Stofnlíkön fara í taugarnar á mér!

Ég fór á fund Skotvís í gær um Rjúpnaveiðibannið, mætti reyndar örlítið of seint. Erindin í upphafi voru áhugaverð, erindi Dr. Ólafs K. Nielsen, andsvör Ólafs Karvels Pálssonar og umræða Áka Ármanns Jónssonar um veiðikortakerfið. Að því loknu tóku síðan við fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Fyrstur kom í pontu Guðjón Ólafur Jónsson sem af einhverjum stórundarlegum ástæðum var sagður talsmaður Framsóknarflokksins. Hann nýtti tækifærið og skaut á Siv Friðleifsdóttur, var með niðurlægjandi ummæli um Framsóknarkonur og hegðun hans var flokknum og þó sér í lagi honum sjálfum til skammar.

Guðlaugur Þór og Kolbrún Halldórsdóttir komu fram í sitt hvoru lagi, Guðlaugur lagði áherslu á frelsi einstaklingsins í náttúrunni en Kolbrún á að ef vafi væri til staðar ætti náttúran að njóta hans. Þau sluppu vel frá þeim skoðunum sínum, Kolbrún þó mun betur, enda greinilegt að málið hafði verið rætt af alvöru hjá Vinstri grænum.

Innlegg Marðar Árnasonar var minnistætt fyrir eitt. Í stað hugtaksins stærðfræðingar notaði hann hið skemmtilega hugtak reiknimenn. Ég vona svo sannarlega að konan mín breyti starfheitinu í símaskránni í samræmi við hugmyndir Marðar. Að öðru leiti sagði Mörður ekki neitt sem að gagni kann að koma. Þegar guðleysingjanir á vefnum kvarta undan afstöðuleysi kirkjunnar í ýmsum málum þá ættu þeir að líta til Samfylkingarinnar, þvílíkt kjaftæðishnoð – samræðustjórnmál. En við eigum víst að líta hnattrænt á stöðu veruleikans í málefnum sem varða afstöðu vísindamanna til hugmynda skotveiðimanna til viljans til að stunda áhugamál sem felst í því að vera í náttúrunni og afla sér fæðu með því að skjóta fugla. Ekki kannski orðrétt, en innihaldið var eitthvað á þessa leið.

Síðasti stjórnmálamaðurinn sem tók til máls var Sigurjón Þórðarson. Hans innlegg fólst í upphrópunum, rangfærslum og hinni stórkostlegu setningu: Stofnlíkön fara í taugarnar á mér. Hann hafnaði alfarið hugmyndum um tilraunir til að áætla stofnstærðir einstakra dýrategunda fram í tímann. Það væri enda ljóst að ef við dræpum dýr í miklu magni, væri meira pláss fyrir eftirlifendur og önnur afföll en vegna veiðinnar minnkuðu gífurlega. Þessi fullyrðing hafði reyndar verið hrakinn í máli Dr. Ólafs í upphafi, en Sigurjón er snillingur og átti ekki í vandræðum með að afgreiða Dr. Ólaf. Orð Sigurjóns voru eitthvað á þessa leið: Hvað eigum við að taka mark á sænskri rannsókn… Ég sem hélt að það væri ekki til verri stjórnmálamaður en Guðjón Ólafur.

Það var skrítið að yfirgefa Norræna húsið hafandi hlustað á fimm stjórnmálamenn og komast að þeirri niðurstöðu að aðeins tveir þeirra gerðu minnstu tilraun til að vera málefnalegir og faglegir í umfjöllun sinni. Hinir virtust gera það eitt sem lítur út fyrir að vera líklegt til vinsælda á viðkomandi stað og stund. Það sem var enn verra var að heyra að á Alþingi skuli sitja menn sem virðast hafa andstyggð og skömm á vísindalegum vinnubrögðum og faglegri umfjöllun.