Gleði er ofmetin!

Einn af skrautlegum fræðimönnum sem ég hef hitt stuttlega hér í BNA er Israel Galindo. Nýlega sá hann ástæða til að skrifa bloggfærslu sem ég vil halda til haga. Ég vil jafnframt taka fram að vísunin í færsluna hans merkir ekki að ég sé að fullu sammála öllu sem hann heldur fram, en lokaorðin eru sérlega áhugaverð að mínu mati.

Vangaveltur um kirkjuna, stjórnmál og Framsóknarflokkinn

[google 4594676550791662051]

Ég skrifaði og flutti hugleiðingu fyrir lokakvöld starfsfólks í Vatnaskógi. Það er smátruflun á myndinni í upphafi. Hugleiðingin var reyndar ekki notuð, þar sem hún var of löng, en hún hefur erindi til okkar í dag. Hugleiðingin sem var notast við á lokakvöldinu er hér.

Fyrir samviskusama lesendur Annáls Ella, er rétt að benda á að nokkur stef úr Nýársprédikun í Grensáskirkju sem var birt hér á annálnum voru fengin úr þessari hugleiðingu.

Fermingarferðalög

Sú niðurstaða Menntamálaráðuneytisins að ekki sé heimilt að veita börnum leyfi frá skóla til að taka þátt í fermingarfræðslu er áhugaverð, en augljóslega röng.

Það er auðvelt og sjálfsagt að samþykkja þá niðurstöðu ráðuneytisins að skólum sé óheimilt að koma að undirbúningi fermingarferðalaga og full ástæða til að ítreka það.

En það er einfaldlega EKKERT sem bannar foreldrum að fá frí í tvo daga í skólanum fyrir börnin sín til að sinna sérstökum verkefnum. Það er réttur foreldra skv. þessari námskrá sem vísað er til í bréfi ráðuneytisins til skólastjórnenda.

Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum og forráðamönnum. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Þetta sameiginlega verkefni heimila og skóla kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.

Ég skal ekki draga í efa að eitthvað hafi misfarist á tíðum í skrifræðinu þannig að gagnvart einhverjum hafi litið svo út að ferðirnar væru í tengslum við skóla, en það er auðvelt að laga. Þannig mætti bregðast við þessu með stöðluðu bréfi sem foreldrar skila inn í skólann og óska eftir fríi fyrir barn sitt. Þetta kallar á meiri vinnu fyrir sóknarpresta og foreldra en er í sjálfu sér eðlileg þróun. Frumábyrgð í uppeldi er hjá foreldrum og þeim er heimilt að fá frí fyrir barnið sitt úr skóla til að sinna öðrum verkefnum – það gerist t.d. í tengslum við íþróttaferðir og ýmsa aðra viðburði.

Þegar svo skólarnir sjá að 95%-100% nemenda óska eftir fríi einhverja tvo ákveðna daga, þá er það skólans að ákveða hvort þeir kenna nemendunum tveimur sem fara ekki eða gefa þeim frí. Þannig er skólinn fríaður ábyrgð á ákvarðanatöku í málinu og það eina sem breytist er að fermingarferðin er ekki sett inn á dagatal skólans og mun því koma foreldrum barnanna tveggja sem ekki eru í fræðslunni á óvart.

Viðbrögð kirkjunnar ættu því að vera þau að nýta tækifærið, auka tengsl við foreldra og útbúa eyðublað sem foreldrar geta fyllt út og óskað eftir fríi í skólanum fyrir börnin sín þá daga sem fermingarfræðslan stendur. Í námskrá er tekið sérstaklega fram að:

Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir.

Ég sé því ekki að skólanum sé unnt að bregðast neikvætt við beiðni foreldra um að barnið fái frí til að taka þátt í trúarlegu starfi eins og fermingarfræðslu um takmarkaðan tíma.

Það er mikilvægt í þessari umræðu að halda á lofti gagnkvæmum skyldum allra í málinu. Foreldrar hljóta að eiga rétt á virðingu í garð trúaruppeldis barna sinna, þó þau tilheyri meirihlutahópi.

Sú fullyrðing í bréfinu frá Menntamálaráðuneytinu um að skólum sé “ekki heimilt að veita nemendum í 8. bekk leyfi til að fara í 1-2 daga ferð á vegum kirkjunnar í tengslum við fermingarundirbúning” er þannig augljóst brot á foreldrarétti og í mótsögn við þá áherslu á virðingu fyrir trúar- og lífsskoðunum sem boðuð er í aðalnámskrá grunnskóla. Eins er niðurstaða ráðuneytisins ekki í samræmi við rétt barna til trúaruppeldis sem er tryggður í mannréttindasáttmála Evrópu.

Rétt er að taka fram að ég er vígður til starfa í þjóðkirkjunni og hef um áratugaskeið starfað á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi.

Á hálum ís

Það er áhugavert hvernig sjálfskipaðir fræðimenn í koine-grísku hafa nýtt tækifærið til að koma visku sinni á framfæri síðustu sólarhringana. Það á sér í lagi við þá sem hafa sterkar skoðanir á þýðingu orðsins Arsenokoitoi og telja að hin eina rétta guðdómlega þýðing feli í sér fordæmingu samkynhneigðra. Continue reading Á hálum ís

Hvar er kiljan?

Biblían er ein af þessum bókum sem ég nota nokkuð og  því spennandi að ný íslensk þýðing sé komin út. Hins vegar hef ég ótrúlega litla þörf fyrir að fá ritið í glæsilegu leðurbandi eða með flauelsáferð. Þannig á ég mjög flott eintak af gömlu þýðingunni í mjúku leðurbandi sem ég nota aldrei, en ódýra harðspjalda Biblían mín er hins vegar útkrotuð, hefur komist í kynni við polla og rigningu og stendur fyrir sínu. Eins er NRSV þýðingin í kilju það sem notast er við hér þegar leita þarf í ensku þýðinguna.

Ég spyr því hvers vegna ekki er boðið upp á létta og netta kilju við útgáfu nýrrar Biblíu. Er hugmyndin e.t.v. sú að fyrst sé boðið upp á Biblíur fína fólksins og fermingarbarna og síðan eftir ár eða svo boðið upp á Biblíur til almenningsbrúks?

Launamunur kynjanna

Ég sit og les um kynlífssið- og guðfræði hjá múslímum og hvernig félagslegt umhverfi mótar trúarskoðanir á því sviði. Mér flaug af þeim sökum í hug hvers vegna til sé hópur fólks í vestrænu samfélagi eins og Íslandi, sem telur það skyldu sína að berjast gegn umræðu um launamun kynjanna. Þegar fréttir og umfjöllun birtist um launamun kynjanna, sem reyndar eru misvandaðar, þá er alltaf hópur sem kemur fram og segir launamuninn minni en rannsóknir sýna, telja að þetta sé heimskulegt umræðuefni og virðast trúa því að ástandið sé besta ástand allra tíma.

Á sama hátt virðist til hópar sem berjast gegn umhverfisvernd, aðallega með því að ráðast að þeim persónum sem hafa slegið sig til riddara á því sviði. En umhverfisverndin er reyndar útúrdúr.

En launamunur kynjanna er merkilegur veruleiki sem er til staðar hvort sem hann er 13% eða 30%. Ætli hópurinn sem berst gegn umræðunni trúi því að 13% munurinn sé líffræðilegur?

Dauðasíðan mín

Í vor sat ég áhugaverða fyrirlestraröð um kirkju, samfélag og ungt fólk á vegum Center for Educational Ministry in the Parish (CEMP) en setrið er staðsett hér í Trinity Lutheran Seminary. Einn fyrirlesarinn, Dr Cheryl M Peterson, sem hefur kennt mér trúfræði hér við skólann, fjallaði á áhugaverðan hátt um guðfræðilega umræðu meðal ungs fólks með áherslu á endatímapælingar. Continue reading Dauðasíðan mín

Dhimmi

Torfi kemur með áhugaverða fullyrðingu í ummælum hjá Pétri Björgvini, þar sem hann bregst við viðbrögðum Péturs við ritgerð minni um múslima í Evrópu. Í ummælunum bendir hann réttilega á ógætilega notkun á orðinu Evrópa, þegar e.t.v. væri nær að segja Vestur Evrópa. Ábendingin er réttmæt og mikilvæg. En fullyrðing hans í lok ummælanna eru að mínu mati sínu áhugaverðari. Continue reading Dhimmi

Veikindi

Það fara fljótlega að safnast upp vísar að bloggfærslum á skjáborðinu mínu, þannig bíða nú þegar punktar um Sköpunarsafnið og þar sem ég er búin að kaupa mér miða á Sicko í kvöld bætast væntanlega vísar að færslum um heilbrigðiskerfið við á morgun. Sér í lagi þar sem ég mun eyða næstu viku í að skrifa ritgerð í Bioethics, sem ber vinnuheitið “How to prioritize?” En samspil þess sem ég mun lesa og þess sem ég mun sjá í kvöld má ætla að kalli fram nokkur skrif hér. En ekki núna, væntanlega seinna!

Sköpunarfræðisafnið

Ég fór í dag á hið merka Sköpunarfræðisafn rétt utan við Cincinnati. Nákvæm færsla um ferðina býður betri tíma, en þó var merkilegt að sjá vitnað í James Ussher, sem sérstaklega virtan fræðimann á sviði Biblíuvísinda og ekki síður var það sérstakt fyrir mig persónulega að skilja loksins trúarlegt inntak stórmyndarinnar “Ekki á morgun heldur hinn” sem ég sagði ranglega í færslu fyrir þremur árum að hefði “engin hefðbundin trúarleg tákn”. Hamfarir þeirrar myndar kallast skemmtilega á við Nóaflóðið eins og það er sett fram á safninu. Reyndar minnist ég þess ekki að Veðurfræðingurinn (Nói) í kvikmyndinni hafi verið sérlega mikið fyrir sopann, en hins vegar er ljóst að það voru verulegir brestir í fjölskyldulífi hans. Reyndar kemur ekkert fram um þessa bresti Nóa á sýningu safnsins.

En ég hyggst fjalla nánar um safnið síðar, enda klukkan vel fram yfir miðnætti hér á vegamótelinu sem ég dvelst á í fjallabænum Bridgeport í norðvesturhluta Vestur-Virginíufylkis.

Áhersla á menninguna eina

Unnin verði heildstæð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hafi það markmið að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína. (Stjórnarsáttmálinn)

Næstu vikurnar ætla ég að greina stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með það í huga að skilja hvað er sagt og hvað ekki. Continue reading Áhersla á menninguna eina