnar sem foreldrar þeirra kjósa að þau aðhyllist.

  7. “Hins vegar bjóðum við kristnum börnum upp á fræðslu…” Hér finnst mér að við ættum að staldra við og spyja okkur í fúlustu alvöru: Er eitthvað til sem heitir kristið barn? Getur barn verið búið að taka upplýsta ákvörðun um þetta? Er það ekki bara að enduróma það sem fullorðnir eru búnir að fylla hausinn af því af, í fullkomnu og barnslegu trúnaðartrausti? Er ekki barasta glæpur að vera að innræta börnum trú? Á ekki að leyfa fólki að ráða þessu sjálft, taka upplýsta ákvörðun þegar það hefur vit og þroska til?

  8. Ég sé að ég var ögn fljótur á mér að tala um þetta starf, eins og það fari fram innan veggja skólanna. Það sem kemur mér hinsvegar aðallega á óvart er eftirfarandi:

    mér er ómögulegt að skilja muninn á karate og kirkju

    Það er einmitt þetta sem mér finnst stórmerkilegt, eða réttara sagt, stórfurðulegt. Ég var í karate sem barn og það eina “vafasama” sem minnst var á þar, var þessi svokallaði chi kraftur, ekki eitthvað sem ég myndi kalla “mjög sterka trúarlega tilvísun”, þú hefur kannski fleiri og betri dæmi um það?

  9. Birgir, ef þú ert sannfærður um að trú sé blekking, þá er glæpur hjá þér að leitast við að innprenta hana í börn. Það er rétt hjá þér. Hins vegar ef ég er sannfærður um að trúin geti gert börnin að betri einstaklingum, þá er glæpur ef ég boða ekki trú mína. Um það snýst einfaldlega málið.

  10. Björn Darri, ég skal fúslega viðurkenna að ég er ekki mjög karate-sinnaður maður. Hitt veit ég að litir beltanna, hugtök sem notuð eru og tilvísanir í yfirnáttúrulega krafta byggjast á trúarlegum hugmyndum. Í karate eru mjög sterk rituöl sem ber að fylgja svo dæmi sé tekið. Það er reyndar ekki ósennilegt að þær nálganir séu ekki áberandi á Íslandi og líklega vel útþynntar en eru þar samt sem áður. Eins er að sjálfsögðu eðli varnaríþrótta að einhverju leiti trúarlegt. Hins vegar hef ég ekki skoðað þetta sérstaklega og treysti mér ekki til að rökstyðja þennan skilning minn frekar.

  11. Ég skal sleppa þér við frekari rökræður um trúarstef i sjálfsvarnaríþróttum :), enda enginn sérfræðingur í því frekar en þú. Það sem ég vil vita er, hvort þú í raun og veru setur samasemmerki milli kirkju annarsvegar og almennrar tómstundaiðkunar hinsvegar? Geturðu virkilega ekki sett þig í spor okkar trúleysingjanna og séð þennan reginmun sem er á þessu tvennu? Svo að ég komi nú í veg fyrir allan miskilning, þá er reginmunurinn í mínum huga sá, að í almennri tómstundaiðkun er ekki reynt að troða ósönnuðum staðhæfingum inn í hausinn í saklausum börnum (dæmi um ósannaða staðhæfingu: Jesú gekk á vatni).

  12. Ég skil vel að í þínum huga er reginmunur á þessu tvennu og ég viðurkenni hann með því að óska eftir skriflegu samþykki foreldra fyrir því að 6-9 ára börn taki þátt í starfinu. Jafnvel þrátt fyrir að skuldbindingar sem foreldrar taki á sig í skírninni ættu að vera fullnægjandi. Í mínum huga er hins vegar ekki þessi eðlismunur á kirkjulegu tómstundastarfi og öðrum tilboðum. Reginmunurinn liggur að sjálfsögðu í mismunandi skilningi okkar. Það sem ég er að reyna að fá fram er hvernig get ég komið til móts við þá foreldra sem vilja ekki að börnin taki þátt í kirkjustarfi, án þess að brjóta á foreldrum þeirra barna sem vilja vera með?

  13. Tja, þið gætuð boðið upp á tómstundastarf þar sem vísindaleg heimsmynd og heilbrigð skynsemi væri höfð að leiðarljósi í stað hinnar stöðnuðu heimsmyndar kristninnar. Ég myndi glaður starfa sem sjálfboðaliði í slíku starfi, þótt það væri á vegum Kirkjunnar. Bara hugmynd.

  14. Það sem Björn Darri segir. Bjóðið einfaldlega upp á tómstundastarf án trúarítroðslu. Varla er það ykkur um megn.

    Hins vegar ef ég er sannfærður um að trúin geti gert börnin að betri einstaklingum, þá er glæpur ef ég boða ekki trú mína. Æjæjæjæ, Halldór. Þettu eru náttúrulega ekkert annað en gargandi fordómar í garð þeirra sem ekki trúa. Sorglegt að sjá þetta 🙁

  15. En það er einmitt málið. Fyrir mér er heimsmynd kristninnar ekki stöðnuð. En þú ert samt alltaf velkomin í sóknarkirkjuna þína í kaffi.

  16. Matti, þú miskilur mig alfarið. Ég fullyrði ekki að trúin geri börn að betri einstaklingum heldur einfaldlega að hún geti gert börn að betri einstaklingum. Ég loka ekki á aðra möguleika, ég fullyrði ekki að trúin ein sé lausn á öllum vandamálum, ég geng ekki einu sinni svo langt að halda því fram að ekki séu til betri leiðir. Þannig að hér er í engu um fordóma að ræða.

  17. En nú fer varla nokkur í grafgötur með eðli kirkna! Ef foreldrar og börn eru á eitt sátt með þátttöku í kirkjulegu starfi er ekki verið að troða neinu í neinn. Það væri óeðlilegt ef kirkjan mætti ekki tala um trúmál á sínum eigin vettvangi. Þá mætti allt eins banna Val, KR, Þrótti og fleirum að kenna börnum að sparka í bolta á æfingasvæðum félaganna. Eða að stjórnmálaflokkar megi ekki ræða pólitík á eigin fundum vegna áróðursgildis? Upplýst samþykki eða ákvörðun getur aldrei orðið ef fólk fær ekki upplýsingar. Skeytingarleysi eða andstaða um trúfræðslu er líka trúarleg afstaða og sem slíkri er allt eins hægt að kenna hana börnum. Það væri í hæsta máta einkennilegt ef kirkja framgengi á slíkan máta.

  18. Ég skil vel að í þínum huga er reginmunur á þessu tvennu og ég viðurkenni hann með því að óska eftir skriflegu samþykki foreldra fyrir því að 6-9 ára börn taki þátt í starfinu. Jafnvel þrátt fyrir að skuldbindingar sem foreldrar taki á sig í skírninni ættu að vera fullnægjandi.

    Ertu virkilega að segja það að með því að skíra börnin sín að þá séu forleldrarnir að gefa kirkjunni skotleyfi á börnin? En hvað fyndist ykkur ef að þetta væri ekki trúarleg stofnun heldur pólítísk?

  19. Ólöf, þótt foreldrar og börn séu á eitt sátt með þáttöku kirkjunnar í tómstundastarfi (börnin vita náttúrulega ekki betur), er samt sem áður verið að troða ósönnuðum staðhæfingum í sakleysingja, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, ekki satt? Í mínum huga er það náttúrulega mikil synd að foreldrar geti í raun og veru innrætt börnum sínum hvaða vitleysu sem er, án þess að nokkur megi raunar skipta sér af því, en það er efni í aðra umræðu.

  20. Trúariðkun getur verið eins og hvert annað hobbý. Alveg eins og afstaða til t.d. knattspyrnufélaga getur farið út í það að bera keim af trúarofstæki. Ég held að flest börn sem taka þátt í tómstundastarfi af þessu tagi þroskist upp úr heilaþvættingnum ef foreldrarnir eru ekki þeim mun staðfastari.

  21. Þetta er örugglega hárrétt hjá þér Eva, mér finndist samt betra ef trúarinnrætingunni væri einfaldlega sleppt í stað þess að treysta á að börnin séu nógu klár og sjálfstæð til að átta sig á ruglinu, þetta væri eins og að segja þeim aldrei að jólasveinnin væri í raun ekki til, heldur gera ráð fyrir því að þau fatti það sjálf. Fullorðnir verða að sýna börnum að þeir séu traustsins verðir.

  22. Hvernig væri að slappa aðeins af krakkar. Ef foreldrarnir hafa ekkert á móti því að börnin sæki kirkjulegt barnastarf… börnin mæta í barna starfið…hvað er þá vandamálið. Foreldrar hljóta að mega beita þeim uppeldis aðferðum sem þeim henntar og þeir hafa trú á að gagnist börnunum sínum. Að bjóða upp á eina tegund af barnastarfi (nánast alveg sama hvernig) mismunar engum. Move on

  23. Að bjóða upp á eina tegund af barnastarfi (nánast alveg sama hvernig) mismunar engum.

    Ég held ég hafi reynst sannspár í fyrstu athugasemdinni. Þetta er gjörsamlega tilgangslaus umræða. Trúmenn munu aldrei, geta aldrei, séð eithvað athugavert við trúboð. Það er eðlismunur á kirkjustarfi og karate, jafnvel þó Halldór reyni að líkja því saman og jafnvel þó ýmis hindurvitni séu í kringum sumar bardagaíþróttir. Á tímum fjölmenningar á ÍTR að stuðla að félagsstarfi sem sameinar ólíka hópa, ekki starfi sem hentar bara þeim sem játa ákveðinn heilaþvætting. Þó flest börn þroskist upp úr þessu sitja mörg eftir með magnaðar ranghugmyndir um heiminn. Skoðið bara hugarheim krakkanna í kss, þar er furðuleg forneskja í gangi á 21. öldinni.

  24. Matti, ég er ósammála þér með tilgangsleysi umræðunnar. Hún hefur skilað mér ákveðnum skilningi sem ég hafði ekki áður. Hins vegar er ég sammála þér um að líkast til er rétt að loka í kringum innlegg þrjátíu og ég geri það því hér með.

Comments are closed.